Blessað uppgjör

Blessun
Gleðilegt ár!
Þegar ég vígðist til prests kom til mín prestvígður maður í móttökunni á eftir og bað mig að blessa sig. Það kom svolítið á mig og mín fyrsta hugsun var hver er ég að blessa hann, rétt svo vígð og kann varla blessunarorðin! En ég lét á engu bera og blessaði manninn. Reyndar ákvað að ég blessa hann á íslensku (hann var sænskur) þannig að hann myndi ekki heyra ef ég ruglaðist. Og auðvitað ruglaðist ég því ég var svo stressuð.

Eftir þetta atvik hef ég veitt fjölmörgu fólki blessun og þegið enn fleiri. Blessun er nefnilega ekki eitthvað sem einungis prestar geta veitt. Þegar við kveðjum með orðunum „bless“ eða „vertu blessuð/blessaður“ þá erum við að blessa hvert annað. Við erum að biðja æðri mátt að gæta þeirra sem við blessum og við getum einnig verið að senda bæn út í alheiminn um að allt fari vel.

Í kirkjunni ljúkum við öllum guðsþjónustum og athöfnum með blessun. Þegar fólk giftir sig í kirkju, hvort sem það er við stóra athöfn í kirkjunni eða bara tvö inni á skrifstofu prestsins,  fær það blessun. Þegar börn eru skírð eru þau blessuð í bak og fyrir og það sama má segja um allar aðrar athafnir.

Blessun er ekki eitthvað sem einungis fer fram í kirkju en það má segja að ekkert fari fram í kirkju án blessunar.

Árið okkar
Áramótin eru tími uppgjörs. Kannski verða uppgjörin mikilvægari eftir því sem við eldumst og skynjum betur að við höfum ekki óendanlega tíma í þessari jarðvist. Fjölmiðlar hafa gert upp árið. Áramótaskaupið er búið og fréttaannáarnir hafa verið sýndir. Völvurnar spá fyrir um framtíðina. Hvernig var árið þitt? Var það óvenju gott, þar sem allt gekk þér í hag eða var það erfitt. Ertu kannski fegin/n að 2018 er búið? Ætli það hafi ekki verið blanda af báðu hjá okkur flestum? Hvað tökum við með okkur inn í nýtt ár?

Þrátt fyrir að við kveðjum hið gamla oft með tregablöndnum tilfinningum þá er svo gott til þess að vita að við getum alltaf byrjað upp á nýtt, það er aldrei of seint. Og nýtt ár er einmitt, á ákveðinn hátt, boð um nýtt upphaf. Nýju ári fylgja nýjar vonir, nýjir möglueikar.

Í upphafi árs getum við valið hvað við gerum við það sem stóð upp úr á árinu sem er að líða. Hvaða fréttir skiptu okkur máli, hvaða reynslu getum við lært af og hvaða minningar viljum við geyma. Auðvitað er þetta þó ekki alveg svo einfalt því erfiðu og sáru minningarnar fylgja okkur hvort sem við viljum það eða ekki, afleiðingar mistaka geta haldið áfram að hafa áhrif og afleiðingar ofbeldis og sárrar reynslu hverfa ekkert þó árinu ljúki og nýtt taki við. En við getum þó alltaf valið hvað við gerum við þessa hluti. Látum við þá halda áfram að lita líf okkar og jafnvel rífa okkur niður eða ætlum við að vinna úr þeim, læra af reynslunni og taka með okkur inn í framtíðina það sem byggir okkur upp?

Þegar við viljum hafa áhrif á líf okkar og ná árangri með eitthvað þá er góð leið að setja sér markmið. En það er afar mikilvægt við markmiðssetningu að hafa þau ekki of stór og yfirgripsmikil eða almenn. Þá er ólíklegra að við náum þeim og sitjum uppi ósátt. Þegar við setjum okkur markmið er best að hafa þau nákvæm, einföld og jafnvel mælanleg. Það sama á við um áramótaheitin enda eru þau ekkert annað en markmiðssetning. Það getur verið gott að nota tækifærið við upphaf nýs árs að setja okkur einföld markmið sem auðvelt er að ná. Ég sá um daginn að vinkona mín setti sér það markmið fyrir árið 2018 að lesa eina bók á mánuði og hún hafði haldið utan um allar bækurnar sem hún las og birti listann nú í desember. Þetta er dæmi um yfirstíganlegt og mælanlegt markmið. Annað sem ég hef lært um markmiðssetningar er að við aukum líkurnar á að ná markmiðunum ef við skrifum þau niður og segjum einhverjum frá þeim. Um leið og þú skrifar markmiðið niður verður það raunverulegra og þegar þú deilir því með annarri manneskju er komin meiri pressa á þig að standa við það.

Hvort sem við gerum upp árið ein með sjálfum okkur eða tjáum okkur opinberlega um uppgjörið þá er ég viss um að það sé gott fyrir okkur að fara yfir hvað gerst hefur á árinu. Þannig getum við dregið lærdóm af hinu liðna, hlúð að hinu góða og þakkað fyrir það og jafnvel sett okkur markmið eða áramótaheiti.

Blessað árið
Í nýarstexta gamla testamenntisins í fjórðu Mósebók talar Guð til Móse og biður hann að ávarpa bróður sinn með þeim orðum sem við köllum Drottinlega blessun. Með þessum orðum ljúkum við hverri guðsþjónustu og athöfn í  kristinni kirkjun um allan heim.

Guð vill að Móse tali til bróður síns með fallegum hætti og vilji honum vel.

Guð vill að við tölum til hvers annars með fallegum hætti og sínum hvert öðru velvilja.

Um áramót fer vel á því að biðja hvert öðru blessunar Guðs. Í þessum blessunarorðum sem við munum heyra nú í lok guðsþjónustunnar er ekki aðeins að finna bæn heldur einnig fullvissu um að Guð muni gæta þín. Að Guð verði með þér í gleði og sorg og hverju því sem bíður þín handan við hornið.

Þegar við kveðjum hvert annað með orðunum „bless“ eða „vertu blessaður/blessuð“, felst í því ósk að allt fari vel. Að viðkomandi eigi farsælt líf.

Ég hefði ekki þurft að vera óróleg þegar presturinn bað mig um að blessa sig á vígsludaginn. Í þessari bón fólst ákveðin fegurð og hann var ekki að þessu til þess að dæma um það hvort ég kynni ákveðin orð heldur aðeins til þess að þiggja. En blessun veitum við ekki okkur shjálf heldur þiggjum við hana af öðrum.

Á nýju ári biðjum við Guð að blessa okkur nýja árið, að blessa okkur sjálf og þau sem eru okkur kær.

Á nýju ári biðjum við Guð að blessa landið okkar og gefa að við, íbúar þess, getum sýnt hvert öðru kærleika, umburðarlyndi og réttlæti. Og við biðjum Guð að blessa heiminn okkar sem oft er svo brotinn og hjálpa okkur að gæta jarðarinnar sem okkur er treyst fyrir og vinna að friði.
Guð blessi þig!

Prédikun flutt í Grafarvogskirkju á nýársdag 2018