Prédikun flutt í Kirkjuselinu í Spönd 15. október 2017
Hér er úlfaldi.
Hér er nál.
Getur þú komið úlfaldanum í gegnum nálaraugað?
Hér er þráður.
Hér er nál.
Getur þú komið þessum þræði í gegnum nálaraugað?
Já, það gekk með þráðinn en ekki úlfaldann.
Ætli það sé samt hægt að koma úlfaldanum í gegnum nálaraugað á einhvern hátt… Er til eitthvað „trix“ til sem við þekkjum ekki?
Mig langar að biðja þig að reyna að sitja eins þægilega og þú getur, með báða fæturna stöðuga á gólfinu og axlirnar afslappaðar. Ef þú vilt máttu loka augunum.
Þegar þú hugsar um sjálfa þig eða sjálfan þig, sérðu þá fyrir þér góða og fína manneskju…eða sérðu strax eitthvað fyrir þér sem þú þarft að bæta, laga? Þykir þér vænt um þig?
Ef þú hugsar nú um fólkið sem stendur þér næst, fjölskylduna þína, vini þína. Hvað sérðu fyrir þér? Finnst þér þetta fólk þurfa að bæta sig svolítið til þess að þér geti þótt vænt um þau? Þykir þér vænt um þau?
Sjálfsagt eru hugleiðingar ykkar eitthvað misjafnar en mér þykir ekki ólíklegt að þið eigið auðveldara með að láta ykkur þykja vænt um fólkið ykkar án skilyrða en um ykkur sjálf. Það er einhvern veginn þannig að við gerum yfirleitt mun meiri kröfur til okkar sjálfra en til annars fólks.
Getur verið að þú upplifir gallana þína á stærð við úlfalda en galla annars fólks á stærð við þráð sem auðvelt er að þræða í gegnum nálaraugað?