Heilsubætandi þögn, bingó og yoga

Það var all sérstakt að lesa pistil Sifjar Sigmarsdóttur í Fréttablaðinu á laugardaginn var. Sif er fastur penni á blaðinu og ein af mínum uppáhalds en í þetta skiptið varð ég fyrir miklum vonbrigðum með skrif hennar.

Kannski er skýringin á furðulegum staðhæfingum hennar um kirkjuna sú að Sif þekkir því ekki viðfangsefnið. Hinn möguleikinn er að hún sé hreinlega að ná sér í prik hjá þeim hópi sem hefur horn í síðu kirkjunnar og kristinnar trúar. Þessi yfirlætislegi tónn Sifjar bendir til hins síðarnefnda:

En er eitthvað fjarstæðukenndara við það að ríkið kosti það að fólk finni sér fróun í fjöri og félagsskap hvers annars sér til heilsubótar en sitji í rykmettaðri þögn og biðli til ósýnilegrar veru um að laga það sem á bjátar?

Ég hefði einmitt haldið að þögn, bæn og íhugun (sem ekki er svo frábrugðin yoganu) hefði heilsubætandi áhrif. Þó pistlahöfundur sjálfur sjái það ekki þá finnst mér lágmarkskrafa að hún beri virðingu fyrir upplifun og trú annarra og kynni sér hvaðan fjármunir til starfsemi kirkjunnar koma.

Reyndar benda þessi ummæli höfundar til þess að hún hafi litla hugmynd um efnið:

Um allt land standa tómar kirkjur sem reknar eru fyrir fé úr pyngjum skattgreiðenda. Væri ekki nær að fara að fordæmi breskra heimilislækna og breyta þeim einfaldlega í félagsmiðstöðvar fyrir fólkið í hverfunum? Í stað presta störfuðu þar jógakennarar og bingóstjórar. Í staðinn fyrir uppreist altari kæmi dansgólf, í staðinn fyrir messuvín væri boðið upp á kaffi og í staðinn fyrir þrúgandi þögn heyrðist þar tónlist, hlátur, skvaldur og slúður.

Þessa lýsingu kannast þau ekki við sem á annað borð þekkja til starfs kirkjunnar. Þar sem ég þekki til eru kirkjurnar fullar af fólki alla daga vikurnnar. Þar er boðið upp á bæn og íhugun, yoga og bingó, dans og gleði. En þar er líka í boði dýpt og samtal sem erfitt er að finna í hröðu samfélagi númtímans. Í mörgum kirkjum er tú og trúleysi rætt á fordómalausan hátt og fólki gefið rými til að vera það sjálft.

Kirkjan er alltaf að reya að nýta það fjármagn sem hún hefur, og sem kemur frá félagsgjöldum meðlima, til þess að bjóða fólki upp á starfsemi sem hefur einhverja merkingu og dýpt. Það er ekki gert með fjármunum ríkisins heldur með félagsgjöldum þeirra er tilheyra kirkjunni. Því er þó ekki þannig háttað að kirkjan kanni félagsaðild áður en fólki er veitt sálgæsla, hjónabandsráðgjöf, útför, hjónavígsla, skírn, íhugun, yogabæn eða þátttaka í páskabingói og eldribogarastarfi með tilheyrandi dansi og fjöri. Kirkjan er til fyrir öll þau er áhuga hafa og þó nokkur hluti þeirra er sækja þjónustu kirkjunnar eru ekki meðlimir.

Því væri gott ef fastir pistlahöfundar dagblaða, könnuðu málin áður en þeir vega að starfsheiðri fólks og geri lítið úr því starfi er stór hluti þjóðarinnnar tekur þátt í. Jafnvel þó þetta fólk biðji til ósýnilegrar veru og þyki gott að sitja einstaka sinnum í þögn.

En hvað sem einstaka pistlahöfundum finnst þá er kirkjan á Íslandi einstaklega lifandi samfélag sem tekur þér opnum örmum.