Kona með tár og hár

Prédikun flutt í Kirkjuselinu í Grafarvogi 1. september 2019
Luk. 7;36-50

Fætur
Hefur þú þvegið fætur annarrar manneskju?

Kannski ertu snyrtifræðingur eða fótaaðgerðafræðingur og þá hefur þú náttúrulega gert það oft og mörgum sinnum. En ef þú vinnur ekki við það. Hefur þú þá gert það?

Ég er ekki viss um að ég hafi þvegið fætur nema þá helst barna minna sem telst nú varla með.

Okkur finnst mörgum eitthvað svo náið að snerta fætur fólks auk þess sem mér virðist sem nokkuð af fólki sé með hálfgerða fóbíu fyrir fótum og tám. Sumum finnst tær hreinlega ljótar.

Ekki veit ég hvort fólk hafði minni fóbíur fyrir fótum á tímum Jesú. Þó var sá munur að fólk gekk gjarnan í söndulum eða berfætt eftir rykugum vegum og í sandi og það var það hlutverk þjóna að þvo fætur heimilisfólks og gesta á betri heimilum.

Fæturnir eru tenging okkar við jörðina. Við sem erum svo lánsöm að geta staðið á fótunum finnum fyrir jarðtengingunni í gegnum fæturna. Fæturnir eru því kannski það mest jarðneska við manneskjuna. Þegar við, sem erum næstum alltaf í skóm og sokkum, síðan förum úr sokkum og skóm þá verðum við berskaldaðri en þegar fæturnir eru fullklæddir, huldir og jafnvel upphækkaðir.

Þannig finnst mér alltaf hálfóþægilegt að þurfa að ganga á sokkaleistunum eða berfætt í gegnum öryggishliðið í Keflavík. Ég upplifi stundum að hluti af reisn minni hverfi með skónum. Mikið er því gott að klæða sig í þá aftur og arka bein í baki og helst á svolítið háum skóm frá hliðinu.

Kona með tár og hár
Í dag heyrðum við sagt frá konu sem kom óboðin í matarveislu þar sem Jesús var gestur. Veislan var haldin hjá farisea nokkrum sem hét Símon en farisear voru íhaldssamir, strangtrúaðir Gyðingar.

Konan, þessi óboðni gestur gengur beint að Jesú og fer að þvo fætur hans með tárum sínum og þerrar þá  síðn með hári sínu. Þá kyssir hún fætur hans og smyr þá með smyrslum.

Þessi saga er í öllum fjórum guðspjöllunum þó útgáfurnar séu ekki allar alveg eins. Ég held að við getum gengið út frá því að þessi saga hafði áhrif á fólk og því er hana að finna á fjórum stöðum í Biblíunni.

Það er svo mikil jarðtenging í þessari sögu. Konan sýnir okkur svo vel að Jesús er ekki eingöngu upphafinn og ósnertanlegur heldur var hann einnig ósköp venjuleg manneskja með ósköp venjulegar tær sem stundum urðu óhreinar. Hún sýnir okkur að Jesús þurfti á kossum og snertingu að halda, eins og við. Hann þurfti á smurningu að halda, eins og við.

Jesús, sem kom í heiminn til þess að sýna okkur hver Guð er, var fullkomlega jarðneskur um leið og hann var fullkomlega Guð.

Ég sé þessa samkomu fyrir mér þar sem karlarnir sitja saman og spjalla. Kannski keppast þeir um að vanda mál sitt og vera kurteisir og koma vel fyrir þegar þessi kona kemur inn með hár og tár og kossa og allt mögulegt sem er bara alls ekki við hæfi. Enda líst Símoni, gestgjafanum ekkert á blikuna og hann veltir fyrir sér hvort Jesús sé ekki að skilja hvers konar kona þetta sé. Hvort hann skilji ekki að það sé alls ekki við hæfi að Jesús sé að umgangast svona bersynduga manneskju og hvað þá að hann leyfi henni að kássast svona utan í sér.

Jesús sér hana
Eitt er ljóst; Jesús sér konuna. Og hann kann að meta það sem hún er að gera. Hún notar ekki flókin og falleg orð. Hún bíður ekki þar til röðin kemur að henni enda veit hún að röðin mun aldrei koma að henni. Hún er ekki verðug. En Jesús sér hana og hann vill að Símon sjái hana líka.  Hann vill að við sjáum hana. Konuna sem sýndi honum kærleika og ástúð án orða. Konuna sem þráði að tilheyra Guði og vera elskuð og lagði allt í sölurnar til þess.

Í þessari útgáfu sögunnar, í Lúkasarguðspjalli, smyr konan fætur Jesú. Hún smyr óhreinasta hluta líkamans sem alltaf er í snertingu við jörðina. Kannski var hennar staða svolítið eins og staða fótanna. Hún svo sannarlega álitin jarðnesk og ekkert heilagt við hana í hugum fólks. Sumt fólk var áreiðanlega með fóbíu eða í það minnsta óþol gagnvart henni. Það var litið niður á hana og hún óhrein í hugum felstra.

Hér eins og svo oft þegar kemur að Jesú er hlutverkunum snúið við. Þessi kona var svo langt frá því að hafa þá stöðu gagnvart Jesú að geta smurt hann. En smurning er fyrirbæri sem kemur ítrekað fram í Bibliunni þar sem t.d konungar og prestar voru smurðir til þjónustu. Þá táknaði smurningin að manneskjan var helguð, tekin frá fyrir einhverja tiltekna þjónustu. Einnig má skilja þetta sem eins konar fyrirbæn. Reyndar var látið fólk einnig smurt fyrir greftrun og jafnvel höfuð dýra til að verja þau ágangi skordýra.

Kannski var það bersynduga konan sem smurði Jesú til þjónustu sinnar. Hin smæsta í augum fólks smurði hinn hæsta. Hið jarðneska helgaði hið himneska.

Jesús þáði smurningu konunnar. Hann var þakklátur tárum hennar og kossum. Hann sá hana og hann vildi að þau sem litu niður á hana sæu hana líka.

Þannig sér Guð þig og mig. Guð sér okkur eins og við erum. Guð lítum aldrei smáum augum á þig og vill ekki að þú gerir það heldur.

Við erum konan sem smurði Jesú. Við erum Símon sem leit niður á konuna og við erum Jesú sem þáði smurningu. Þessi saga sýnir okkar að skilin milli hins jarðneska og hins himneska eru ekki alltaf svo skörp. Hið heilaga blandast hér hinu jarðneska og Guð kannski einmitt þar sem hið himneska og hið jarðneska mætast.

Dýrð sé Guði sem sér okkur eins og við erum og er þar sem hið himneska og jarðneska mætast.