Flugfreyjan, Jesús og allt sem í okkur býr

Mikilvæg saga
Það er aðeins ein kraftaverkasaga sem kemur fyrir í öllum fjórum guðspjöllum Nýja testamentisins. Og ekki nóg með það heldur kemur hún sex sinnum fyrir sem þýðir að hún birtist tvisvar sinnum í tveimur guðspjallana. Saga dagsins um brauð undrið, þegar Jesús mettaði mikinn fjölda fólks með litlu, fangaði höfunda guðspjallana svo mjög að þeir vildu allir hafa hana með og það oftar en einu sinni. Við eigum, af einhverjum ástæðum, ekki að missa af þessari sögu.

Hvers vegna ætli þessi saga sé svona mikilvæg? Við getum endalaust rökrætt um það hversu mikið af fólki þetta raunverulega var sem Jesús mettaði. Voru þessi 4000 eða 5000 eingöngu karlar eða eru konur og börn inni í þessari tölu o.s.frv. Við getum velt því fyrir okkur hvort þetta hafi verið raunverulegt kraftaverk eða hvort þetta hafi kallað fram örlæti í fólkinu sem var þarna samankomið. Við getum velt því fyrir okkur hvort þessi viðburður hafi raunverulega átt sér stað og hvort atburðarásin hafi þá verið nákvæmlega með þessum hætti.

Hvað með að skoða þriðja möguleikann, aðra vídd sem hvorki er mælikvarði á sagnfræði eða kraftaverk? Getur verið  að það sé eitthvað annað sem skipti meira máli í þessari sögu en kraftaverk eða staðreyndir? Er mögulegt að Guð eigi við okkur svo áríðandi erindi með þessari sögu að við verðum að fá að heyra hana oft? Þekkja hana vel?

Flugfreyjan
Til er saga frá rithöfundinum og kvekaranum Parker Palmer sem tengist sögu dagsins. Þessi atburður átti sér stað fyrir tíma hertra reglna á flugvöllum og gegnumlýsingar á farangri. Eða þegar enn mátti fara með hvað sem var í handfarangri í flugvél.

Palmer var staddur í flugvél á leið frá Chicago til Denver. Farþegarnir voru allir komnir út í vél. Búið var að loka og vélin að nálgast flugbrautina þegar flugvélin stöðvast og slökkt er á hreyflunum. Stuttu síðar heyrist rödd flugstjórans í hátalarakerfinu og hann segir að hann sé því miður ekki með góðar fréttir, að það sé stormur í Denver og búið að loka flugvellinum þar. Þau þurfa því að bíða um borð í vélinni í nokkra klukkutíma á meðan að stormurinn gengur yfir. Það sem verra er, er að enginn matur er um borð í vélinni. Við getum rétt ímyndað okkur viðbrögð farþegana. Margir stundu yfir þessu og sumir urðu reiðir. En þá stendur ein flugfreyjan upp og tekur hljóðnemann. „Okkur þykir þetta virkilega leitt“ segir hún. „Við gerðum ekki ráð fyrir þessu og við getum því miður ekkert gert í þessu núna. Við vitum að þetta er afar erfitt fyrir mörg ykkar. Þið eruð svöng og einhver ykkar höfðu gert ráð fyrir góðum hádegisverði á áfangastað. Og einhver ykkar þurfa jafnvel á mat að halda fljótlega, heilsu ykkar vegna. Svo ég er með hugmynd. Við erum hér með nokkrar tómar brauðkörfur sem við látum nú ganga um vélina og þið setjið öll eitthvað í körfuna. Mörg ykkar eru með eitthvað svolítið nasl með ykkur, kex, súkkulaði, snakk, brjóstsykur eða tyggjó t.d. Ef þið eruð ekki með neitt ætilegt getið þið bara látið nafnspjaldið ykkar, bókamerki, límmiða eða bara hvað sem ykkur dettur í hug í körfuna. Ég vona að öll setjið þið eitthvað í körfurnar. Síðan munum við láta körfurnar ganga aftur og þá takið þið úr þeim það sem þið þurfið.“

Það sem gerðist næst var alveg magnað. Til að byrja með hætti fólk að kvarta. Þá fór fólk að róta í vösum og töskum. Einhver fóru og náðu í töskur í farangurhólfin og tóku fram sælgæti, pylsur, skinku, ost, gosdrykki, vínflösku svo eitthvað sé nefnt. Það sem gerðist einnig var að þarna var fólk farið að spjalla saman og hlæja. Flugfreyjan hafði með þessu breytt áhyggjufullum, kvíðnum hópi sem einblíndi eingöngu á sínar eigin þarfir og skort, í vinalegt samfélag fólks sem hjálpaðist að og sá að það átti í raun meira en nóg af öllu.

Þegar vélin síðan lenti í Denver og farþegarnir gengu út sagði Palmer við flugfreyjuna: „þú veist það kannski en að það er saga í Biblíunni um það sem þú gerðir“. „Já, ég þekki söguna“ sagði hún. „Það er þess vegna sem ég gerði þetta“.

Skortur
Hversu oft hefur þú ekki sagt, „ég á bara ekkert að bjóða upp á.“ „Ég á ekkert að vera í.“ „Ég hef bara ekkert að gefa“. „Ég kann ekki, ég get ekki, ég er ekki nóg…“

Ég hef í það minnsta bæði sagt þetta og hugsað. Ég fyllist oft minnimáttarkennd þegar ég hvað fólkið í kringum mig hefur mikið að gefa, hvað það er klárt og duglegt og hæfileikaríkt. Og ég fer að velta mér upp úr öllu því sem mig skortir.

En þegar við hugsum eftir þessum brautum einblínum við á skortinn og fátæktina í okkur sjálfum og sjáum ekki allt það sem við þó eigum og getum og höfum upp á að bjóða.

Allt sem í okkur býr
Flest eyðum við miklum tíma í að hugsa um allt sem okkur skortir og okkur skortir öllum svo sannarlega eitthvað. En hvernig væri það ef við, í stað þess að einblína á það sem við höfum ekki, getum ekki og kunnum ekki, leitum að því sem við þó höfum, getum og kunnum og það sem við erum. Við eigum nefnilega alltaf meira en við höldum. Við getum svo miklu meira en við þorum að vona og við kunnum meira en við trúum.

Það er nefnilega svo að allt stórkostlegt sem Guð gerir, allt það meriklegasta sem sagt er frá í Biblíunni verður til úr litlu, úr skorti, úr veikleika. Ekki úr allsnægtum og styrkleika. Eins og guðfræðingurinn Nadia Bolz Weber sagði: „Jesús sagði aldrei að guðsríki væri eins og eitt af 500 arðbærustu fyrirtækjum veraldar með hamingjusömustu hlutabréfaeigendunum innanborðs“. Nei, guðsríki er líkt við minnsta sáðkorni á jörðu. Því er gott að þekkja það sem okkur skortir, að þekkja veikleikana okkar, ef við látum okkur ekki nægja að einblína á þá. Ef við getum horft lengra og búið til eitthvað ríkulegt úr skortinum.

Þriðja víddin í þessari sögu er ef til vill sú að Guð hefur áhuga á veikleikum okkar, á því sem við upplifum okkur skorta vegna þess að Guð vill hjálpa okkur að vaxa upp úr því og finna styrkinn okkar. En ef til vill þarf eina flugfreyju eða einn Jesú frá Nasaret til þess að hjálpa okkur að koma auga á að okkur skortir svo miklu minna en við höldum og það býr svo miklu meira í okkur en við þorum að trúa. Og þetta finnum við þegar við deilum skortinum okkar með öðru fólki og hjálpumst svo að við að safna styrkleikunum okkar saman í brauðkörfur og deilum þeim með hvert öðru.