Að fara á dýptina

James Webb sjónaukinn
Ég er nokkuð viss um að þið hafið séð eitthvað af myndunum úr James Webb sjónauka NASA og ESA sem birtust nú í vikunni eða að þið hafið í það minnsta heyrt af þeim. Þetta er öflugasti sjónauki sem búinn hefur verið til enda tók um 20 ár að byggja hann. Myndirnar sem birtust eru teknar úr svo mikilli fjarlægð að þær eru allt að 13 billjón ljósára gamlar. Þær eru svo fagrar og ótrúlegar að það er erfitt að slíta sig frá þeim. Þessar myndir minna okkur ef til vill fyrst og fremst á hversu agnar smá við erum í þessum stóra og  fjölbreytta heimi. Og það er gott að hafa í huga það sem eftir lifir þessa pistils.

Sjómenn á plánetunni jörð
Og fyrir meira en tvö þúsund árum, sem er náttúrulega enginn tími í samhengi alheimsins, gerðist það á plánetunni jörð að nokkrir þaulvanir sjómenn, sem voru að ganga frá netum sínum eftir aflalítinn dag á Genaseretvatni, voru beðnir um að fara aftur út á vatnið, enn lengra út en þeir voru vanir, á enn meira dýpi og kasta netunum á ný. Við getum rétt ímyndað okkur hversu vinsæl þessi beiðni var. Þeir hafa eflaust verið orðnir mjög þreyttir eftir langan vinnudag auk þess sem þeir höfðu hlýtt á Jesú þetta kvöld og lánað honum bát sinn til þess að hann kæmist aðeins lengra frá fólkinu sem var við það að troða hann niður. Og seint um kvöldið, þegar Jesús var búinn að fræða fólkið segir hann Símoni Pétri og hans fólki að fara út og kasta netunum á nýjan stað. Símon er tregur til en hann gerir það þó næstum möglunarlaust. Hann svarar u.þ.b. „víst þú endilega vilt“. Hvers vegna hann hlýðir orðum Jesú vitum við ekki. Ef til vill var hann í þakkarskuld við hann. Kannski var hann svona meðvirkur eða svo er svarið það einfalt að hann treysti einfaldlega Jesú og hugsaði með sér að ekki hefðu þeir fengið neitt á sínum venjubundna stað í langan tíma og því töpuðu þeir ekkert á að prófa eitthvað nýtt. Þ.e. hann var nógu opinn til þess að taka áhættu og prófa eitthvað nýtt þegar gamla aðferðin virkaði ekki.

Og viti fólk, þeir veiða svo mikið að þeir fylla bátana og vel það. Þeir þurfa hjálp við að koma fisknum í land. Þvílíkur var aflinn.

Það sem gerðist þarna var að Jesús bað þá að treysta sér. Hann bað þá að gera eitthvað alveg nýtt og eitthvað sem hljómaði jafnvel hálf galið í eyrum þeirra.

Hvað með þig?
Hefur þetta komið fyrir þig? Hefur einhver (jafnvel þín innri rödd) stungið upp á því að þú gerðir eitthvað óvenjulegt, prófaðir eitthvað nýtt þegar það sem þú ert vön/vanur að gera hefur ekki virkað?  Eða bara þegar þú ert orðin fastur/föst í viðjum vanans.

Það er ekkret grín að fylgja svoleiðis uppástungum eða beiðnum. Það er svo ágætt að gera frekar hlutina eins og við erum vön.

Það er gjarnan þannig að þegar við höfum komist upp á lag með að gera hlutina með ákveðnum hætti eða lifa lífi okkar með ákveðnum hætti þá hættum við að ögra okkur viljum og helst ekki breyta mikið út af vananum. Og það er svo eðlilegt því það getur tekið á að breyta.

Jesús segir við Símon Pétur, „Legg þú á djúpið“. Hann vill að hann fari út á meira dýpi, að hann kafi dýpra eftir því sem sem hann vill. Getur verið að það sé kominn tími til að þú kafir dýpra eftir því sem þú þráir, að þannig fáir þú meira út úr lífinu?

Símon Pétur og hans fólk fengu margfaldan afla við það að fara lengra út, á dýpið. Ef til vill á það sama við um þig…

Guð á dýpinu
Í þessari sögu er svo skýrt að Guð vill að förum á dýptina í lífinu, að við séum ekki alltaf að svamla við yfirborðið þar sem við sjáum til botns. Og þetta á við um allt í lífinu.

Þetta á við um trúna/andlega lífið. Ef við höldum okkur við trúna sem okkur var kennd þegar við vorum börn og leyfum henni ekki að þroskast í takt við okkar eigin þroska þá er nokkuð öruggt að við annað hvort segjum skilið við trúna að lokum eða í mesta lagi leyfum henni að hanga þarna sem nokkurskonar haldreipi ef eitthvað slæmt skyldi gerast og til þess að halda við menningunni sem við erum alin upp í. En það er ekki gefandi trú og það er ekki þroskandi andlegt líf. Ég er hrædd um að þetta hafi að nokkru leyti gerst í okkar góðu Þjóðkirkju, að við höfum eignast trú sem börn, fengið fræðslu í sunnudagaskólanum og svo kannski aðeins meiri fræðslu og upplifum í fermingarfræðslunni en síðan þegar við förum að þroskast enn frekar sem einstaklingar þá hefur samleiðin með kirkjunni og trúnni verið svo miklu minni að trúarþroskinn hefur orðið eftir á kirkjubekknum. Og þá leitum við annað. Ég held að ein af ástæðum þess að æ fleiri telja sig ekki eiga samleið með kristinni kirkju á Íslandi sé að trúin sem við eignuðumst sem börn og mögulega unglingar, hefur ekki fengið færi á að þroskast og því hefur trúin orðið eftir hjá því sem tilheyrði æskunni. Barnatrú getur aldrei verið nóg fyrir fullorðina manneskju. Barnatrú er bara fyrir börn. Andlegt líf fullorðinnar manneskju sem skilur (upp að einhverju marki í það minnsta) að hún er bara örlítið sandkorn í alheiminum, verður að fylgja þeim þroska. Trúin þarf að halda á djúpið til þess að geta gefið okkur ríkt andlegt líf.

Þetta á við um einkalifið. Ef við höldum öllu á yfirborðinu og nærum ekki sambönd okkar við fólk og okkar andlega líf þá verður það að lokum innantómt. Það verður kannski þægilegt upp að einhverju marki, en innantómt. Kannski ættum við að reyna að kynnast fólkinu okkar betur, vinum og fjölskyldu. Gefa okkur tíma til að ræða um eitthvað sem skiptir máli og gera eitthvað með þeim sem við erum ekki vön. Halda út á djúpið með þeim. Kannski verði aflinn þá meiri en venjulega.

Þetta á við um vinnu og skóla en mörgum okkar hættir til að festast í þægilegu fari í vinnu og jafnvel að leggja ekki meira á okkur en við komumst upp með í námi. En flest getum við svo miklu meira en við trúum og til þess að komast að því sem við raunverulega getum þá verðum við að halda á djúpið.

Óttinn við hið óþekkta
Það krefst hugrekkis að halda á djúpið. Það vissi Jesús vel þegar hann bað Símon Pétur að halda þangað og það veit Guð, sem er hinn æðsti kærleikur, nú þegar það hvetur þig og mig til þess að halda þangað. Ótti snýst alltaf um hið óþekkta og þegar förum á dýptina þá vitum við ekki hvað við finnum. Það er óþægilegt en það er líka spennandi að fara nýjar leiðir og halda á ótroðnar slóðir. Það er svo þægilegt að svamla í grunna vatninu þar sem við sjáum niður á botn en í því felst heldur engin áskorun. Áskorunin felst í því að fara á dýpið, þar sem við sjáum ekki til botns.

Trúin og andlega lífið verður fyrst krassandi og gefandi þegar við förum á dýptina og skorum á barnatrúna. Þar eru fjársjóðirnir faldir. En í trúnni sem fer lengra en barnatrúin býr líka efinn og ef til vill er efinn það sem hindrar mörg okkar frá því að halda lengra. En efinn er góður. Efinn er mikilvægur og hann er hluti af trúnni. Og það er allt í lagi að efinn hafi stundum betur því það er hluti af andlegum þroska manneskjunnar, hinu andlega ferðalagi sem lýkur aldrei.

Einkalífið verður líka fyrst gefandi þegar við förum á dýptina. Það er alltaf hætta á að við finnum eitthvað sem við hefðum heldur viljað sleppa við en þegar upp er staðið er þroskinn sem því fylgir alltaf þess virði ef vel er unnið úr.

Það sama á við um vinnu og nám, ef við tökum skrefið og höldum á djúpið, tökumst á við ótta og hindranir þá fyrst komumst við að því sem við erum fær um. Þá fyrst finnum við hina földu fjársjóði í okkur sjálfum.

Hvar þarft þú að halda á djúpið? Hefur þú kjarkinn til þess að taka áskorun Jesú og reyna nýjar aðferðir þar sem hinar gömlu eru ekki að virka nógu vel?

Þegar Símon Pétur áttar sig á að það borgaði sig að halda á ótroðnar slóðir með Jesú og hann sér að lífið hans mun breytast upp frá því segir Jesús við hann að hann þurfi ekki að óttast. Þetta segir Jesús gjarnan við fólk sem stendur frammi fyrir áskorunum og þetta segir Jesús við þig og mig þegar við höldum á djúpið.
Óttast ekki! Þetta verður allt í lagi.

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju 17. júlí 2022
Guðspjall: Luk. 5. 1-11