Helgsaga og raunsæi á jóladag

Falleg mynd í jólakúlu
Sagan um fæðingu Jesú, jólaguðspjallið, sem lesið var í kirkjum landsins í gær er svolítið eins og falleg glansmynd stráð glimmeri eða falleg mynd inni í glerkúlu sem við getum hrist og snjókornin þyrlast upp. Það er svo margt í henni sem höfðar til okkar innstu tilfinninga, eittvað sem við eigum flest sameiginlegt, hvaðan sem við komum og hvort sem við erum kristin eða ekki.

Jatan og gripahúsin eru eitthvað sem við öll tengjum við hvort sem við erum úr sveit eða borg, frá Afríku eða Íslandi. Við vitum öll hvað þetta er hvort sem við höfum fundið fjárhúsilminn í eigin lífi eða ekki.

Stjarna er eitthvað sem við öll sjáum þegar við erum úti á dimmu kvöldi hvar sem við erum í heiminum, hvort sem við erum rík eða fátæk, trúuð eða vantrúuð.

Englar eru líka verur sem við höfum öll okkar hugmyndir um, hver sem við erum. Þeir eru svo krúttlegir og friðsælir að ekki er hægt annað en hrífast með í englasögum.

Ungir foreldrar að eignast sitt fyrsta barn er nokkuð sem stór hluti mannkyns getur skilið og hefur sjálft upplifað.

Og að lokum, litla barnið. Það gerist eitthvað inni í okkar innsta og viðkvæmasta rými þegar við sjáum lítið nýfætt barn. Þegar þetta litla barn fæðist á kaldri nóttu innan um dýr af barnungri móður, þá getum við ekki hert hjarta okkar eða varið tilfinningar okkar á nokkurn hátt fyrir þeim atburði.

Það er freistandi að láta söguna um fæðingu Jesú Krists vera, greina hana ekki eða skoða á raunsæjan hátt, því þetta er saga sem höfðar meira til hjartans en til skynseminnar. Það er freistandi að láta englana bara vera engla og láta hreinar meyjar fæða börn.

En nú er raunsæi og skynsemi guðsgjöf eins og hjartað og þörfin fyrir hið dularfulla.

Fæðingasögur
Jólaguðspjallið er helgisaga.

Jesús fæddist á þeim tímum þegar hreinar meyjar fæddu mikilvæga menn, valdamikla menn. Fæðingasögur mikilmenna voru prýddar ævintýraljóma. Þannig var það t.d. með fæðingasögur Alexanders mikla og Platóns en sögurnar voru sérstaklega ævintýralegar þegar um fæðingu konunga var að ræða.

Ef til vill  er skýringin sú að þegar fólk vildi sýna að fólk hefði sögulega köllun þá þyrfti að sýna að þeir hefðu haft sérstöðu frá upphafi.

Sagan af því þegar María mey fæddi son er með öðrum orðum ekki alveg einstök fyrir fæðingasögur þess tíma. Sagan um fæðingu Jesú, er saga um fæðingu konungs.

Þegar guðspjallamennirnir Markús og Lúkas skrifa guðspjöllin þá segja þeir söguna af fæðingu Jesú Krists eins og fólk sagði sögur af fæðingum konunga. Þeir voru einnig undir sterkum áhrifum hebresku spámannanna. Jesaja spámaður hafði spáð fyrir um það hvernig unga konan yrði barnshafandi og myndi fæða son sem fengi nafnið Immanúel – sem þýðir, Guð er með okkur (Jes. 7.14)

Þekkir þú Guð
En á jóladegi heyrum allt annað jólaguðspjall. Jóhannes guðspjallamaður kann engar sögur um jötur, engla og hirða. Hann á ekkert glimmer. Jóhannes er yngsti guðspjallamaðurinn og er undir ríkari áhrifum grískra heimspekinga. Hann talar um Orðið sem var til frá upphafi. Um ljósið sem myrkrið tók ekki á móti. Um hið sanna ljós sem heimurinn þekkti ekki.

Þekkir þú Guð?

Ég spyr vegna þess að höfundur jólaguðspjalls jóladags, Jóhannes þessi sem hvorki kunni að segja frá hirðum, stjörnum, englum, jötu nokkru þess háttar sem við tengjum við fallegu jólasöguna, segir okkur í dag frá því hvernig Guðs varð manneskja til þess að koma á tengslum við mannfólkið. Fólkið, við, vorum hætt að þekkja Guð og hann vildi sýna okkur hvað og hvernig Guð væri. „Í upphafi var Orðið, Orðið var hjá Guð og Orðið var Guð…  Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki.“ Heimurinn þekkti hann ekki!

Þekkjum við Guð?
Hver er Guð í þínum augum?

Jesús í jólunum
Í upphafi aðventunnar var viðtal við Maríu Arnlaugsdóttur en hún mun nú halda sín 101 jól. Hún hefur því nokkra reynslu af jólahaldi. Hún sagði frá því að í æsku hafi hún lært að jólin tengdust Guði og væru haldin til að fagna Jesúbarninu, að ekki hafi verið haldið upp á neitt annað. Hún sagði að í hennar ungdæmi hafi jólin verið látlausasti en að í dag sé ofgnótt af öllu og að jólin nú snúist meira um gjafir en Guð. Hún saknar Guðs í jónum og finnst of lítið talað um Guð í aðdraganda jóla. Ég get tekið undir þetta með henni að mörgu leyti þó ekki hafi ég lifað jafn mörg jól og hún. Í fjölmenningarsamfélagi Íslands í dag má ekki mikið ræða trú, jafnvel ekki í aðdraganda jóla. Mér þykir líklegt að samfélagið, sérstaklega Reykjavík, hafi gengið heldur langt í að ýta kristninni til hliðar við innleiðingu fjölmenningar.  Ég vona að þetta muni jafna sig með tíð og tíma.

En, vitið þið, ég óttast þó ekki að jólin hætti að snúast um Jesú því að jólin hætta ekki að vera kristin þó að við segjum ekki jafn margar sögur af Jesúbarninu á opinberum vettvangi (annars staðar en í kirkjunni). Nei, við höldum Jesú í jólunum með því að gefa hungruðum mat, hugga sorgmædd, elska þau sem eru utanveltu, fyrirgefa þeim sem hafa gert eitthvað á okkar hlut og boða vonlausum von. Jesús er með í jólunum svo lengi sem við elskum náungann og komum fram við allt fólk af kærleika.

Ég hef ekki áhyggjur af því að Jesús hverfi úr jólunum þegar ég upplifi náungakærleikann blómstra allt í kringum okkur. Ég sé hann þegar fólk mótmælir því kröftuglega að Reykjavíkurborg loki Vin, sem er skjól fyrir fólk með geðsjúkdóma. Ég sé náungakærleikann þegar fólk mótmælir því að börn og fólk með fötlun sé sent úr landi þegar það þarf sannarlega á skjóli að halda. Ég sé náungakærleikann afar skýrt fyrir þessi jól þegar fjöldi félagasamtaka heldur safnanir og gefur ágóðann í líknarsjóði kirkna og hjálparsamtaka til þess að hjálpa þeim fyrir jólin sem búa við fátækt. Og þegar einstaklingar koma í kirkjuna í og gefa í líknarsjóð og deila þannig með sér. Já, svo lengi sem við höldum áfram að mótmæla óréttlæti og styðja þau sem þurfa á hjálp að halda þá er Jesús með í jólunum.

Trú snýst ekki eingöngu um það hversu oft þú ferð í kirkju, hvort skólabörn fari í heimsókn í kirkjuna eða hvort þú kunnir trúarjátninguna þó vissulega sé þetta allt gott og mörgum okkar mikilvægt. Trú snýst um að trúa því að til sé eitthvað æðra okkur sem er meiri kærleikur en við höfum nokkurn tíma kynnst og sem fær okkur til að vilja gera vilja Guðs.

Þekkir þú Guð?
Og, þá aftur að spurningunni: „Þekkir þú Guð“?

Ef þú trúir á eitthvað æðra þér sem getur birst okkur í ótrúlegustu aðstæðum og jafnvel í ótrúlegasta fólki, þá þekkir þú Guð. Ég trúi því að Guð sé hinn æðsti kærleikur sem birtist okkur þegar mest á reynir en við tökum sjaldnast eftir því vegna þess að Guð er ekki eins við höldum. Ég trúi því að Guð geti birst í þér og mér þegar við reynumst hvort öðru vel. Ég trúi því líka að Guð geti birst í litla barninu sem fæddist í dag og í heimilislausu konunni sem kom í kirkjuna að þiggja styrk fyrir jólin og þeim sem gaf nafnlaust af örlæti sínu. Ég trúi því að Guð sé mitt á meðal okkar í öllu því sem skiptir okkur máli.

Fallega jólaguðspjallið sem lesið var í kirkjum landsins í gær er afar ólíkt því sem við heyrum í dag. Í gær var það fallega fæðingasagan með englunum, stjörnunni og hirðunum sem sveif yfir öllu. Í dag er það raunsæið þar sem við veltum fyrir okkur hvort við þekkjum Guð. Bæði er mikilvægt. Við þurfum helgisögurnar því þær koma tilfinningum og hugmyndum áleiðis. Þær segja okkur annan sannleika en hinn sögulega. Um leið þurfum við raunsæið því það er hluti af trúarþroskanum.

Dýrð sé Guði sem þekkir okkur og vill að við þekkjum sig.

Amen.