Lífstísláskorun

I
Áður en ég var samþykkt sem prestsefni í Sænsku kirkjunni fyrir nokkuð mörgum árum þurfti ég að fara í gegnum heilmikið prógramm. Ég þurfti að vinna verkefni, ein og með öðrum. Ég þurfti að fara í viðtöl við presta, djákna, prófast, biskup, lækni og sálfræðing. Það átti sannarlega að ganga úr skugga um að ég væri hæf til þess að vera prestur.. Í einu þessara viðtala var ég beðin um að lýsa bænalífi mínu og sambandi mínu við Guð. Ég verð að viðurkenna að það kom nokkuð á mig enda þótti mér þetta vera mitt einkamál og ekki alveg koma þessum presti við hvernig ég hagaði mínu bænalífi. Ég var byrjuð að hugsa hvernig ég gæti fegrað mitt ófullkomna bænalíf því satt best að segja var það yfirleitt frekar óformlegt auk þess sem ég gleymdi oft að biðja. Ég byrjaði að reyna að stynja einhverju upp en fljótlega ákvað ég að einlægnin væri best og ég sagði honum að ég ætti í mjög persónulegu og óformlegu sambandi við Guð. Að ég talaði við Guð reglulega svolítið eins og vinkonu eða vin en minna færi fyrir fallega orðuðum og formlegum bænum. Og þegar ég var komin á skrið trúði ég honum fyrir því að ég væri alveg viss um að bænin hefði bjargað lífi mínu þegar lífið var sem erfiðast og ég var að ganga í gegnum áföll.

Nú er nokkuð um liðið síðan þetta var en ég er enn í góðu sambandi við það sem ég kalla Guð þó það hafi breyst og þróast með árunum í takt við að guðsmyndin hefur breyst.

Í upphafi fermingarvetrar hef ég oft skorað á fermingarbörnin að prófa að biðja til Guðs á hverju kvöldi áður en þau fara að sofa. Að þakka fyrir allt það góða sem dagurinn og lífið hefur gefið þeim og biðja fyrir þeim og því sem þau hafa áhyggjur af og að biðja fyrir sjálfum sér. Auðvitað eru alltaf einhver fermingarbörn sem eru þegar vön þessu á meðan þetta er framandi fyrir öðrum en markmiðið með þessu er að gera bænina að lífsstíl.

Bænin er nefnilega lífsstíll. Hún er ein leið hinnar kristnu manneskju til að iðka trú sína, að tengjast almættinu, kærleikanum sem er stærri og meiri en manneskjan. Bænin er nokkurskonar íhugun og leið til þess að rækta okkar innri manneskju. Bænin breytir kannski ekki Guði en hún getur breytt okkur. Það hefur áhrif á okkur og líðan okkar ef við gefum okkur svolítinn tíma reglulega, jafnvel á hverjum degi til þess að eiga stund með okkur sjálfum þar sem við sitjum í kyrrð og ró og hugsum um það sem skiptir okkur máli.

Bænin getur minnkað kvíða og álagstilfinningu, þegar allt er á fleygiferð í kringum okkur.

Bænin getur hjálpað okkur að komast í tenginu við okkar innri hugsanir og líðan, að tengjast okkur sjálfum.

Bænin getur gert okkur auðmýkri fyrir umhverfi okkar, aukið kærleika og samkennd með náunganum og hjálpað okkur til þess að finna fyrir þakklæti fyrir því sem við þó höfum.

Þetta er allt saman ágætt en getum við ekki alveg eins stundað yoga eða aðra hugleiðsluaðferð til þess að draga úr kvíða og finna fyrir samkennd og auðmýkt?

II
Jú, ég held að við getum nýtt nánast hvaða hugleiðsluæfingar sem er til þess að öðlast þetta en kristnin á líka hugleiðsluhefð fyrir þau sem vilja færa bæna- og hugleiðsluiðkun upp á næsta stig.

En það sem ég tel að bænin hafi til viðbótar við allt þetta er persónuleg tenging við Guð. Þá á ég sannarlega ekki við tengsl við gráhærðan kall eða konu í himninum heldur við einhvern persónulegan æðri mátt sem elskar okkur hvert og eitt meira en við getum nokkurn tíma ímyndað okkur. Hinn æðsta kærleika sem þó er persónulegur.

Í guðspjalli dagsins hvetur Jesús okkur til sjálfsbjargarviðleitni. Að iðka bæn, knýja á og leita þar til við finnu, og þannig bæta líf og okkar og líðan. Og í lokin brýnir hann fyrir okkur gullnu regluna, að koma fram við náungann eins og við viljum að komið sé fram við okkur.

Ég held að þarna sé Jesús að segja að bænin sé ákveðinn lykill að gullnu reglunni. Að ef við iðkum bænina, biðjum fyrir öðru fólki, biðjum fyrir okkur sjálfum, deilum áhyggjum okkar, kvíða og gleðiefnum með því sem er æðsti og mesti kærleikurinn, þar sem ástin er hrein og tær, þá eru allar líkur á því að við munum eiga auðveldara með að setja okkur í spor annarra. Þegar við opnum okkur fyrir kærleika Guðs þá endurspeglum við hann og við getum orðið mildari og kærleiksríkari í garð annars fólks, eigum auðveldara með að fyrirgefa og losa okkur við neikvæðni og biturleika sem dregur okkur niður og er engum til gagns.

 

III
Kæra fermingarbarn, til hamingju með daginn þinn!

Nú ert þú búin að taka þá ákvörðun að játa það opinberlega að þú viljir hleypa Guði inn í þinn vinahóp og að þú viljir hafa Guð með í þínu lífi. Fermingin snýst nefnilega ekki um að þú ætlir að fylgja Guði heldur að þú viljir að Guð fylgi þér. Þannig virkar kærleikurinn.

Í dag langar mig að skora á þig að æfa þig í að biðja. Að gefa þér svolítinn tíma reglulega til þess að tengjast Guði, hver eða hvað sem Guð er fyrir þér og leyfa þér að finna fyrir kærleika Guðs. Bænin er vissulega ekki yfirnáttúrulegt fyrirbæri og Guð er ekki súperhetja sem getur gefið okkur allt sem hugurinn girnist en bænin er tæki eða aðferð til þess að tengjast. Að tengjast Guði, okkur sjálfum og náunganum. Og ég held að bænin sé sérlega máttug þegar hún beinist að öðru fólki og þess vegna hefur fólk komið saman á öllum tímum í kirkjum og á heimilum til þess að biðja fyrir fólki og aðstæðum. Hugsið ykkur hvað gerist þegar stór hópur fólks beinir bænum sínum, af fullum krafti og öllum sínum kærleika í sömu áttina! Það getur ekki annað en haft áhrif þegar svo mikill kærleikur beinist í eina átt, kærleikur Guðs og okkar. Það getur jafnvel breytt heiminum.

IV
Þegar ég ákvað að trúa prestinum fyrir bænaiðkun minni hér um árið þá sagði ég m.a. að bænin hefði bjargað mér þegar lífið varð erfitt. Ég hef nefnilega upplifað að þegar lífið hefur orðið mjög erfitt þá hafi ég verið borin áfram af einhverju meira en sjálfri mér og ég er sannfærð um að þar hafi bænin gert kraftaverk. Hugsum okkur stöðuna þegar við erum að ganga í gegnum erfiðleika, eins og við gerum öll einhvern tíma á lífsleiðinni, að við leggjum saman lófana, lokum augunum og biðjum heitt og innilega fyrir betri líðan, betri stöðu, bata eða hvað það nú er sem við þráum. Guð kemur kannski ekki inn með kraftaverk því Guð er ekki súperhetja heldur kærleikur og við erum ekki leikbrúður á leiksviði þar sem Guð ákveður atburðarásina. En bænin, kærleikurinn og einbeitingin sem henni fylgir fer öll í sama farveginn, að lífið verði betra, að þetta lagist og verði bærilegt. Og að lokum verður það þannig, bæði vegna þess að við beindum okkur sjálfum í þátt með bæninni og vegna þess að kærleikur Guðs safnaðist þarna saman og umvafði okkur og aðstæður okkar.

Nú vil ég skora á þig að láta reyna á bænina ef þú ert ekki vön/vanur því nú þegar. Láttu á það reyna. Gerðu hana að lífstíl. Hún virkar.

Amen.