Ég væri til í að geta farið til Jesú með allt fólk sem hefur aðrar skoðanir og ég á því sem skiptir máli. Fólk sem er leiðinlegt við mig vegna þess að því finnst trú heimskuleg og þolir ekki presta. Fólk sem mér finnst vera vont. Ég væri til í að fara með alla óþekka krakka til Jesú og biðja hann að gera þá þæga. Svo ekki sé minnst á fólk sem beitir ofbeldi, já og forseta Bandaríkjanna og íhaldsama karlinn sem þolir ekki frjálslyndan prest sem auk þess er kona. Jesús má alveg leggja hönd yfir hann og opna augu hans fyrir því að hann hefur rangar skoðanir. Mikið held ég að heimurinn yrði mikið þægilegri ef fólk væri aðeins líkara mér.
Um síðustu helgi tók ég þátt í gleðigöngunni ásamt mörg þúsund manns. Á þessum degi fylltist Reykjavík af alls konar fólki sem vildi sýna að það fagnaði fjölbreytileikanum, að það væri opið fyrir því að við erum ólík og alls konar.
Fyrir nokkrum dögum rakst ég á nokkuð sem kallast jafnvægispróf Heilsufélagsins. Þessu prófi eða könnun er ætlað að meta andlegt og líkamlegt jafnvægi fólks. Ég tók þetta próf og það vakti athygli mína að ein spurningin var um það hvort og hversu reglulega ég gerði góðverk.
Þarna var það að gera góðverk metið sem jákvæður þáttur í andlegu og líkamlegu jafnvægi fólks. Þetta ætti reyndar ekki að koma á óvart því rannsóknir hafa sýnt að, það að gera góðverk geti aukið lífshamingju fólks.
Fyrir nokkrum mánuðum síðan tók ég þátt í rannsókn, sem verið er að vinna, á áfallasögu kvenna. Þessi rannsókn er unnin á vegum Háskóla Íslandsog rannsóknarefnið er hvaða áhrif áföll hafa á heilsufar kvenna en öllum konum á Íslandi er boðið að taka þátt. Rannsóknin stendur enn yfir en ég var á fyrirlestri um daginn hjá dr. Unni Önnu Valdimarsdóttur, prófessori í læknadeild HÍ og þar kom fram að allt bendi til þess að áföll hafi ekki aðeins áhrif á heilsu kvennana sjálfra heldur einnig á komandi kynslóðir. Þannig geta áföll haft áhrif á meðgöngu fæðingaþyngd, fyrirburafæðingar o.fl.. Þetta gæti jafnvel þýtt að áföll kvenna geti haft áhrif á nokkrar kynslóðir. Sjálfsagt gildir eitthvað svipað um karla, því það er hægt að hafa áhrif á komandi kynslóðir með öðrum hætti en á meðgöngu og í fæðingu, og mögulega verður það einhvern tíma rannsakað.
I
Áður en ég var samþykkt sem prestsefni í Sænsku kirkjunni fyrir nokkuð mörgum árum þurfti ég að fara í gegnum heilmikið prógramm. Ég þurfti að vinna verkefni, ein og með öðrum. Ég þurfti að fara í viðtöl við presta, djákna, prófast, biskup, lækni og sálfræðing. Það átti sannarlega að ganga úr skugga um að ég væri hæf til þess að vera prestur.. Í einu þessara viðtala var ég beðin um að lýsa bænalífi mínu og sambandi mínu við Guð. Ég verð að viðurkenna að það kom nokkuð á mig enda þótti mér þetta vera mitt einkamál og ekki alveg koma þessum presti við hvernig ég hagaði mínu bænalífi. Ég var byrjuð að hugsa hvernig ég gæti fegrað mitt ófullkomna bænalíf því satt best að segja var það yfirleitt frekar óformlegt auk þess sem ég gleymdi oft að biðja. Ég byrjaði að reyna að stynja einhverju upp en fljótlega ákvað ég að einlægnin væri best og ég sagði honum að ég ætti í mjög persónulegu og óformlegu sambandi við Guð. Að ég talaði við Guð reglulega svolítið eins og vinkonu eða vin en minna færi fyrir fallega orðuðum og formlegum bænum. Og þegar ég var komin á skrið trúði ég honum fyrir því að ég væri alveg viss um að bænin hefði bjargað lífi mínu þegar lífið var sem erfiðast og ég var að ganga í gegnum áföll.
Nú er nokkuð um liðið síðan þetta var en ég er enn í góðu sambandi við það sem ég kalla Guð þó það hafi breyst og þróast með árunum í takt við að guðsmyndin hefur breyst.
Ert þú trúgjörn/trúgjarn? Er auðvelt að fá þig til að trúa hinu og þessu eða efast þú um allt þar til þú færð sannanir sem duga þér?
Ég held að ég sé ekkert sérstaklega trúgjörn. Það er ekki svo auðvelt að plata mig. Held ég. En ég er heldur ekki þannig að ég trúi engu. Ég trúi fullt af hlutum sem ég hef ekki sannreynt sjálf. Ég trúi því að maðurinn minn elski mig þrátt fyrir að ég muni aldrei geta fengið fullkomna sönnun á því. Ég hef ákveðnar vísbendingar um það en síðan verð ég að velja hvort ég trúi því eða ekki.
Í dag er ekkert sérstaklega „inn“ að trúa á Guð, í það minnsta í ákveðnum hópum samfélagsins. Þessir hópar hafa sterka rödd og fá gott rými í fjölmiðlum. Stundum er hæðst að þeim sem trúa og einhvern vegin gert ráð fyrir því að trúað fólk hljóti að vera bókstafstrúar. Það er eitthvað sem ég skrifa ekki undir og hef aldrei gert. Auk þess er bókstafstrú afar sjaldséð meðal leiðtoga Þjóðkirkjunnar. En trúleysi getur svo sem verið jafn bókstaflegt og trú og kannski er auðveldara að gagnrýna trú ef fólk gengur út frá því að hún sé bókstafleg.
Mér finnst töff að trúa en mér finnst það ekki alltaf auðvelt. Það er ekki auðvelt vegna þess að ég efast oft líka. Trú er nefnilega ekki bara eitthvað átakalaust og áhættulaust fyrirbæri, einhver þægilegur dvali. Það getur verið barátta að trúa vegna þess að skynsöm manneskja getur varla trúað án þess að efast. Lesa áfram „Að trúa með efa og efast með trú“
Pétur og skírnin Ég las bók fyrir nokkru eftir sænskan höfund sem heitir Göran Tunström. Höfundurinn er sænskur en þetta er skáldsaga sem gerist á Íslandi og fjallar um Íslendinga. Í þessari bók er að finna áhugaverða lýsingu á skírninni og vanda sem upp kemur í sambandi við hana.
Þegar aðalsöguhetjan, Pétur spyr föður sinn hvort hann sé skírður fer faðir hans undan í flæmingi og vill helst ekki svara spurningunni. Þegar sonurinn gengur á hann kemur í ljós að faðirinn hefur ekki hugmynd um hvort hann sé skírður eða ekki. Ástæðurnar eru þær að þegar Pétur var nýfæddur giftu foreldrar hans sig og í veislunni er veitt vel bæði af mat og drykk. Við háborðið, ásamt brúðhjónunum og Pétri, situr biskupinn sem gaf saman foreldrana. Hann hafði, ásamt borðfélögum sínum, fengið sér heldur mikið neðan í því og allt í einu situr hann með ungabarnið, Pétur í fanginu. Móðirin hafði skroppið á klósettið og lagt dreginn í fang biskups. Og hvað gerir biskup þegar hann fær lítið barn í hendurnar. Jú, hann skírir það. Það gerist einhvern veginn að sjálfu sér. En þegar faðir drengsins sér þetta verður hann reiður mjög og vill komast að því hvort barnið væri raunverulega skírt. Það kom nefnilega í ljós að biskupinn hafði ekki skírt barnið upp úr vatni, heldur einhverju mun sterkara.
Nokkrum mánuðum síðar var amman að passa drenginn. En það vildi svo til að faðirinn fór ekki í vinnuna þennan dag vegna mígrenis. Hann lá og hvíldi sig inni í rúmi en amman vissi ekki að hann væri heima. Þar sem faðirinn liggur í rúminu heyrir hann ömmuna tala við einhvern inni í herbergi barnsins. Hann fer fram til þess að kanna málið. Og hvað haldið þið að hann hafi séð. Jú, þarna stendur amman bogin yfir barninu í rúminu og eys það vatni um leið og hún skírir það í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda. Pabbinn varð ekki jafnreiður í þetta skiptið. Kannski var hann orðinn vanur því að fólk reyndi að skíra barnið hans. En þetta voru ástæður þess að skírn Péturs var ráðgáta. Pétur komst aldrei að því hvort hann væri skírður.
Þrátt fyrir að þetta sé skáldsaga þá sýnir hún okkur hve alvarlegum augum fólk hefur litið skírnina í gegnum tíðina. Amman var ómöguleg yfir því að barnabarnið hennar væri ekki skírt. Faðirinn var reiður yfir því að fólk skipti sér að ákvörðun hans um að láta ekki skíra son sinn. En stóra spurningin í þessu samhengi er hvort drengurinn var skírður eða ekki. Bæði biskupinn og amman skírðu í nafni Guðs Föður, Sonar og Heilags Anda, biskupinn notaði að öllum líkindum Romm eða Vodka í stað vatns en amman notaði vatn. Biskupinn var skírður, prestvígður og vígður sem biskup en amman var skírð.
Var Pétur skírður?
Sakramentin Skírnin er annað af tveimur sakramentum kirkjunnar okkar. Hitt sakramentið er máltíð Drottins, altarisgangan. Sakramenti er gjöf frá Guði sem aldrei er hægt að taka frá okkur eftir að við höfum þegið það. Sakramentin eru nokkurskonar erfðaskrá Krists til okkar, sem færir okkur nær honum. Þess vegna þurfum við ekki og getum ekki, tekið skírn aftur þegar við einu sinni höfum verið skírð. Við getum að sama skapi ekki látið afskíra okkur ef okkur snýst hugur og við missum trúna.
Til þess að eitthvað geti verið sakramenti í okkar Lúthersku kirkju þarf þrennt til: 1) Jesús þarf að hafa sagt að við ættum að gera þetta til þess að komast nær honum SKIPUN. 2) Jesús þarf að hafa gefið okkur þau orð sem við segjum þegar við framkvæmum sakramentið ORÐ. 3) Hann þarf að hafa sagt hvaða efni við ættum að nota þegar sakramentið er framkvæmt EFNI. Skírnin uppfyllir allt þetta. Jesús sagði að við ættum að skíra allar manneskjur. Hann sagði að við ættum að gera það í nafni Guðs Föður (skapara), Sonar og Heilags Anda og hann sagði að við ættum að nota vatnið, sem tákn um endurfæðingu, hreinsum og eilíft líf.
Sagt er að í skírninni endurfæðumst við fyrir vatn og heilagan anda og þannig komumst við inn í samfélag Guðs, faðm Guðs á sérstakan hátt.
Vattnið er mikilvægt efni í skírninni því það táknar lífið. Við getum ekki lifað án vatns og í skírninni táknar vatnið eilífa lífið sem hefst þegar með skírninni og lýkur aldrei. Vatnið táknar einnig hreinsun og hreinleika. Við þurfum vatn til þess að geta þvegið okkur. Og skírnarvatnið táknar að við hreinsumst af allri synd. Það þýðir ekki að við munum aldrei gera neitt af okkur eftir að við höfum verið skírð, en það þýðir að við getum alltaf gert ráð fyrir fyrirgefningu Guðs hvað sem við gerum og hvernig sem við erum.
Skírn Jesú Í dag heyrðum við frásögnina af því þegar Jesús var skírður í ánni Jórdan. Við veltum því kannski mörg fyrir okkur hvers vegna sjálfur Jesús, birtingarmynd Guðs á jörðu, hafi þurft á skírn að halda. Ena voru það líka fyrstu viðbrögð Jóhannesar, frænda hans, þegar hann biður hann að skíra sig. Honum fannst hann ekki verður þess að skíra Jesú.
En ég held að í þessari frásögu felist mikilvæg skilaboð; Skírnin er fyrir allt fólk, hver sem við erum og hvernig sem við erum. Engin manneskja er of „góð“ eða „fullkomin“ til þess að þurfa á skírn að halda og engin vígsla önnur er skírninni fremri ekki prestsvígsla, ekki biskupsvígsla. Jesús var vissulega hluti af Guði samkvæmt kristinni trú. En hann var líka manneskja og sem slík þurfti hann á skírn að halda.
Það sem er einnig mikilvægt í þessari frásögn er að Jesús skírði sig ekki sjálfur. Hann fékk Jóhannes til verksins. Á sama hátt þurfum við öll á öðru fólki að halda. Prestur þjónar ekki sjálfum sér og sálfræðingurinn tekur ekki sjálfa sig í meðferð. Læknir þarf að leita til annars læknis þegar eitthvað amar að og og söngkonan syngur ekki fyrir sjálfa sig. Engin manneskja er fullkomlega sjálfri sér nóg.
Var Pétur skírður? Þegar biskupinn skírði Pétur notaði hann ekki vatn. Amman notaði vatn en hún var ekki prestvígð og hvað þá vígður biskup. Bæði skírðu þau Pétur í nafni Guðs skapara, Sonar og Heilags Anda. Svo hvað haldið þið? Var hann skírður?
Já hann var skírður og það var fyrst og fremst amman sem skírði hann. Hún sagði réttu orðin og hún hellti vatni yfir höfuð barnsins og hún var sjálf skírð. Biskupinn sagði réttu orðin en Vodka eða Romm táknar ekkert af því sem skírnarvatnið stendur fyrir. Vodka táknar ekki eilíft líf og Romm táknar ekki hreinleika. Það sem amman gerði var að hún skírði barnið skemmri skírn og það getur hver skírð manneskja gert ef ekki næst í prest. Skemmri skírn á þó einungis að framkvæma ef líf barns er í hættu og líf Péturs var ekki í hættu. En amman hafði áhyggjur af aumingja barninu sem ekki var skírt.
Pétur var aldrei skráður sem skírður í kirkjubók en fyrir Guði var hann skírður. Og þrátt fyrir að hann hefði ekki verið skírður af ömmu sinni hefði hann þó verið jafn heitt elskaður af Guði því Guð er stærri er skírnin. Ég er sannfærð um að Guð, sem er kærleikur, elskar allar manneskjur hvort sem þær eru skírðar eða ekki. Skírnin er afar mikilvæg fyrir okkur mannfólkið og ein fallegasta gjöf sem við getum þegið, en Guð þarf ekki á henni að halda á sama hátt og við. Guð er stærri en svo að hans kærleikur Guðs sé takmarkaður við skírnina.
Dýrð sé Guði sem gaf okkur skírnarsakramentið en á um leið svo mikinn kærleika að hann takmarkast ekki við skírnina.
Amen.