Erkitýpur og ofurkonur

Hér á eftir eru fjórar hugleiðingar um erkitýpur og ofurkonur. Tekist er á við erkitýpurnar Maríu og Evu, þekktustu kvenpersónur Biblíunnar. Ofurkonan er tilbrigði við texta úr Orðskviðunum og hver þekkir ekki ofurkonu samtímans? Allar mætast þessar konur í Móðurinni, verki Kristínar Gunnalugsdóttur, myndlistarkonu sem nú hangir í kapellu Grafarvogskirkju. Verkið fyllir næstum heilan vegg í kapellunni og er brúnt með gylltum þráðum er teygja sig til himins.

Höfundar eru Arna Ýrr Sigurðardóttir, Guðrún Karls Helgudóttir og Kristín Gunnlaugsdóttir.

Eva
Þetta var allt hennar sök. Það var hún sem valdi að hlusta á snákinn og láta freistast í stað þess að vera sterk. Í stað þess að vera hlýðin og góð. Hún óhlýðnaðist og þannig var það hennar verk að hið illa kom inn í heiminn sem fram að því hafði verið sannkölluð paradís.

Hann hafði ekkert með þetta að gera. Hún tældi hann. Hún fékk hann til þess að fá sér bita af hinum forboðna ávexti. Ef ekki hefði verið fyrir hana hefði hann sjálfsagt látið þetta vera og lifað glaður og góður í paradís.

Hún fékk hann til þess að kaupa vændi. Hann hefði aldrei gert það nema vegna þess að konan tældi hann. Þetta var allt henni að kenna, ekki honum.

Hún fékk hann til að lemja sig því hún ögraði honum.

Hún fékk hann til að áreita sig því hún var í svo stuttu pilsi.

Hún er konan sem allir karlar þrá en enginn vill giftast því hún er hættuleg. Hún hlustaði á snákinn, varð forvitin og lét til leiðast að bragða á hinum forboðna ávexti og því heita strippklúbbar eftir henni, Eva. Þess vegna heita verslanir með kynlífsleikföng eftir henni, Eva. Þess vegna er henni refsað af fólki með því að vera ávalt sú seka. Og henni er refsað af Guði með því að þjást þegar hún fæðir börn.

Illskan kom inn í heiminn vegna Evu sem hlustaði á snákinn og fékk sér bita af ávextinum og bauð Adam með sér. Adam fékk sér vissulega bita líka en hann hefði aldrei gert það ef Eva hefði ekki átt frumkvæðið.

Eva er upphaf illskunar í heiminum. Hún stendur fyrir allt sem er hættulegt en um leið er hún svo áhugaverð…

Eða hvað!  Getur verið að erkitýpan Eva sé eitthvað allt annað og meira en þetta?

Er hún kannski konan sem þorði að verða fullorðin og horfast í augu við dauðann og endanleika lífsins. Konan sem þorði að fá sér bita á ávextinum og þroskast og sjá lífið eins og það er.

Var Eva kannski konan sem þráði þekkingu og visku og tók því ákveðna áhættu sem varð til þess að hún varð að horfast í augu við raunveruleikann? Var Eva kannski konan sem vildi ekki lifa í blekkingu, þekkingarleysi og barnaskap?

Snákurinn sagði henni satt. Hann laug engu. Hann sagði að hún myndi læra að þekkja hið góða frá hinu illa. Er það ekki einmitt það sem við þurfum til þess að komast af í heiminum? Að losa okkur við barnaskapinn og útópíuna og eilífa paradís og öðlast kjark til þess að horfast í augu við heiminn eins og hann er?

Hluverk Evu í hinni ljóðrænu frásögn í fyrstu Mósebók var ekki að kollvarpa heiminum og gera hann að verri stað. Hið illa er ekki hennar sök. En Eva hafði kjarkinn til þess að takast á við heiminn og hætta að lifa í daumi. Hún vildi öðlast þekkingu. Hún vildi þroskast. Hún vildi verða fullorðin.

Eva er ekki ein erkitýpa. Eva er margar týpur. Hún er týpan sem þráir þekkingu og fróðleik. Sú sem sér heiminn eins og hann er og tekst á við hann eftir því. Kannski er hún vændiskonan sem tælir aumingja karlinn Kannski er hún háskólaprófessorinn eða hótelþernan sem fór í verkfall á föstudaginn var. Eva er þú og Eva er ég. Við erum Eva.

Freistingarsagan er sagan um okkur mannfólkið. Hún fjallar um sársaukann sem fylgir því að verða fullorðin. Kannski er paradís ekki góður staður fyrir okkur þegar upp er staðið því við þurfum að læra að þekkja munin á góðu og illu. Konan sem öðlast þekkingu á auðveldara með að bjarga sér og lifa af í þessum heimi. Kona sem þekkir réttindi sín getur nýtt sér þau fremur en kona sem veit ekki hvaða möguleika hún hefur. Kona sem veit að það er ekki í lagi að brjóta á henni er líklegri til þess að koma sér út úr vondum aðstæðum en sú sem er alin upp við það að þetta séu hennar einu örlög.

Þekkingin bjargar ekki öllum konum. Hún bjargar ekki öllu. En hún getur breytt miklu. Þökk sé Evu sem hafði kjarkinn til þess að sækja hana.
Höf. Guðrún Karls Helgudóttir

María
Við þekkjum öll Maríu. Guðsmóðurina. Fyrirmynd allra kvenna, annáluð fyrir auðmýkt, hógværð, mildi, kærleika, fórnfýsi, og undirgefni. María er sú sem tekur örlögum sínum með æðruleysi. María er sú sem efast ekki um orð Guðs. María er sú sem hlýðir og gerir það sem henni er sagt. María er hin fullkomna kona. Svo fullkomin að hún verður ófrísk án þess að lifa kynlífi. Svo fullkomkin að hún gengur með og fæðir son sinn, án þrautar. Án morgunógleði. Án grindargliðnunar. Án meðgöngusykursýki. Án þess að fá bjúg. Án þess að þurfa mænudeyfingu og hláturgas. María er sú sem við eigum allar að vera, sú sem allir karlmenn þrá. Ekki sem ástkonu, heldur sem hina fullkomnu eiginkonu og hina fullkomnu móður. María er sú sem stendur að baki manni sínum og styður hann í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur. Sú sem fyrirgefur eiginmanninum þegar honum verður laus höndin. Sú sem ver manninn sinn þegar hann verður fyrir skynsemisrofi og kaupir óvart vændi, því að hún er ekki nógu skilningsrík. Sú sem tekur ábyrgð á óviðeigandi hegðun og biðst afsökunar á því sem ekki er henni að kenna.

María nýtur náðar Guðs. Í gegnum tíðina höfum við skilið það þannig að hún sé útvalin, og hafi áunnið sér náð Guðs í gegnum móðurhlutverkið. En engillinn segir ekki við hana: Þú sem munt njóta náðar Guðs ef þú gerir það sem þér er sagt. Hann segir: Þú nýtur náðar Guðs. Og María spyr spurninga. Hvernig má þetta verða? Og engillinn virðir hana svars.  Og María samþykkir að taka að sér verkefnið sem henni er falið, hún segir já!

Hvað ef María hefði sagt nei? Hvað ef María hefði sagt: Nei, ég get ekki hugsað mér þetta hlutverk. Þetta eru þau örlög sem flestar ungar, ógiftar konur, óttast mest í lífinu. Að verða ófrískar utan hjónabands. Það er of dýrkeypt. Það mun jafnvel kosta mig lífið.

Hefði María getað sagt nei? Kannski reyndi hún það. Kannski sagði hún nei… Kannski hafði hún reynt að berjast gegn þeim sem nauðgaði henni. Manni sem neytti aflsmunar og kom vilja sínum fram við hana. Kannski hrópaði hún Nei!

Við erum allar María. Við höfum ekki alltaf val. Við reynum stundum að berjast við ofurefli. Við reynum stundum að segja Nei, og það er ekki hlustað á okkur. Og um leið eigum við að vera prúðar og stilltar. Taka því sem að höndum ber. Vera fullkomnar. En við erum það ekki. Við erum manneskjur af holdi og blóði. Eins og María. Og eins og María njótum við náðar Guðs. Við erum Guði þóknanlegar. Ekki vegna þess að við ölum börn, ekki vegna þess að við erum stilltar og prúðar, heldur einfaldlega vegna þess að við erum elskuð Guðs börn, hluti af Guðs góðu sköpun.
Höf. Arna Ýrr Sigurðardóttir

Tilbrigði við Orðskviðina 31. 10-31:

Dugmikla konu, hver þekkir hana?
Hún er dýrmætari en perlur.
Maki hennar treystir henni
og það er gott að vera með henni.
Hún gerir lífsförunauti sínum gott og er
honum trú alla ævidaga sína.
Hún tekur til og setur í þvottavél,
henni fellur sjaldan verk úr hendi.
Hún er verslar í matinn þó Bónus
sé ekki í leiðinni.
Hún fer snemma á fætur,
hitar kaffi, tekur til morgunmat handa öllum
og kannar hvort allir fjölskyldumeðlimir þekki
verkefni dagsins.
Ef hana langar í nýja skó kaupir hún þá og
ef hún vill skipta um lit á veggjunum í stofunni,
málar hún þá.
Hún fer í ræktina þrisvar í viku, lyftir lóðum,
hleypur á brettinu og æfir jóga.
Hún finnur að það sem hún gerir skiptir máli,
veit að hún er í ábyrgðarmiklu starfi
og stundum þarf hún að sitja við tölvuna
fram eftir kvöldi og ljúka við það sem hún
náði ekki að gera yfir daginn.
Hendur hennar renna eftir lyklaborðinu
þegar hún skapar nýja heima í tölvunni,
þegar hún greiðir reikningana.
Hún heimsækir eldri ættingja sína þegar hún getur
og hún gefur reglulega í Hjálparstarf kirkjunnar.
Hún býr börnin sín vel fyrir veturinn svo þeim verði
ekki kalt á leikskólanum.
Hún er glæsileg til fara.
Blandar saman notuðum fötum og nýjum.
Hún flokkar ruslið og
fer með allt sem hægt er í endurvinnslu.
Hún er bjartsýn og sjálfsörugg.
Hún er sátt við sjálfa sig.
Í því felst glæsileiki hennar.
Hún bloggar af kærleika
og reynir að tala vel um allt fólk.
Hún er börnum sínum góð fyrirmynd og
á trúnað þeirra og makans.
Hún er dugleg en kann líka að
slappa af og horfa á góða mynd í sjónvarpinu.
Börnin hennar vilja líkjast henni og maki hennar
hrósar henni.
„Margar konur hafa verið til fyrirmyndar
en þú tekur þeim öllum fram.“
Kynþokkinn er svikull og fegurðin hverful
en trúuð kona á kreppu tímum á hrós skilið.
Hún njóti ávaxta vinnu sinnar og verk hennar
munu að lokum vekja athygli.
Þekkir þú þessa konu? Ég þekki hana.

Ofurkonan
Ég þekki líka konuna sem leyfir sér að slappa af fyrir framan sjónvarpið, tölvuna eða við handavinnu í stað þess að setja í þvottavél eða taka til.

Ég þekki líka konuna sem sér til þess að verkaskipting hennar og makans sé jöfn.

Ég þekki konuna sem veit að hún er með lægri laun en maðurinn sem var ráðinn um leið og hún og gegnir samskonar starfi. Hún getur ekki gert neitt í því þar sem launaleynd ríkir í fyrirtækinu.

Ég þekki konuna sem virkar svo sterk og sjálfsörugg út á við en verður fyrir stöðugu ofbeldi og niðurbroti heima hjá sér. Frá manneskjunni sem hún deilir með borði og sæng.

Ég þekki konuna sem er með hærri laun en maki sinn og hann samgleðst henni.

Ég þekki konuna sem nær ekki endum saman því hún er einstæð með þrjú börn og á örorku.

Ég þekki konuna sem prumpar aldrei fyrir framan manninn sinn því hún er dama.

Ég þekki allskonar konur.

Mikið væri gaman að vera þessi ofurkona sem hér var lýst og verða aldrei þreytt. Eða að verða bara hæfilega þreytt svo ég sofi vel.

En hver er þessi ofurkona? Er hún til?

Já, þessi kona er til og við þekkjum hana en mögulega er hugtakið „ofurkona“ þó ekki réttnefni því það er ólíklegt að ein manneskja geti haldið út allan þennan fullkomleika sem hér var lýst.

Ofurkonan er hver einasta kona sem gerir sitt besta í heimi þar sem konum hefur verið gefið að sök að hafa komið með illskuna inn í heiminn, að vera orsök alls ills. Ofurkonan er sú sem lifir af í heimi þar sem konan á helst að vera bæði hrein mey og móðir samtímis og segja já við örlögum sínum hver sem þau eru.

En ofurkonan er líka konan sem segir nei við þeim örlögum sem henni eru ætluð og er móðir án þess að vera meyja og er meyja án þess að vera móðir.

En ofurkonan er líka konan sem leitar þekkingar, og horfir framan í forgengileikann og neitar að bera sökina á illskunni sem á hana er klínd.

Ofurkonan er þú og ég. Ofurkonan er allar konur og allar mætast þær í Móðurinni. Í verkinu þar sem hið jarðneska er orðið heilagt og þar sem hið heilaga er jarðneskt.
Höf. Guðrún Karls Helgudóttir

Móðirin.
Verkið Móðirin fjallar um þann jarðneska veruleika sem við þekkjum og æðri veruleika sem við leitumst við að finna. Jarðbrúni liturinn vísar til ilmandi moldarinnar, það er jörðin sem við komum frá og hverfum til.  Gullsaumurinn og upphafin blómsköpin eru eins og línur milli stjarna á himinfestingunni um hánótt og breiða úr sér. Þannig sameinar verkið himinn og jörð, hið andlega og hið veraldlega.

Í gegnum tíðina hefur sú hefð myndast að konan sé skilgreind útfrá aðgreindum hlutverkum.  Það er móðurhlutverkið og það að fórna sér fyrir aðra. Það er skækjan eða sú sem er sjálfstæð og í tengslum við hvatir sínar. Og nú hefur ofurkonan í samtímanum bæst við, konan sem getur allt og virðist engin takmörk sett. Ég get ekki ímyndað mér að konur hafi búið þessar skilgreiningar til um sjálfa sig – og þótt við gegnum mörgum hlutverkum í lífinu, bæði karlar sem konur, eru þau ekki aðskild. Öll höfum við marga fleti og mismunandi þarfir í okkar persónulega líf.  Ég þekki enga konu sem býr ekki yfir öllum þessum hlutverkum, sameinuðum í einum og sama líkamanum og lífinu. 

Með saumuðu veggteppi er vísað til aldagamallar hefðar kvenna og hannyrða. Konur saumuðu og sýndu þar með stétt sína og stöðu, hvort sem var að vefa veggteppi fyrir kalda hallarveggi, gullsaum fyrir kirkjuna, eða staga í sokka og sauma allt sem þurfti fyrir heimilið. Hversu margar konur hafa ekki saumað út rósir?

Við þekkjum flest klukkustrenginn, útsaumuð mynd sem féll af hógværð inn í þröngt bil einhverstaðar til hliðar á heimilinu, gjarnan milli dyra.

Myndmál klukkustrengsins Móðirin, krefst allrar þeirrar stærðar sem möguleg er og er löngu vaxin uppúr hógværðinni að sitja hljóð til hliðar. Verkið tekur sér stórt pláss því umræðan sem það skapar er mikilvæg í nútímasamfélagi.  En það býr einnig yfir mýkt andlegra sanninda, jafnvægis, sáttar og kærleika.

Kvensköp eru tabú í samtímanum.  Fátt hefur valdið jafn mikill hneykslun eða verið misnotað  gegnum tíðina, bjagað og bælt og þetta mikilvæga líffæri kvenna. Fyrir mér er þetta verk tilraun til afbælingar en vísar á sama tíma til andlegs og veraldlegs veruleika.

Í Móðurinni mætast allar konur og þegar ég lít til verksins segir það mér : Öllu er  óhætt, allt er gott, harla gott.
Höf. Kristín Gunnlaugsdóttir

Hugleiðinar þessar voru fluttar í útvarpsmessu í Grafarvogskirkju 10. mars 2019.

Freki karlinn, rithöfundurinn og persónurnar fjórar

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju 10. febrúar 2019 blockquote class=“wp-block-quote“>

„Það var einu sinni rithöfundur sem skrifaði sögu:

Það var einu sinni forseti í Ameríku og hann var valdamesti maður í heimi.  Þegar hann ræskti sig þá þögnuðu allir.  Ef hann lét eitt orð falla þá hlustaði fólk.  Ef hann vildi framkvæma eitthvað þá hafði hann her fólks í kringum sig sem sá til þess að uppfylla óskir sínar.

Það var einu sinni fátækur drengur í suður Ameríku og hann var algerlega valdalaus.  Hann ræskti sig oft, já hann fékk heilu hóstaköstin.  Ef hann sagði eitthvað þá var enginn sem hlustaði.  Hann óskaði sér að hann ætti mömmu, hús með þaki og einn súpudisk en það var enginn til staðar sem gat hjálpað honum.

Það var einu sinni undur falleg og fræg leikkona.  Hún sást reglulega í sjónvarpi og á kvikmyndatjöldum.  Allir dáðu hana og vildu kyssa vanga hennar.  Hún stóð á sviðum um allan heim og fékk þunga verðlaunagripi og stóra blómvendi.

Það var einu sinni lítil stúlka sem leit vægast sagt mjög undarlega út.  Önnur kinn hennar var risa stór og á hinni kinninni var munnurinn, allur skakkur.  Allir sem sáu hana hugsuðu; aumingja stúlkan, mikið er hún ljót!  En hún var með brún, ofboðslega falleg og góðleg augu.

Það var eitt sinn rithöfundur sem sat við tölvuna sína og reyndi að hugsa um þessar fjórar persónur.  Hvað átti að gerast með þær? hugsaði hún.  Þetta má ekki halda áfram svona.  Þá datt henni í hug að láta Guð stíga niður til jarðar.

Dag einn gerðist það sem sagt, að Guð kom til jarðarinnar.

Nú, hugsaði rithöfundurinn, kemst loksins réttlæti á!  Nú missir forsetinn völdin og kvikmyndastjarnan fær engin blóm og drengurinn fær móður og einhver fer að elska stúlkuna því hún er með svo falleg brún augu!  Ha! 

Hún ætlaði að láta Guð horfa strangt í augun á forsetanum, nú þyrfti forsetinn að þegja og hlusta!  Nú myndi sá valdamikli steypast af stóli og hin smáu sem hósta verða virt að verðleikum, fá þak yfir höfuðið og meiri völd!  Og allar manneskjur yrðu jafn fallegar og sú sem hefur fengið of mikið af blómum myndi missa þau til þeirra sem flestum þykja ljót. 

Já þannig ætlaði rithöfundurinn að skrifa, en það varð ekki þannig.

Guð stóð bara þarna þegjandi og horfði á þau fjögur.

“Ég elska ykkur öll” sagði Guð.  “Ég elska ykkur svo mikið.”

Nú varð rithöfundurinn hissa. 

“Ég er svo einmanna, það er eins og ég sitji í stórri svartri holu” sagði forsetinn.  “Ég er svo þunglyndur”.

“Enginn elskar mig” sagði leikkonan.  “Fólk vill bara sjást með mér svo það geti sjálft orðið frægt”.  “Öllum er í raun sama um mig”.

“Mér er ekki sama um þig”, sagði Guð.  “Ég skil að það geti verið erfitt að vera alltaf í sviðsljósinu og að vera fallegust af öllum. Ég vorkenni þér. Ég elska ykkur öll. Ég elska þau sem allir skilja að eigi bágt.  En ég elska líka þau sem eiga bágt þrátt fyrir allt.”

Nú skildi rithöfundurinn ekki neitt í neinu.  hvað var að gerast með söguna hennar.  Hún var orðin ónýt.  Hann ætlaði að hætta að skrifa og eyða því sem hún var búin með.

“Hjálp”, hrópuðu þau öll fjögur.

Guð hristi höfuðið.

“Ég get bara elskað ykkur öll og opnað augu ykkar.

Síðan hvarf Guð jafnskjótt og Guð hafði komið.

Rithöfundurinn vissi ekki hvað hún ætti að gera við söguna.  Var hún búin?  Eða var mikið eftir?  Hún gat bara sett punkt og vonað að eitthvað myndi gerast.“

Freki karlinn og breytingarnar
Þessi flökkusaga getur gefið ágæta lýsingu á hlutverki Guðs í heiminum. Hlutverki sem felst ekki í að breyta heiminum fyrir okkur heldur að opna augu okkar og elska okkur, meira en við getum nokkurn tíma ímyndað okkur.

Ég held að við sem samfélag og allur hinn vestræni heimur standi frammi fyrir miklum breytingum einmitt nú, þó sannarlega séum við komin misjafnlega langt á veg. Það sem er að gerast er að „freki karlinn“ er að missa vald sitt á mörgum sviðum. Hann stjórnar ekki umræðunni á jafn sjálfsagðan hátt og áður.

Freki karlinn í þessu samhengi eru fyrst og fremst valdamiklir karlar (og einstaka konur) sem hafa getað farið sínu fram og komið fram við fólk (oftast konur) eins og þeim hefur sýnst. Þeir hafa gjarnan umgengist ákveðið fólk (yfirleitt konur) sem hluti eða leikföng án þess að nokkur manneskja hafi lagt í að mótmæla því.

Það er nefnilega erfitt að vera ekki í náðinni hjá „freka karlinum“.

„Freki karlinn“ er ekki endilega ákveðin manneskja eða ákveðnar persónur. Hann getur einnig verið kerfi eða óljós valdaöfl í samfélginu.

„Freki karlinn“ er að missa tökin því þolendur hans hafa tekið ráðin í sínar hendur. Þolendurnir nota aðrar aðferðir en „freki karlinn“ til að mótmæla og koma sínum boðskap á framfæri og það þolir ekki „freki karlinn“.

Þessar breytingar eru mörgum erfiðar því öll erum við hluti af þessu samfélagi sem „freki karlinn“ hefur stjórnað. Það er sársaukafullt að missa völd og það er sársaukafullt að vera allt í einu komin með völd og áhrif sem við höfum ekki haft áður. Auk þess getur verið erfitt að vera áhorfendur og vita ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga og meðvirknin blossar upp.

Pétur og breytingarnar
Pétur og hinir lærisveinarnir sem fóru með Jesú á fjallið verða fyrir því að augu þeirra opnast. Þeim verður fyllilega ljóst að hér er eitthvað ótrúlegt að eiga sér stað. Þeir öðlast nýjan skilning á lífinu og sjá með eigin augum að Jesús er eitthvað meira en bara venjuleg manneskja. Pétur finnur að eftir þessa reynslu verður ekkert eins og það var áður. Það er óþægileg tilfinning að nokkru leyti því breytingaar, jafnvel þó þær séu jákvæðar, geta verið sársaukafullar. Hann stingur því upp á því að tjalda yfir allt liðið, alla karlana og dvelja sem lengst í stundinni áður en hversdagurinn tekur við á ný og hann neyðist til að vinna úr breytingunum.

Ég held að við sem samfélag séum í svipaðri stöðu og lærisveinarnir á fjallinu. Þessar breytingar sem eru að eiga sér stað hjá okkur eru mörgum erfiðar. Þær eru ruglandi og jafnvel ógnvænlegar. Margir karlmenn eru hræddir við að verða ásakaðir um ofbeldi ef þeir faðma börn eða koma of nálægt konum, þrátt fyrir að flestir þeirra skilji vel að það er stór munur á ofbeldi og „eðlilegum“ og jafnvel innilegum samskiptum. Mörg okkar vilja kannski bara slá upp tjaldbúðum til þess að þurfa ekki að takast á við þetta og vinna úr þessu. Það er nefnilega komið að því að við hugsum svo marga hluti upp á nýtt.

Allt í einu er t.d. bannað að tala niður til kvenna, fatlaðs fólks, samkynhneigðs fólks o.s.frv. Og þetta á jafnvel við um alþingisfólk sem er að fá sér í glas. Og jafnvel sérstaklgea það fólk. Nú má ekki lengur klípa í rassa, káfa á brjóstum eða koma fram við aðra manneskju eins og hún sé leikfang eða eign. Það er komið að því að við þurfum öll að vanda okkur í öllum samskiptum og fyrir sum okkar er það augljóslega flókið.

Já, samfélagið er að breytast. Við erum að breytast…eða það vona ég.

Og á sama tíma gerir Guð ekkert annað en að elska okkur og opna augu okkar.

En er það ekki einmitt það sem við þörfnumst? Við þurfum að opna augu okkar fyrir því sem er satt og rétt til þess að geta breyst og við þurfum ást til þess að geta tekist á við breytingarnar og unnið úr þeim. Við þurfum að finna að við  erum elskuð, hver sem erum og hvar sem við stöndum. Breytingarnar eru nefnilega undir okkur sjálfum komnar. Guð gefur okkur kraftinn til að breytast en Guð breytir ekki heiminum fyrir okkur eftir pöntunum.

Nýtum þennan kærleika Guðs til þess að reyna að breyta því sem opin augu okkar sýna að þarfnist breytinga.
Amen.

Guðspjall: Mark. 9: 2-9

Hljóðar hetjur og stórar stundir

Ein af forréttindum prestþjónustunnar er að fá að deila með fólki stórum stundum í lífi þess. Þetta eru stundir eins og skírn, þegar presturinn fær að biðja fyrir barninu, ausa það vatni lífsins um leið og nafnið er nefnt. Þetta eru stundir eins og hjónavígslur, þar sem fólk játast hvort öðru og biður Guð um hjálp við að deila ævinni saman. Við vitum nefnilega öll að lífið og samverustundirnar með fólkinu okkar eru ekki sjálfsagðar. Þær eru þakkarefni.

Þetta er eitthvað sem við mannfólkið öðlumst dýpri skilning á þegar við eldumst, þroskumst og bætum lífsreynslu í sarpinn.

Og einmitt þess vegna eru þessar athafnir svo mikilvægar. Við vitum ekki hvað bíður okkar handan við hornið og því er mikilvægt að fagna og gleðjast yfir því góða sem lífið færir okkur.

Önnur mikilvæg stund sem presturinn fær að deila með fólki er útförin og undirbúningur fyrir jarðarför og kistulagningu. Þessar kveðjustundir eru viðkvæmar og einstaklega dýrmætar þeim er kveðja. En þessar stundir eru einnig dýrmætar fyrir prestinn. Þær eru dýrmætar fyrir prestinn vegna þess að við þennan undirbúining fáum við að kynnast lífi og sögu fólks á annan og dýpri hátt en annars. Og þetta eru ástæðurnar fyrir því að presturinn ber einstaka virðingu fyrir því að fá að vera þátttakandi í þessari athöfn og lítur ekki á það sem sjálfsagðan hlut.

Nú jarðsyng ég fólk nokkuð reglulega og hver einasta athöfn er einstök og hefur djúpstæð áhrif á mig. Eitt af því sem snertir mig, og er mér oft hugleikið, er hversu mikið er til að fólki sem hefur lifað fyrirmyndarlífi, þ.e. fólki sem ætti ekki síður að vera manneskjur ársins um áramótin og að fá Fálkaorður afhentar af forseta Íslands. Staðreyndin er bara sú að það er agnarlítill toppur sem kemst í fréttir og fólk heyrir af sem fær þessar átyllur á meðan meirihluti fólks lifir í það minnsta jafnmerkilegu og jafnvel hetjulegu lífi en ósköp fáar manneskjur fá vitneskju um það. Stór hluti fólks hefur auk þess engan áhuga á að bera afrek sín á torg. Oft er það vegna þess að þeim þykir þetta ekkert merkilegt heldur líta þau á sinn hetjuskap sem hluta af því að vera manneskja og því engin verðlaun nauðsynleg.

Þessi afrek sem ég fæ að heyra um, nánast í hvert sinn sem ég kynnist ævisögu manneskju eru hlutir eins og að kona eða maður elur upp góðar, réttsýnar og duglegar manneskjur. Þetta eru sögur af hugsjónum fólks sem hafa breytt miklu fyrir þau sjálf og annað fólk. Þetta eru afrek eins og að taka þátt í stjórnmálum, búa börnum öruggt og kærleiksríkt heimili, gefa vandalausum ómældan tíma og umhyggju. Þetta eru afrek eins og að trúa, líka þegar á reynir og lífið verður erfitt, að elska, líka þegar fólk á enga ást skilið og sýna æðruleysi og skilning í erfiðum aðstæðum.

Titlar og orður, val á fólki ársins sýnir okkur aðeins örlítið brotabrot af því hversu fullkomlega dásamlegt fólk getur verið. Oft eru þau, sem eiga helst skilið að fá viðurkenningu, fólk sem hefur engan áhuga á athygli og viðurkenningu. Og oft er þetta fólk sem vinnur sín afrek í hljóði og er sátt við sitt hlutskipti.

Með þessu vil ég ekki gera lítið úr þeim sem fá athygli fyrir afrek sín. Þau eru svo sannarlega vel að þeirri athygli komin. Aftur á móti vil ég vekja athygli á því að það er til svo mikið af fólki sem eru sannar hetjur án þess að við munum nokkurntíma heyra af þeim.

Þegar prestur er viðstaddur stórar stundir í lífi fólks þá er hún/hann ávallt í aukahlutverki. Það er fólkið sem ber barnið sitt til skírnar eða ástvin sinn til grafar sem er í aðalhlutverki. Laun prestsins eru þau að henni eða honum er treyst til þess að vera með á þessari stóru stundu í lífi fólks og taka þátt í broti af lífssögu fólks. Ég ber óendanlega virðingu fyrir því.

Ekki mjög trúuð

Ekki mjög trúuð
Nokkuð reglulega kemur til mín fólk, í kirkjuna, sem tjáir mér að það sé ekki mjög trúað. Yfirleitt er þetta fólk sem leitar til prests vegna andláts ástvinar eða vegna þess að það er að fara að gifta sig. Oft er hér um að ræða fólk sem kemur í sálgæslu eða tekur þátt í einhverju starfi í krikjunni. Nokkuð er einnig um að fólk sem er að láta skíra barnið sitt taki þetta fram.

Því er svo áhugavert að skoða hvað felst í þessum orðum: „Ég er ekki mjög trúuð/trúaður“ því þetta sama fólk leitar til prests og kirkjunnar vegna þess að það treystir prestinum og kirkjunni.

Þegar ég spyr fólk hvað það eigi við eða bíð eftir að það útskýri þetta nánar þá kemur oftar en ekki í ljós að fólk er kannski svolítið að afsaka sig eða í það minnsta að láta mig vita að það fari ekki oft í kirkju. Stundum er fólk að segja mér að það viti ekki mikið um trúna eða lífið í kirkjunni og oft er þetta leið fólks til þess að láta mig vita að það þýði ekkert fyrir mig að tala „himnesku“ við það því það skilji hana ekki.

Þegar við förum síðan að ræða þessi mál þá komumst við oftar en ekki að því að við trúum á ósköp svipaðan hátt. Munurinn er fyrst og fremst sá að ég lifi og hrærist í kirkjunni og því er orðfærið og trúarlífið mér tamara en það er fólkinu.

Ég held nefnilega að stundum haldi fólk að prestar líti einhvernvegin á sig sem heilagara fólk, að þeir séu með stöðug bænarorð á vörum, blessi fólk til hægri og vinstri og geti ekki sagt heila setningu á þess að nefna Guð. Sem sagt, tali himnesku.

Þau sem þekkja mig vita að þetta gæti ekki verið fjær sannleikanum. Ég gleymi oft að biðja, er yfirleitt lítið heilög í tali, þó ég reyni svona venjulega að vanda mál mitt, og kann ósköp lítið í himnesku. Og þetta á við um stóran hluta presta sem ég þekki. Þeir eru upp til hópa frekar „venjulegt“ fólk.

Trú og kirkja geta nefnilega verið ósköp hversdagsleg fyrirbæri.  

Lítil trú
Allir textar þessa sunnudags fjalla um trú á einhver hátt enda er hægt að skoða trú út frá öllum mögulegum sjónarhornum. Gamlatestamentis textinn úr Hósea fjallar um það að það er hægt að treysta Guði. Í pistlinum í Hebreabréfinu er gerð tilraun til að skilgreina hvað trú er og í guðspjallinu hjá Lúkasi fáum við að heyra um lærisveinana sem biðja Jesú að auka trú sína. Þarna eru lærisveinarnir í hlutverki fólksins sem finnst það ekki trúa nógu mikið en þá langar til að trúin þeirra verði meiri og sterkari. Ég veit ekki hvort því sé þannig varið um öll þau sem láta vita að þau séu ekki mjög trúuð.

Jesús svarar þeim hálfundarlega, eins og svo oft. Hann gerir nánast lítið úr þessum kvörtunum þeirra og segir þeim að það þurfi ekki nema ofurlitla trú þess þess að flytja fjöll, eða tré í þessu tilviki.

Hvað ætli hann eigi við?

Er hann að segja þeim að trúin þeirra sé enn ómerkilegri en þeir héldu? Eða er hann að segja þeim að hætta kvarta því trú þeirra sé alveg nógu mikil og jafnvel mun meiri en þeir halda?

Já, ég held að það sé einmitt það sem Jesús á við. Ég held að hann sé að segja lærisveinunum, og okkur, að trúin sé ekkert sem hægt er að mæla, að við þurfum ekki að bera okkur saman við annað fólk. Hann er að segja að trú sem þú upplifir jafn litla og minnsta korn sem til er, geti verið svo sterk að hún geti gert stórkostlegt kraftaverk.

Miklu meira en nóg
Getur verið að ekkert okkar upplifi sig í raun mjög trúuð eða einu sinni nógu trúuð?

Ég verð að viðurkenna að ég klappa mér aldrei á öxlina og segi: „mikið ertu, nú trúuð“. Ekki veit ég hvort þú gerir það en kannski er það sammannlegt að við upplifum okkur ekki vera nóg. Ekki nógu trúuð og ekki nógu allt mögulegt annað. En ég trúi því að Guð sjái okkur sem alveg nóg og miklu meira en það.

Ég held að Guð vilji segja við þig í dag að þú sért alveg nógu trúuð/trúaður.

Ég held að Guð vilji segja við mig í dag að ég sé alveg nógu trúuð.

Trúir þú því?

Trú getur verið svo margt. Trú getur verið traust og trú getur verið von. Hún getur verið það að gera eitthvað í góðri trú.

Trú er í eðli sínu afar hversdagsleg.

Magn trúar mælist ekki í fjölda kirkjuferða eða lengd bæna þó það sé sannarlega gott að fara í kirkju og iðka trú. Trú mælist ekki í því hversu oft við sláum um okkur með trúarlegu eða guðfræðilegu orðfæri.

Trú getur einfaldlega verið það að treysta því að til sé eitthvað æðra og meira en við sjálf. Eitthvað sem við getum leitað til og lagt traust okkar á. Þetta fyrirbæri köllum við sem kristin eru, Guð. Trú getur falist í því að gera skyldu okkar, í því að vera manneskja sem er traustsins verð án þess óska eftir athygli eða sérstökum verðlaunum fyrir það. Þannig getur trúin birst í öllum verkum okkar sem unnin eru í kærleika og af góðum hug. Og þannig getur fas okkar og framkoma í garð annars fólks verið birting trúar.

Dýrð sé Guði sem gefur okkur næga trú og veit að við erum miklu meira en nóg.

Amen.

Blessað uppgjör

Blessun
Gleðilegt ár!
Þegar ég vígðist til prests kom til mín prestvígður maður í móttökunni á eftir og bað mig að blessa sig. Það kom svolítið á mig og mín fyrsta hugsun var hver er ég að blessa hann, rétt svo vígð og kann varla blessunarorðin! En ég lét á engu bera og blessaði manninn. Reyndar ákvað að ég blessa hann á íslensku (hann var sænskur) þannig að hann myndi ekki heyra ef ég ruglaðist. Og auðvitað ruglaðist ég því ég var svo stressuð.

Eftir þetta atvik hef ég veitt fjölmörgu fólki blessun og þegið enn fleiri. Blessun er nefnilega ekki eitthvað sem einungis prestar geta veitt. Þegar við kveðjum með orðunum „bless“ eða „vertu blessuð/blessaður“ þá erum við að blessa hvert annað. Við erum að biðja æðri mátt að gæta þeirra sem við blessum og við getum einnig verið að senda bæn út í alheiminn um að allt fari vel.

Í kirkjunni ljúkum við öllum guðsþjónustum og athöfnum með blessun. Þegar fólk giftir sig í kirkju, hvort sem það er við stóra athöfn í kirkjunni eða bara tvö inni á skrifstofu prestsins,  fær það blessun. Þegar börn eru skírð eru þau blessuð í bak og fyrir og það sama má segja um allar aðrar athafnir.

Blessun er ekki eitthvað sem einungis fer fram í kirkju en það má segja að ekkert fari fram í kirkju án blessunar.

Árið okkar
Áramótin eru tími uppgjörs. Kannski verða uppgjörin mikilvægari eftir því sem við eldumst og skynjum betur að við höfum ekki óendanlega tíma í þessari jarðvist. Fjölmiðlar hafa gert upp árið. Áramótaskaupið er búið og fréttaannáarnir hafa verið sýndir. Völvurnar spá fyrir um framtíðina. Hvernig var árið þitt? Var það óvenju gott, þar sem allt gekk þér í hag eða var það erfitt. Ertu kannski fegin/n að 2018 er búið? Ætli það hafi ekki verið blanda af báðu hjá okkur flestum? Hvað tökum við með okkur inn í nýtt ár?

Þrátt fyrir að við kveðjum hið gamla oft með tregablöndnum tilfinningum þá er svo gott til þess að vita að við getum alltaf byrjað upp á nýtt, það er aldrei of seint. Og nýtt ár er einmitt, á ákveðinn hátt, boð um nýtt upphaf. Nýju ári fylgja nýjar vonir, nýjir möglueikar.

Í upphafi árs getum við valið hvað við gerum við það sem stóð upp úr á árinu sem er að líða. Hvaða fréttir skiptu okkur máli, hvaða reynslu getum við lært af og hvaða minningar viljum við geyma. Auðvitað er þetta þó ekki alveg svo einfalt því erfiðu og sáru minningarnar fylgja okkur hvort sem við viljum það eða ekki, afleiðingar mistaka geta haldið áfram að hafa áhrif og afleiðingar ofbeldis og sárrar reynslu hverfa ekkert þó árinu ljúki og nýtt taki við. En við getum þó alltaf valið hvað við gerum við þessa hluti. Látum við þá halda áfram að lita líf okkar og jafnvel rífa okkur niður eða ætlum við að vinna úr þeim, læra af reynslunni og taka með okkur inn í framtíðina það sem byggir okkur upp?

Þegar við viljum hafa áhrif á líf okkar og ná árangri með eitthvað þá er góð leið að setja sér markmið. En það er afar mikilvægt við markmiðssetningu að hafa þau ekki of stór og yfirgripsmikil eða almenn. Þá er ólíklegra að við náum þeim og sitjum uppi ósátt. Þegar við setjum okkur markmið er best að hafa þau nákvæm, einföld og jafnvel mælanleg. Það sama á við um áramótaheitin enda eru þau ekkert annað en markmiðssetning. Það getur verið gott að nota tækifærið við upphaf nýs árs að setja okkur einföld markmið sem auðvelt er að ná. Ég sá um daginn að vinkona mín setti sér það markmið fyrir árið 2018 að lesa eina bók á mánuði og hún hafði haldið utan um allar bækurnar sem hún las og birti listann nú í desember. Þetta er dæmi um yfirstíganlegt og mælanlegt markmið. Annað sem ég hef lært um markmiðssetningar er að við aukum líkurnar á að ná markmiðunum ef við skrifum þau niður og segjum einhverjum frá þeim. Um leið og þú skrifar markmiðið niður verður það raunverulegra og þegar þú deilir því með annarri manneskju er komin meiri pressa á þig að standa við það.

Hvort sem við gerum upp árið ein með sjálfum okkur eða tjáum okkur opinberlega um uppgjörið þá er ég viss um að það sé gott fyrir okkur að fara yfir hvað gerst hefur á árinu. Þannig getum við dregið lærdóm af hinu liðna, hlúð að hinu góða og þakkað fyrir það og jafnvel sett okkur markmið eða áramótaheiti.

Blessað árið
Í nýarstexta gamla testamenntisins í fjórðu Mósebók talar Guð til Móse og biður hann að ávarpa bróður sinn með þeim orðum sem við köllum Drottinlega blessun. Með þessum orðum ljúkum við hverri guðsþjónustu og athöfn í  kristinni kirkjun um allan heim.

Guð vill að Móse tali til bróður síns með fallegum hætti og vilji honum vel.

Guð vill að við tölum til hvers annars með fallegum hætti og sínum hvert öðru velvilja.

Um áramót fer vel á því að biðja hvert öðru blessunar Guðs. Í þessum blessunarorðum sem við munum heyra nú í lok guðsþjónustunnar er ekki aðeins að finna bæn heldur einnig fullvissu um að Guð muni gæta þín. Að Guð verði með þér í gleði og sorg og hverju því sem bíður þín handan við hornið.

Þegar við kveðjum hvert annað með orðunum „bless“ eða „vertu blessaður/blessuð“, felst í því ósk að allt fari vel. Að viðkomandi eigi farsælt líf.

Ég hefði ekki þurft að vera óróleg þegar presturinn bað mig um að blessa sig á vígsludaginn. Í þessari bón fólst ákveðin fegurð og hann var ekki að þessu til þess að dæma um það hvort ég kynni ákveðin orð heldur aðeins til þess að þiggja. En blessun veitum við ekki okkur shjálf heldur þiggjum við hana af öðrum.

Á nýju ári biðjum við Guð að blessa okkur nýja árið, að blessa okkur sjálf og þau sem eru okkur kær.

Á nýju ári biðjum við Guð að blessa landið okkar og gefa að við, íbúar þess, getum sýnt hvert öðru kærleika, umburðarlyndi og réttlæti. Og við biðjum Guð að blessa heiminn okkar sem oft er svo brotinn og hjálpa okkur að gæta jarðarinnar sem okkur er treyst fyrir og vinna að friði.
Guð blessi þig!

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju á nýársdag 2018

Vertu eins og Guð, vertu manneskja

Prédikun aðfangadags 2018

Heilaga fjölskyldan
Mig hefur lengi langað til að eignast hina heilögu fjölskyldu með hirðum, vitringum, dýrum og öllu…þ.e. styttur. Í nokkurn tíma hef ég alltaf staldrað við og skoðað vel þegar ég sé fjölskylduna með fjárhúsum og jötu til sölu einhversstaðar en ég enda aldrei á að kaupa þetta. Í fyrsta lagi finnst mér þær yfirleitt of dýrar og í öðru lagi hef ég átt erfitt með að velja. Það er bæði til svo mikið af mjög ljótum og mjög fallegum styttum. En á þessari aðventu lét ég slag standa og skellti mér á fjölskylduna. Ég sá þessar fínu styttur í verslun hér í borg sem er þekkt fyrir góð verð, þær voru nógu fallegar fyrir mig þó ekki fylgdi með fjárhús. Þarna voru þó aðalatriðin, Jesúbarnið í jötunni María, Jósef, þrír vitringar og tveir hirðar. það voru einhver áhöld um það hvort Jósef væri í hópnum og hvort hirðarnir væru einn eða tveir. Við erum reyndar sammála um að við getum alveg ákveðið sjálf hver er hvað og að einn hirðirinn er kona.

Það er eitthvað við þessa „mynd“,  af Maríu, Jósef, barninu í jötunni sem snertir okkur. Þessi mynd sem er svo jarðnesk og venjuleg en um leið svo heilög.

Í kvöld mætist hið hversdagslega, hið jarðneska sem við þekkjum svo vel, hinu heilaga og töfrar verða til.

Vertu eins og Guð, vertu manneskja
Fyrir stuttu sá ég svolítið óvenjulega „mynd“ eða sýningu með heilögu fjölskyldunni. Það var í kirkju í Þýskalandi þar sem stóð yfir brúðusýning þar sem fólk og atburðir úr kirkjusögunni og Biblíunni höfðu verið sett upp í kringum Maríu, Jósef og Jesúbarnið og í bakgrunni voru háhýsi stórborgar. Foreldrarnir með barnið voru þarna í forgrunni en þau voru komin úr fjárhúsinu og lögð á flótta með barnið, María sat á asnanum með barnið og Jósef gekk við hlið þeirra. Í kringum þau var fjölbreytt flóra fólks.

Á einum stað, ekki langt frá móður Theresu, stóð blandaður hópur fólks með kröfuspjald. Þarna voru konur í vændi, uppábúnir karlar og konur, prestar og fátækt fólk. Á kröfuspjaldinu þeirra stóð: „Vertu eins og Guð, vertu manneskja“.

Þessu orð hittu mig í hjartastað en þegar þessi setning er orðaleikur og getur einnig verið þýdd sem, Vertu eins og Guð, vertu mennsk eða sýnu mennsku.

Hvernig getum við sýnt sömu mennsku og Guð?

Manneskjan Guð
Guð gerðist manneskja í litlu barni. Þegar Guð, sem er upphafið að öllu, kærleikurinn sjálfur, ákvað að koma inn í heim mannfólksins gerðist það ekki með valdi og látum. Guð kom inn í heiminn í mesta varnarleysi sem hægt er að hugsa sér, sem lítið barn. Guð var eitt sinn fóstur í móðurkviði og Guð fæddist með sama hætti og öll börn mannfólksins, með öllum þeim áhættum sem því fylgir. Og þegar í heiminn var komið var Guð upp á umhyggju foreldra sinna og umhverfisins komið.

Guð hefði getað komið í heiminn með öðrum hætti en Guð er ekki þannig. Guð velur að treysta okkur fyrir sér. Guð velur að koma til okkar í fullkomnu varnarleysi og treysta okkur.

Það er litla barnið þarna í útihúsinu sem sýnir okkur hvernig manneskja Guð er.

Það er litla barnið þarna í útihúsinu sem sýnir okkur hvernig manneskjur Guð vill að við séum.

Við höfum öll verið í sporum litla barnsins. Við hefjum öll þetta líf í móðurkviði og við höfum öll þurft að treysta á umhyggju foreldra eða fólksins í kringum okkur og umhverfisins. Aðstæður okkar til að byrja með geta verið afar ólíkar og aðstæður Jesú í upphafi voru sannarlega ekki þær einföldustu. Foreldrar hans voru ekki gift og þau flúðu undan yfirvöldum skömmu eftir fæðingu hans. Þau voru flóttafólk um tíma. Það rættist þó ágætlega úr drengnum.

Manneskjan manneskja
Vertu eins og Guð, vertu manneskja.

Hvernig verðum við manneskjur eins og Guð eða hvernig sýnum við sömu mennsku og Guð?

Guð sýndi hina fullkomnu mennsku með því að koma til okkar sem varnarlaust barn og treysta okkur. Það fór vissulega ekki að öllu leyti vel að lokum en það hafði þó þau áhrif að nú meira en tvö þúsund árum síðar erum við enn að tala um hann.

Ég held að við þurfum að leita alla leið aftur til fæðingu barnsins, komu Guðs í heiminn til þess að finna okkar sönnu mennsku. Mennskan okkar er nefnilega fólgin í varnarleysinu. Það er þegar við sýnum það hugrekki að verða berskjölduð, að sýna hver við raunverulega erum og treysta, sem við verðum manneskjur eins og Guð.

Litla barnið í jötunni braggaðist vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður í byrjun og varð maðurinn Jesús sem kenndi okkur meira um ástina og mennskuna en nokkur önnur manneskja hefur gert. Hann kenndi okkur að bera sanna umhyggju fyrir náunganum og sköpuninni og hann sýndi okkur með lífi sínu að þetta snýst allt um að vera sönn og ekta.

Kannski erum við mennskust þegar við tökum niður grímurnar, sýnum hver við erum og þorum að vera sönn og ekta.

Það krefst hugrekkis hjá fullorðnu fólki að sýna hver við raunverulega erum. Það sem er börnunum bæði eðlilegt og nauðsynlegt er fullorðna fólkinu oft um megn.

Myndirnar af heilögu fjölskyldunni geta verið afar fjölbreyttar því lífið er fjölbreytt. Listafólk hefur, í gegnum tíðina, túlkað þessi fyrstu jól með ólíkum hætti því fæðing Guðs í heiminn hefur ekki sömu merkingu í huga allra. Stundum er lögð ofuráhersla á hið jarðneska og hversdagslega en oft er atburðurinn upphafinn alla leið til stjarnanna. Báðar túlkanirnar og allar myndirnar þar á milli eru sannar því þessar „myndir“ eru á mörkum þessa veruleika og annars. Og þegar hið heilaga mætir hinu jarðneska, hinu hversdagslega verða til töfrar. Og þar sem himinn og jörð mætast og renna saman skiljum við að Guð elskar okkur nákvæmlega eins og við erum. Við þurfum ekki að setja upp grímur og þykjast gagnvart Guði.

Í kvöld kemur Guð til okkar í litlu barni og segir: „Ég elska þig eins og þú ert“. Í kvöld mega allar grímur falla því í kvöld erum við heilög eins og litla barnið í jötunni.
Amen.