Siðasta hálmstráið
Sögur
Prédikun flutt í Kirkjuselinu í Garafarvogi 13. október 2019. Guðspjall Mark. 9: 17-29.
1
Það voru eitt sinn foreldrar sem áttu yndislega fallegan og vel gerðan dreng. Þegar drengurinn nálgast unglingárinn kemur í ljós að hann er haldinn alvarlegri flogaveiki. Þetta byrjar vægt, bara einstaka flog og oft virðist sem þetta sé að lagast en einmitt þá kemur oftar en ekki bakslag og þetta versnar. Þannig líða árin og að lokum er staðan orðin þannig að foreldrarnir eru algjörlega ráðþrota. Drengurinn hafði margoft verið nær dauða en lífi, bæði vegna flogana en líka vegna þess að hann datt oft illa þegar flogin komu og var þá oft hætt kominn. Foreldrarnir höðu leitað til færustu lækna. Drengurinn hafði fengið öll bestu lyfin en þau voru líka farin að hafa áhrif á persónuleikan hans. Pabbi hans og mamma höfðu reynt allt og voru hrædd um að einn daginn myndi hann einfaldlega deyja úr þessum sjúkdómi. Þau höfðu engu að tapa og voru tilbúin að reyna allt, líka eitthvað yfirnáttúrulegt. Þau höfu heyrt að Jesús væri að lækna fólk og að hann hefði alveg sérstakan mátt. Þau höfðu talað við lærisveinana hans en þeim hafði ekki tekist að lækna hann. Þau voru því frekar efins þegar þau fóru á fund Jesú og lögðu drenginn fram fyrir hann. Og viti menn! Jesús læknaði drenginn! Honum batnaði! Floginn eða illi andinn, eða hvað það nú var sem var að hrjá hann, fór út úr honum og hann varð heill. Þetta tók á. Jesús skammaði lærisveinana. Hann skammaði fólkið sem var þarna en hann læknaði barnið þeirra og sagði að lokum að þetta hefði verið óvenju erfitt viðfangsefni. Að ekkert nema bænin hefði virkað að lokum, þegar búið var að reyna allt annað.
2
Það voru eitt sinn foreldrar sem áttu góða og gáfaða dóttur. Henni gekk bæði vel í íþróttum og í námi. Hún varð fljótt framarlega í frjálsum íþróttum. Hún fékk háar einkunnir. Þegar hún komst á unglingsárin gekk allt vel til að byrja með. Hún fékk áfram góðar einkunnir og þurfti lítið að hafa fyrir skólanum. Hún eignaðist kærasta og var vinsæl meðal vinanna í skólaum og félagsmiðstöðinni. En að því kom að henni hætti að ganga jafnvel í íþróttunum, kannski þegar hún var um það bil fjórtán ára og að lokum hætti hún í frjálsum. Það fór að vera svo gaman að vera með vinunum á kvöldin. Þau fóru að prófa að drekka og hún var löngu byrjuð að veipa. Hún prófaði kannabis og fannst það gott. Smám saman færðust mörkin hennar þegar kom að áfengi og ýmsum efnum. Hún fór að nota þau stundum á daginn líka og þá fór mætingin í skólan að verða slakari. Auðvitað sáu foreldrarnir hvað var að gerast, eða svona næstum því alla vega, en það var alveg sama hvað þau reyndu. Það breytti engu. Hún fór í menntaskóla en eftir að hafa hangið þar inni í þrjú ár datt hún endanlega út. Þá var hún farin að reykja kannabis daglega og taka önnur efni. Áfengi notaði hún bara með. Vinahópurinn breyttist og hún fór að hverfa að heiman, stundum í marga daga í senn. Mamma hennar og pabbi reyndu allt. Þau töluðu við skólann, við félagsmálayfirvöld, við lögregluna. Þau útveguðu henni pláss í meðferð nokkrum sinnum, fóru með hana til geðlæknis, prests og sálfræðings. Þau töluðu við vinina og þau leituðu sér hjálpar sjálf. Þau lokuðu á hana. Þau opnuðu á hana. Þau skömmuðu hana og þau héltu utanum hana og elskuðu hana. Að lokum dugði ekkert annað en að falla á kné og biðja til Guðs. En hjálpin þeirra kom aldrei. Litla barnið þeirra dó áður en hún varð 23 ára úr of stórum skammti.
3
Það var eitt sinn kona sem hafði verið hraust alla sína ævi. Hún hafði bara fengið pestir einstaka sinnum, svona eins og við öll, en varla meira en það. Hún lifði heilbrigðu lífi, hafði reyndar reykt á frá því húm var um átján ára og til rúmlega þrítugs en að öðru leyti hafði hún hugsað vel um sig. Hún hreyfði sig reglulega, gekk á fjöll og fór í ræktina. Hún borðaði þokkalega holt eða í það minnsta ekkert sérstaklega óholt. Hún átti góða fjölskyldu og lífið lék við hana. Þegar hún er orðin 45 ára fer hún að finna að það er eitthvað sem er ekki eins og það á að vera og eftir nokkuð margar og ítarlegar rannsóknir fær hún það staðfest að hún er með krabbamein í brjósti. Þessar fréttir urðu henni nokkuð mikið áfall þrátt fyrir að hún vissi vel að líkurnar á þessu krabbemeini hjá konum væru þó nokkrar. Hún vissi líka að líkur á lækningu væru yfirleitt nokkuð góðar en þetta fór samt verulega illa í hana. Allt hafði gengið svo vel þar til kom að þessu að hún vissi eiginlega ekki hvernig hún ætti að vinna með þetta. Auk þess kom í ljós að meinið var komið vel á veg þegar það greindist og ekki hægt að skera það nema að hægt væri að minnka það fyrst. Hún fór strax í meðferðir og gerði allt sem læknarnir mæltu með og það gekk ágætlega. Hún fékk góða hálp bæði frá fjölskyldu og vinum og fagfólki. Vinur hennar sem var í tengslum við kirkjuna setti nafnið hennar á bænalista þar þannig að fjöldi fólks bað fyrir henni í hverri viku. Það kom meira að segja fyrir að hún prófaði að biðja til Guðs þó hún væri ekki í mikilli æfingu, enda hafði hún aldrei þurft á slíkri hjálp að halda áður. Hún bað þess að Guð tæki meinið frá henni, að hún yrði frísk. Og það kom að því að meðferðirnar höfðu tilskilin áhrif. Í dag eru átta ár frá því henni var tilkynnt að hún væri orðin full frísk á ný.
4
Það var eitt sinn maður sem hafði lifað viðburðaríku og góðu lífi. Það hafði svo sem ekki verið án áfalla. Barnæskan hafði ekki verið áfallalaus. Móðir hans var honum ekki alltaf góð en hann hafði komist í gegnum þetta án alvarlegra meina. Hann og fyrrverandi konan hans höfðu skilið eftir frekar erfitt hjónaband en hann átti fimm góð börn sem hann var svo óendanlega stoltur af. Barnabörnin voru líka orðin fjölmörg. Hann hafði gifst á ný og það hjónaband var farsælt og gott. Þau ferðuðust mikið og nutu þess að vera saman og með fjölskyldunni sinni stóru. Hann hafði alltaf unnið mikið en gat þó einnig notið þess vel að vera í fríi með konunni sinni sem honum þótti svo undur vænt um. Þegar hann er kominn á eftirlaun og er rétt að vera 74 ára kemur í ljós að hann er með krabbamein í brisi. Þegar honum er tilkynnt hvers kyns er verður honum ljóst að þetta verkefni verði ekki auðvelt. Hann skildi það strax á lækninum að þetta væri erfitt viðureignar og fékk það staðfest þegar hann fór heim og googlaði. Þetta voru ekki auðveldar fréttir enda hafði hann þegar misst bæði vini og fjölskyldumeðlimi úr krabbameini. Þau ræddu þetta út frá öllum hliðum, hjónin og hann var alveg viss um að hann vildi reyna meðferð þó líkurna væru ekki ýkja miklar. Hann ákvað strax að hann myndi ekki gefast upp heldur reyna að sigra. Hann langaði bara alls ekki að deyja strax. Þegar eftir fyrstu meðferð kom í ljós að árangurinn var lítill sem enginn. Honum var boðin önnur, ólík meðferð sem hann þáði eftir samtöl við konuna sína, vini og lækna. Hann vissi vel að líkurnar væru ekki góðar en nú var hann að hugsa um að lengja tímann með fólkinu sínu eins og hægt væri. Meðferðin gekk ekki vel og smám saman dró af honum. En hann langaði ekki til að deyja. Hann bað til Guðs. Hann bað af öllu hjarta. Til að byrja með bað hann Guð um að hann yrði frískur en smám saman þróuðust bænirnar yfir í það hann fengi aðeins lengri tíma og hann bað fyrir konunni sinni, sem hann elskaði svo, og fyrir börnunum sínum og barnabörnunum. Að lokum þakkaði hann fyrir allt. Hann lést sjö mánuðum eftir að hann greindist.
Síðasta hálmstráið
Sögurnar gætu allar verið sannar og þær eru það allar að einhverju leyti enda eru þær samdar út frá sögum fólks sem ég hef gengið með í gegnum sína erfiðleika. Þær eru um fólk sem trúir heitt og um fólk sem hefur lítið velt trúnni fyrir sér. Þær eru um fólk sem á vini og fjölskyldu sem trúa en líka um fólk sem kemur úr umhverfi sem ekki einkennist af trú. Það sem fólkið á þó allt sameiginlegt er að það hefur komið sá tími í þeirra lífi að þau hafa ekki átt neina aðra von eftir en Guð.
Fyrsta sagan, um drenginn sem fékk lækningu við flogaveiki er tilbrigði við sögu dagsins í Markúsarguðspjalli. Í guðspjallinu er reyndar talað um að drengurinn hafi verið haldinn illum anda en samvkæmt lýsingunum á ástandi drengsins virðist nokkuð ljóst að þarna var um flogaveikt barn að ræða.
Í þessari sögu er sagt frá foreldrum, eða föður, sem er tilbúinn að ganga ansi langt til þess að leita drengnum lækningar. Hann er búinn að reyna allt og aðeins Jesús er eftir. Ég held að við getum öll sett okkur í þau spor að ef barnið okkar eða einhver sem við elskum framar öllu verður veik og enga lækningu er að finna, þá erum við tilbúin til þess að reyna allt. Oft er Guð þá síðasta hálmstráið, þegar allt annað þrýtur. Hjá mörgum okkar er Guð vissulega með frá byrjun en það sem þessar sögur eiga allar sameiginlegt er að þegar öll önnur ráð þrýtur, þegar læknavísindin geta ekki hjálpað lengur er ekkert annað eftir en Guð og vonin um kraftaverk. Og þegar við erum komin á þann stað held ég að við séum flest, ef ekki öll, tilbúin til þess að vonast eftir kraftaverki þó við myndum aldrei trúa á slíkt undir venjulegum kringumstæðum.
Í sögunni í Markúsarguðspjalli á kraftaverk sér stað eða í það minnsta læknast drengurinn. Og stundum er það þannig að fólk læknast jafnvel þegar ekki leit út fyrir að nokkur von væri eftir. Kannski er það kraftaverk. En það er þó svo sannarlega ekki alltaf þannig. Margar sögur enda ekki vel, alveg sama hversu heit trú okkar er eða hversu sterk von okkar og ósk er um kraftaverk.
Ég veit ekki hvers vegna sumar sögur enda vel og aðrar ekki.
Ég vildi óska þess að allar sögur enduðu vel og ég býst við að þú gerir það líka.
Guð er með í öllum sögum
Ég hef gengið með fólki í gegnum margvíslegar raunir og mikla erfiðleika. Sumar sögur hafa farið vel en aðrar ekki. Það sem ég er þó alveg sannfærð um er að Guð er jafn mikið með okkur þegar sögurnar enda illa og þegar þær fara vel. Endirinn á sögunum byggir ekki á trú okkar. Trú pabbans bjargaði ekki drengnum með flogaveikina. Stúlkan sem lést úr of stórum skammti dó ekki vegna þess að foreldrar hennar trúðu ekki nóg.
Ég á erfitt með trúa því að Guð stjórni lífi og dauða en ég trúi því að Guð sé með okkur bæði þegar lífið er gott og allt fer vel og þegar lífið verður erfitt og jafnvel óbærilegt.
Ekkert okkar fer í gegnum heila ævi án áfalla. Það er óvenjulegt að manneskja fari í gegnum heila ævi og eigi aðeins sögur sem enda vel. Eins er það óvenjulegt og varla til að manneskja eigi aðeins sögur sem fara illa.
Þrátt fyrir að ég eigi ekki auðvelt með að trúa á kraftaverk, þó ekki sé nema vegna þess að þau virðast of tilviljanakennd, þá er ég alveg sannfærð um mátt bænarinnar. Ég veit að bænin hjálpar því ég hef ítrekað orðið vitni af því og upplifað það sjálf. Svarið við bænunum okkar er ekki alltaf eins og við vildum en bæn til æðri máttar sem beðin er Jesú nafni hefur áhrif. Fólk læknast ekki alltaf en þá getur bænasvarið verið faðmlagið, handtakið og hlýju orðin sem samferðafólkið okkar veitir okkur.
Bænin róar hugann og gefur von. Hún veitir okkur kraft og frið í hjarta og hún flytur jafnvel fjöll.
Öll munum við lifa góðar sögur og slæmar. Við munum flest einhvern tíma finna okkur á stað þar sem við eigum engin úrræði eftir önnur en bænina og stundum dugir hún ekki til. Það sem við getum öll gert er að sýna það hugrekki að dvelja með náunga okkar líka í sögunum sem enda ekki vel. Það getur verið bænasvar þegar allt annað þrýtur.
Dýrð sé Guði sem bæði er með okkur í hinu góða og þegar sögurnar okkar enda ekki vel.