Konfektkassi
Gjörið svo vel og fáið ykkur nammi!
Fékkstu uppáhaldsmolann þinn? Eða fékkstu kannski eitthvað sem þér finnst alls ekki gott? Nú veit ég ekki í hvernig tengslum þú ert við súkkulaði en mig langar að gefa þér þennan mola og rifja upp orð Forest Gump, úr kvikmynd með sama nafni, þegar hann sagði: “Móðir mín sagði alltaf, lífið er eins og konfektkassi. Þú veist aldrei hvað þú færð”.
Hvernig konfekt-manneskja ert þú? Klárar þú t.d. alltaf efri hæðina á konfektkassanum áður en þú byrjar á þeirri neðri, eða færðu þér bara það sem þig langar í og flakkar jafnvel um á milli hæða? Byrjarðu kannski á neðri hæðinni og felur efri hæðina og borðar hana seinna? Aflarðu þér upplýsinga um innihaldið í öllum molunum áður en þú velur þér einn? Klárarðu molann þótt hann sé vondur eða hendirðu honum? Já, það eru til ýmsar leiðir til að borða konfekt þó það sé langt frá því að vera hollt þá er það svolítið hátíðlegra nammi en annað og fylgir hátíðunum hjá mörgum okkar.
En er lífið virkilega eins og konfektkassi eins og mamma hans Forest Gump sagði? Lendum við bara á einhverjum molum og þurfum að haga okkur samkvæmt þeim? Veljum við þá ekki sjálf?
Árið sem er að líða
Á þessu síðasta kvöldi ársins er gott að líta til baka og fara yfir árið, fara yfir konfektmolana sem við fengum á árinu sem er að líða. Hvernig var þitt ár? Lentirðu alltaf á uppáhaldsmolunum þínum eða fékkstu aðeins þá verstu? Tókst þér að venjast þessum sem féllu í þinn hlut og gera þannig það besta úr því sem var þitt? Eða valdirðu þér bara það sem þig langaði í?
Hvernig var 2017 fyrir landið okkar og fyrir heiminn?
Það eru sjálfsagt skiptar skoðanir á því hvað bar hæst og fer eftir því hver eru spurð. Fréttamiðlar hafa verið að taka saman fréttir undanfarið og fara yfir það markverðasta. Þar taka neikvæðar fréttir og erfiðir hlutir mikið rými enda viljum gjarnan að allt fari vel og þurfum að læra af því sem hefur miður farið. Erfiðu fréttirnar fá meira pláss en hinar jákvæðu enda göngum við kannski út frá því að lífið sé jákvætt og flytjum því fréttir af frávikunum. Tvær ríkisstjórnir voru myndaðar á þessu ári sem hlýtur að teljast fréttnæmt. Enn geisa alvarleg stríð í heiminum sem fyrst og fremst bitna á börnum og saklausum borgurum. Fólk er enn á flótta í stríðum straumum vegna styrjalda og hættulegs ástands í heimalöndunum. Forseti Bandaríkjanna er ekki sú vonarstjarna friðar sem við hefðum svo gjarnan þegið og Norður Kórea er land sem ógnar og hefur verið mikið í fréttum undanfarið.
En það hafa líka gerst góðir hlutir. Nú hafa öll vígi Íslamska ríkisins verið felld og #metoo byltingin verður að teljast jákvæð þegar upp er staðið og jafnvel eitt af því sem stendur upp úr árið 2017.
#metoo
Það er alveg óhætt að kalla #metoo hreifinguna byltingu því hún hefur breiðst hratt úr og þegar orðið til þess að ofbeldismenn hafa verið látnir taka pokann sinn fyrir hluti sem lengi vel voru álitnir vera í fínu lagi. Stór hluti fólks hefur einfaldlega ákveðið að hætta allri meðvirkni með ofbeldi og misbeitingu valds gegn konum. Ofbeldismenningin er því vonandi á undanhaldi og því munu kannski komandi kynslóðir stúlkna ekki telja það “eðlilegt“ að karlmaður klípi þær í rass eða brjóst jafnvel þó þær séu staddar á ölduhúsum. Kannski munu framtíðarkynslóðir kvenna og karla ekki kenna sjálfum sér um það ofbeldi sem þær mögulega verða fyrir og fyllast skömm yfir því.
“Hingað og ekki lengra” sagði forseti Íslands þegar hann ávarpaði þingheim við setningu alþingis nú í desember og ræddi þar “metoo byltinguna. Hann sagði að nú væri komið nóg og ég geri fastlega ráð fyrir að við séum öll sammála um það. Þessi misbeiting valds og kynferðislega áreitni og ofbeldi sem þessi bylting ætlar að útrýma er lýti á samfélaginu okkar og við þurfum að losa okkur við það.
Þessi bylting hefur ekki verið auðveld og hún hefur valdið mörgum gríðarlegum sársauka. Breytingar er erfiðar. Það er meira en að segja það að breyta venjum og siðum og það er meiriháttar mál að breyta menningu. Til þess þarf ekkert minna en byltingu. Og það er algjört grundvallaratriði að þessi bylting verði okkar allra, jafnt karla sem kvenna.
Höggvum það
Dæmisagan sem Jesús sagði og við heyrðum áðan er harkaleg. Víngarðseigandinn kom á hverju ári að leita ávaxtar á fíkjutrénu í víngarði sínu og þegar tréð hafði ekki borið ávöxt í þrjá ár sagði hann við víngarðsmanninn að þetta þýddi ekki lengur og að best væri að höggva það niður. Það væri engum til gagns. En víngarðsmaðurinn baðst vægðar fyrir hönd trésins og bað um að því yrði þyrmt eitt ár til viðbótar. Hann lofaði að hlúa betur að því, grafa um það og bera á það áburð.
Á þessu síðasta kvöldi árisns langar mig að taka undi með víngarðseigandanum sem segir, hingað og ekki lengra og vill að tréð sé hoggið niður. Tréð sem ekki ber ávöxt getur nefnilega verið vondu siðirnir okkar, menning sem er meiðandi, samskipti sem eru engum til góðs og allt það sem eitrar líf okkar.
Oft er það þannig að við festumst í ákveðinni rútínu sem jafnvel getur orðið að menningu og þrátt fyrir að við vitum að hún sé vond fyrir okkur þá eigum við erfitt með að koma okkur út úr henni. Þetta getur átt við um hvað sem er, en þegar þetta kemur fram í sinni verstu mynd þá getur þetta jafnvel orðið að ákveðinni ofbeldishegðun. Og þegar svo er þá þurfum við að breyta einhverju. Við þurfum að gera eitthvað róttækt og stundum þarf byltingu til. En breytingar eru erfiðar og þær eru sársaukafullar. Breytingar krefjast kjarks.
#metoo er bylting sem gengur út á að breyta hegðun, samskiptamynstrum og menningu. Hún er gott dæmi um tré sem ekki bar ávöxt og við þurfum að losa okkur við til þess að geta byggt fallegra samfélag.
Um leið og við horfum til baka yfir árið sem er að liða er gott að hafa boðskap jólanna í huga. Boðskapurinn sem fæðing jesúsbarnsins ber okkur er einmitt ný tækifæri, ný framtíð. Hún er sannarlega í boði og það er aldrei of seint að bæta okkur.
Hingað og ekki lengra sagði forsetinn..
Hingað og ekki lengra sagði víngarðseigandinn.
Hingað og ekki lengra segir kirkjan.
Konfektkassi
Hvernig er það þá með konfektkassann? Veljum við molana sjálf eða tökum við því sem að okkur er rétt?
Ég held að þetta hljóti að vera þarna einhvers staðar mitt á milli. Mörg okkar geta valið sjálf hvernig við viljum haga lífi okkar og við getum flest (hér á landi) haft meiri áhrif á það en við oft höldum. Margt kemur þó bara upp í hendurnar á okkur og mörgu fáum við engu um ráðið. Lífsviskan er fólgin í því að greina þarna á milli.
Forest Gump lifði fjölbreyttu lífi og lenti í hlutum sem eru næsta ótrúlegir en jafnvel hann hafði áhrif á margt þó sumt væri ekki á hans valdi.
Það mikilvægasta er að greina þarna á milli og hafa áhrif á það sem er á okkar valdi og þannig verða eins góðar manneskjur og við mögulega getum um leið og við tökum hinum, sem við ekki fáum ráðið við, með æðruleysi.
Amen.