Hrópandi hrædd í rússíbana

Skelfing
Hefur þú einhverntíma orðið svo hrædd(ur) að þú hafir hrópað á Guð af öllum kröftum og beðið um hjálp? Ég hef lent í því oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég hef orðið hrædd, kvíðin, sorgmædd áhyggjufull og svo hef ég líka oft þráð svo innilega að eitthvað ákveðið gerðist að ég hef hrópað á Guð. Reynar hef ég yfirleitt bara hrópað innra með mér því ég er jú Íslendingur og við erum lítið fyrir að tjá tilfinningar okkar með miklum látum hér í okkar menningarheimi.

Síðast þegar ég hrópaði mjög hátt á Guð (innra með mér) var þegar ég fór í skelfilegan rússíbana fyrir stuttu og ég taldi nokkuð víst að ég myndi deyja í þeirri ferð. Skynsemin sagði mér að það væri kannski ekki líklegt að eitthvað kæmi fyrir rússíbanann (þó það gæti vel gerst) en ég hefði getað dáið úr hræðslu eða fengið hjartaáfall við þessa skelfilegu reynslu. Kannski finnst einhverjum hér þetta ekki merkilegt dæmi því
ykkur þykir rússíbanaeynsla skemmtileg en trúið mér, ég var skelfingu lostin í alvörunni. En ég hef líka lent í því að verða alvarlega hrædd um fólkið mitt, haft áhyggjur af börnunum mínum, fjölskyldumeðlimum og vinum á þann hátt að ég hafi þurft að hrópa á Guð. Mér þykir líklegt að þú hafir upplifað það líka. Og kannski líður þér einmitt þannig nú vegna einhverra aðstæðna í þínu lífi.

Ég hef ekki lent í sjávarháska en ég get rétt ímyndað mér þá skelfingu að vera hrædd um að skiptið sé að farast. En ég kannast nokkuð við flughræðslu og hún er ekkert grín. Lesa áfram „Hrópandi hrædd í rússíbana“

Tölum um Guð

Unanfarin ár hef ég verið að skoða hversu mikið söfnuðurinn heyrir af því sem prédikarinn vill koma á framfæri. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hversu ólíkar og fjölbreyttar guðsmyndir fólksins, sem sækir guðsþjónustur, eru. Það sem einnig hefur komið í ljós, og kemur reyndar ekki á óvart, er að því skýrari sem guðsmynd prédikarans er og því sterkari sem rauði þráðurinn í prédikuninni er, þeim mun líklegra er að fólk heyri það sem prédikarinn vill segja. Þessar rannsóknir eru hluti af frammhaldsnámi mínu í prédikunarfræðum.

Eitt aðal verkefni prédikarans, fyrir utan að lesa guðfræði og vera virk(ur) í samfélagi fólks, er að skoða og þróa sína guðsmynd og íhuga og prófa sig áfram í hvaða hugtök lýsa þeirri mynd eða myndum best.

Hlutverk prédikarans í dag er í mínum huga að heimfæra Biblíutexta og þannig hjálpa fólki að halda áfram að móta sína eigin trú og guðfræði og með því dýpka samband sitt við Guð. Hlutverk prédikarans getur aldrei verið að útskýra fyrir fólki hver eða hvað Guð er því myndir okkar eru ólíkar og ekkert sem styður að mynd prédikarans sé “réttari” en myndir þeirra er hlýða á prédikunina. Það getur jafnvel verið svo að guðsmyndirnar í kirkjunni séu jafn margar og ólíkar og fólkið sem þar er.

Eru þá allar guðsmyndir jafn réttar?

Svarið er einfalt: Já. Lesa áfram „Tölum um Guð“

Hann skammaðist og fór

Að yfirgefa
Ég er nokkuð viss um að þú hafir einhverntíma upplifað þig yfirgefna eða yfirgefinn. Kannski var það þegar börnin fóru að heiman, eða þegar foreldrar þínir dóu. Kannski var það vegna þess að þú misstir einhvern í ótímabæru andláti eða vegna skilnaðar. Mögulega urðu vinslit, ósætti eða deilur til þess að þú upplifðir þig yfirgefna eða yfirgefinn.
Ég er líka nokkuð viss um að hvort sem þetta var af eðlilegum ástæðum sem voru hluti af gangi lífsins eða vegna vegn áfalls, þá hafi tilfinningin ekki verið góð.

Ég tel einnig líklegt að þú hafir einhverntíma þurft að yfirgefa fólk eða aðstæður og að það hafi verið erfitt. Kannski var það þegar þú fórst að heiman í fyrsta sinn eða þegar þú þurftir að koma þér út úr sambandi sem var vont fyrir þig. Kannski var það þegar þú fluttir úr sveitinni og seldir jörðina eða þegar þú skiptir um starf eða hættir að vinna sökum aldurs.

Það er erfitt að upplifa höfnun en það getur ekki síður verið erfitt að vera sá eða sú sem þarf að yfirgefa, að fara, að hætta.

Ég hef verið yfirgefin og upplifað höfnun. Ég hef líka þurft að koma mér út úr aðstæðum og sært einhvern um leið. Þessar aðstæður kalla ekki fram sömu tilfinningarnar en þær geta báðar verið sárar og erfiðar. Lesa áfram „Hann skammaðist og fór“

Í augnhæð

Barnið í augnhæð
Eitt af því skemmtilegasta og besta sem ég geri er að skíra börn. Ég er svo þakklát fyrir að fá að vera með foreldrum og börnum við þessa stóru stund í lífinu þegar barnið er falið Guði og fjölskylda og vinir koma saman til þess að fagna tilvist þessarar nýju manneskju. Já og ekki er verra að fá að vera með þegar nafnið er nefnt í fyrsta sinn eins og enn er ríkjandi siður á Íslandi.

Um daginn var ég að skíra barn í heimahúsi og skírnarskálin var á afar lágu borði þannig að faðirinn, sem hélt á barninu undir skírn, byrjaði að beygja sig aðeins og svo aðeins meira, en fór að lokum alveg niður á hækjur sér og hélt þannig á barninu við skírnarskálina. Ég byrjaði líka á að beygja mig virðulega niður en fann fljótt að það var ekki að ganga og það endaði með því að ég var komin næstum því niður á hné og skírði barnið í þeirri stellingu. Þarna vorum við, faðir barnsins og ég á hækjum okkar á gólfinu, hann með barnið í fanginu og ég að ausa það vatni.

Þetta var eina aleiðin til þess að ná augnsambandi við barnið.

Það er nefnilega ekki hægt að ná augnsambandi við ungabarn nema að standa nálægt því og í sömu augnhæð og barnið.

Jesús í augnhæð
Hósíanna söng kórinn áðan af krafti en þetta voru einmitt fagnaðarorðin sem fólkið hrópaði þegar Jesús reið inn í Jerúsalem. En hann var þangað kominn til þess að halda upp á páskahátíðina. Lesa áfram „Í augnhæð“

Betri en við höldum

Betri en við höldum
Hvort er heimurinn meira góður eða vondur?
Í einum af fermingartímunum eftir áramót var umræðuefnið “hið illa”. Ég spurði þá öll fermingarbörnin hvort þeim fyndist heimurinn vera meira góður eða vondur. Hjá flestum stóð ekki á svarinu og þau svöruðu mjög fljótt að heimurinn væri meira vondur. Þegar við síðan ræddum þetta betur og skoðuðum hvaðan þessar upplýsingar eða þessar hugmyndir kæmu þá kom í ljós að það var fyrst og fremst tilfinningin frá fjölmiðlum. Að það væru svo mörg hræðileg stríð, ofbeldi og hungursneyð vegna óréttlætis, að heimurinn hlyti að vera vondur. þegar við síðan ræddum þetta nánar voru þau ekki alveg jafn sannfærð um að þessi mynd af heiminum væri endilega sönn því þau upplifðu heiminn í kringum sig nokkuð góðan.

Hans Rosling, sænskur prófessor í alþjóða heilbrigðisvísindum, hefur ítrekað sýnt fram á það með tölfræði að heimurinn sé alls ekki eins slæmur og stór hluti fólks telur. Rosling hefur haldið fyrirlestra um allan heim um þess mál og hann vill meina að ástæðan fyrir því að við teljum flest að heimurinn sé mun verri en hann er, sé sú að fjölmiðlar sýni okkur fyrst og fremst þá hlið. Þrátt fyrir að margir fjölmiðlar líti á það sem hlutverk sitt að upplýsa okkur um það sem er að gerast í heiminum þá þurfa þeir alltaf að velja hvað þeir telja helst vera fréttnæmt og þá verða gjarnan neikvæðar fréttir fyrir valinu. Þær auka áhorfið.

Rosling vill meina að við getum ekki treyst á fjölmiðla eina og sér til þess að öðlast þekkingu á heiminum heldur þurfum við einnig til þess menntun og verðum síðan sjálf að sannreyna upplýsingarnar sem við öflum okkur. Hann segir að þrátt fyrir að til sé fullt af fátæku fólki þar sem stúlkur fá ekki að ganga í skóla, börn séu ekki bólusett og fólk flýji þaðan í stríðum straumum vegna styrjalda, þá eigi þetta aðeins við um lítið brot af heiminum.

Lesa áfram „Betri en við höldum“