Hugrökk ást

Boðorðin öll
Í vikunni birtust þær fréttir að kirkja hér í borg væri búin að stroka út tíunda boðorðið og því væru boðorðin nú einungis 9. Frábærar fréttir fyrir fermingarbörnin þar að þurfa aðeins að læra 9 boðorð utan að en ekki tíu. Reyndar kom í ljós við nánari skoðun að þessi síðustu tvö boðorð fjalla bæði um það sama, öfund og græðgi. Í þessum tveimur boðorðum eru talin upp dæmi um það sem náunginn þinn á og þú átt ekki að girnast. Það eina sem þessi kirkja hafði gert var að fækka upptalningunum á því sem ekki á að girnast enda er í raun alveg nóg að segja, þú skalt ekki girnast það sem náungi þinn á. Eða enn betra, þú skalt samgleðjast náunganum vegna þess sem hún/hann á.

Það sem þó er sérstaklega áhugavert við þessi tvö síðustu boðorð er að í þessum upptalningum eru bæði taldir upp þrælar, ambáttir og konur. Það var sem sagt ekki í lagi að girnast eitthvað sem önnur manneskja á en það mátti eiga bæði þræla og konur.

Þetta segir okkur nokkuð um það hversu mikið barn síns tíma orðalag boðorðana er og það á reyndar við margt fleira í Biblíunni, enda er hér um að ræða mörg hundurð ára gamla texta. Það þýðir þó ekki að andi boðorðana eigi ekki lengur við enda  fjalla þau um það hvernig við eigum að umgangast hvert annað og já, alla sköpunina. Það sem þó á ekki við er að draga fram hvert einasta orðalag í þeim og umgangast sem lögmál. Því miður hefur einmitt sú umgengni við boðorðin og fleiri Biblíutexta verið uppspretta kúgunnar í gegnum tíðina.

Þegar Jesús var spurður að því hvaða boðorð væri æðst þá einfaldaði hann sannarlega ekki málið heldur flækti hlutina enn meira fyrir okkur með því að setja fram tvöfalda kærleiksboðið. Það gengur nefnilega út á að nota dómgreindina þína og kærleikann í umgengni þinni við allt sem lifir, sköpunina, fólk, Guð og þig sjálfa.

Alvöru kærleikur
Kærleikur til nánungans snýst ekki um að brosa fallega til fólksins í kringum þig og vera huggulegur þegar þú mætir því. Það er vissulega mikilvægt að sýna fólki þægilegt viðmót og jafnvel að brosa en kærleikskrafan sem Jesús gerir með tvöfalda kærleiksboðorðinu slær öllum öðrum boðorðum út og gerir miklu ríkari kröfur en svo. Þessi krafa snýst um að sýna náunganum og okkur sjálfum kærleika einnig þegar lífið verður erfitt og flókið. Hún snýst um að standa ávalt með þeim sem minna mega sín, þeim sem verða undir, þeim sem eru í minnihluta. Sannur kærleikur krefst þess vegna hugrekkis.

Í vikunni sem leið fjölluðu tveir Katljósþættir á Rúv um fordóma og áreitni í garð ungs fólks. Annar þátturinn fjallaði um aukna fordóma í garð hinsegin fólks en hinn um rasisma gagnvart ungu fólki á Íslandi.

Fyrir stuttu síðan tóku menntaskólanemar sig til og mótmæltu því hvernig tekið er á kynferðislegri áreytni og ofbeldi innan menntaskólanna en vakningin hófst í MH með hinni svokölluðu klósettuppreisn þegar nemendur neituðu því að þolendur þyrftu að mæta gerendum sínum á göngum skólans eins og ekkert hefði í skorist þrátt fyrir ofbeldi og jafnvel nauðganir.

Í Flokki fólksins misstu þrír karlar sæti sín í flokknum vegna framkomu í garð kvenna innan flokksins.

Þekktir listamenn, stjórnmálamenn, prestar, karlar í viðskiptalífinu, íþróttum og á fleiri stöðum hafa þurft að stíga til hliðar vegna ásakana um ofbeldi og kynferðislega áreitni.

Frá útlöndum er það m.a. að frétta að konur í Íran mótmæla þessa dagana harðstjórn gegn konum í landinu eftir að Mahsa Amini lést í haldi siðgæðislögreglunnar eftir að hafa verið handtekin fyrir að hafa slæðuna ekki nógu fast bundna.

Metoo bylgjan gefur náð háum hæðum í mörgum löndum, ekki síst í Bandaríkjunum.

Fólk mótmælir harðari aðgerðum gegn konum og hinseginfólki í mörgum löndum í austur evrópu.

Mótmæli gegn banni við fóstureyðingum eiga sér stað um gjörvöll Bandaríkin.

Og svona mætti lengi áfram telja.

Þegar minnihlutahópar rísa upp og mótmæla þá eru skilaboð kúgarana gjarnan í þá átt að þau sem mótmæla séu í raun ofbeldisfólkið og að þau sýni ekki nægan náungakærleika. Hin kúguðu eru látin líta út fyrir að vera kúgararnir. Þetta er sérstaklega áberandi þegar konur og hinseginfólk rís upp og gegn kúgun og ofbeldi. Hver kannast ekki við setningar eins og: „Ég er ekkert á móti hommum en þurfa þeir að vera svona áberandi“ eða „hún var nú ekkert skárri svona glennulega klædd“, „hún æsti mig bara svo mikið upp að ég varð að láta hana finna fyrir því“ eða „ég var nú bara að grínast, hefurðu engan húmor lengur“.

Virk starfsendurhæfingarsjóður spyr einmitt að því hvort ekkert megi lengur í algjörlega frábærri auglýsingu sem hefur verið sýnd á samfélagsmiðlum og í sjónvarpi undanfarið. Þar er reyndar svarið, eða mótspurningin: „Mátti þetta einhvern tíma?“

Kærleikur til kúgunar
Hinu tvöfalda kærleiksboðorði hefur í gegnum tíðina á stundum verið snúið upp í andhverfu sína og notað til þess að kúga ákveðna hópa fólks og einstaklinga. Trúarsöfnuðir hafa nýtt það til þess að fá fólk til að gefa peninga og hlýða þeim sem stjórna. Það er hægt að gera svo ótal margt í nafni „ástar“. Makar berja og jafnvel drepa maka sinn í nafni ástarinnar. „Ég elskaði hana svo mikið að ég varð að lemja hana svo að hún myndi hlýða“. Sagði einn af ótal mörgum mönnum sem hefur orðið konu sinni að bana því hann „elskaði“ hana svo mikið. Fólki hefur, á öllum tímum og á öllum stöðum verið haldið niðri og verið beitt ofbeldi í nafni kærleikans því það hefur ekki þótt kærleiksríkt að segja frá brestum annarra, jafnvel ekki brestum kúgara síns. Og sú kærleikskrafa er svo sterk og einbeitt að þrátt fyrir að þú segir frá t.d. ofbeldi eða kúgun þá er alls ekkert víst að þér verði trúað. Það er nefnilega svo ljótt að segja frá brestum annarrar manneskju ef þú hefur ekki áþreifanlegar sannanir og helst vitni.

Kærleikurinn krefst hugrekkis
Það krefst hugrekkis að sýna kærleika. Þegar þú ríst upp gegn kúgun og ofbeldi, hvort sem þú verður fyrir því sjálf eða eitthvað annað fólk þá ert þú að sýna einmitt þennan kærleika sem Jesús vill að við sýnum. Kærleikurinn er nefnilega alvörumál og meðvirkni og þöggun hefur ekkert með kærleika að gera.

En það er erfitt að standa upp og mótmæla. Þú verður ekki vinsæl ef þú gerir það. Ef þú mótmælir valdaöflunum, hver sem þau eru, þá er ekki víst að þú munir eiga sama möguleika á framgangi í starfi og ef þú þegjir. Ef þú mótmælir kúgun feðraveldisins þá verður þú ekki vinsæl/vinsæll hjá strákunum. Ef þú segir frá ofbeldi í hjónabandi eða nánu sambandi þá er líklegt að þó nokkuð af fólki muni dæma þig sem athyglisjúka því hann virðist nú vera svo næs. “Þetta hefur nú varla verið svo alvarlegt“ er oft viðkvæðið þegar kona segir frá ofbeldi í nánu sambandi. Og ef þú segir frá ofbeldi af hálfu þekktrar manneskju þá ertu líklega illgjörn/illgjarn og vilt eyðileggja starfsframa viðkomandi.

Það krefst hugrekkis og mikillar ástar að segja frá ofbeldi og kúgun. Það krefst alvöru kærleika að segja frá. En ástæðan fyrir því að fólk segir ógjarnan frá er m.a. sú að búið er að telja okkur trú um að það felist meiri kærleikur í að þegja en að segja frá auk þess sem ofbeldismanneskjan er að öllum líkindum einhver sem stendur okkur nærri. Kúgarinn eða ofbeldismanneskjan treystir því að þú segir ekki frá í nafni kærleikans.

Tvöfalda kærleiksboðið er æðra öllum öðrum boðorðum því það felur allt í sér, að elska Guð og að elska náungann eins og okkur sjálf. Þegar þú stendur með sjálfri/sjálfum þér eða með þeim sem minna mega sín þá ert þú bæði að sýna þér og náunganum kærleika. Með því að brjóta meiðandi mynstur, kúgun og ofbeldi, þá ert þú að sýna þann hugrakkasta kærleika sem mögulegt er að sýna.

Uppsprettu kærleikans er síðan að finna hjá Guði. Þaðan kemur kærleikurinn sem gefur þér kjarkinn. Þaðan kemur ástin sem fær þig til að vilja setja mörk og segja frá. Guð, sem er hinn æðsti kærleikur, er uppspretta kærleika sem hvorki er meiðandi né hamlandi heldur styðjandi og umvefjandi.

Dýrð sé Guði sem er kærleikur og gefur þér hugrekki til að elska og setja mörk í kærleika.

Þessi prédikun var flutt í Grafarvogssókn 18. sunnudag eftir þrenningarhátíð, 16. október 2022. Guðspjall dagsins var Mark. 12: 28-24, Tvöfalda kærleiksboðið. Fyrri ritningarlestur var úr 2Mósebók 20:1-17, Boðorðin 10.