Hefðir og heilagleiki

Jól æskunnar
Þegar ég var að alast upp höfðu foreldrar mínir mikið fyrir því að búa fjölskyldunni allri gleðilega jólahátíð. Það var gert með þrifum og bakstri, sem var misjafnlega skemmtilegt, en það var líka gert með því að fara með okkur í leikhús og á tónleika, styðja komu jólasveinanna og með því að halda í alls kyns hefðir. Jólakortin átti að opna á aðfangadagskvöld eftir að pakkarnir höfðu verið opnaðir og þá var gott að gæða sér á jólakonfektinu sem pappi bjó til með okkur systkinunum á aðventunni.

Ég er þakklát fyrir þessar minningar því jólin í minni barnæsku snerust um fjölskylduna og upplifunin af því að jólin væru heilög var mjög sterk. Þegar ég varð fullorðin og eignaðist börn reyndi ég að skapa góðar hefðir og nýtti mér sumt úr barnæskunni um leið og við bjuggum til nýja siði.

Ég velti því oft fyrir mér þegar nær dregur jólum, hvað það er sem gerir jólin heilög. Hvað það er sem kallar fram þessa einstöku tilfinningu um að á þessari hátíð eigi allt að vera svolítið betra, fallegra og einstakara en annars?

Sænsk jól
Ég var búsett í Svíþjóð í nokkur ár og þar voru jólasiðirnir töluvert aðrir og fyrir mér voru margar venjur þar í landi langt frá því að vera til þess gerðar að skapa heilagleika. Þar hittist stórfjölskyldan gjarnan á aðfangadag eftir hádegi, horfir á Disney þætti í sjónvarpinu og heldur síðan mikla matarveislu þar sem boðið er upp á fjölbreyttan mat á hlaðborði. Maturinn samanstendur m.a. af jólaskinku, pylsum, síld ofl. Snapsar eru oftar en ekki hluti af borðhaldinu og síðan eru gjafirnar opnaðar ýmist fyrir eða eftir matinn. Oftar en ekki er það jólasveinninn sjálfur sem kemur með pakkana. Þar hringja jólin ekki inn á ákveðnum tímapunkti eins og hér á landi.

 

En þrátt fyrir að mér hafi stundum þótt skorta á heilagleikann í sænskum jólahefðum og mér hafi þótt Svíar taka heldur léttvægt á þessum með aftansönginn kl. sex þá er ég ekki viss um að Svíar séu almennt sammála mér. Fólk sem er alið upp við þessar hefðir frá barnæsku upplifir sjálfsagt jólahátíðna jafn heilaga og ég upplifi jólin í okkar hefð.

 Hefðir
Ætli það séu þá hefðirnar sem skapa heilagleikann á jólum?

Það gæti vissulega verið. En hvað gerist þá þegar eitthvað breytist, þegar breyting verður í fjölskyldum, skilnaður, dauðsföll, barnsfæðingar, búferlaflutningar milli landa svo eitthvað sé nefnt. Ætli heilagleikinn hverfi þegar hlutirnir eru ekki lengur í föstum skorðum. Þegar ekki er hægt að halda í fastmótaðar hefðir?

Ég er nokkuð viss um að mörg ykkar þekkja það hvernig aðfangadagskvöldið sjálft, já og jólin öll, breytast þegar eitthvað óvænt gerist. Bara það að eignast barn skömmu fyrir jól eða um jólin getur sett allt úr skorðum. Að missa ástvin í kringum jólin getur breytt öllu og hjónaskilnaður í kringum jól getur gert jólin ansi þung svo eitthvað sé nefnt. Þessir hlutir þurfa reyndar ekki að hafa átt sér stað nálægt jólum heldur er nóg að þeir hafi gerst á sama ári eða bara að þeir hafi gerst yfirleitt til þess að allt breytist.

Þetta eru allt hlutir og aðstæður sem eru hluti af lífinu en eru ekki hluti af hefðunum. Þetta eru allt hlutir sem setja hefðir, siði og venjur úr skorðum.

Ef hefðir eru það sem gerir jólin heilög þá verður væntanlega erfiðara að upplifa heilagleikann þegar allt fer úr skorðum hjá okkur og hið óvænta gerist. Eða hvað?

Heilagleiki án hefða
Ég held reyndar að þetta sé kannski ekki alveg svo einfalt.

Ég er viss um að hefðir geti skapað heilagleika, fullvissan um að ákveðnir hlutir breytist ekki þrátt fyrir að allt annað í kring um okkur taki breytingum. Þannig getur það verið gott að borða rjúpuna eða hamborgarahrygginn á aðfangadagskvöld þrátt fyrir að allt annað í umhverfinu hafi breysti. Það getur gefið okkur öryggi í óöruggum aðstæðum.

Á sama tíma segir jólaguðspjallið okkur einmitt að við getum upplifað heilagleika þrátt fyrir breytingar, óöryggi og erfiðar aðstæður. Jesús frá Nasaret fæddist við allt annað en öruggar aðstæður og við fæðingu hans voru engar hefðir hafðar í heiðri eftir því sem við best vitum. En fæðing litla Jesúbarnsins táknar fyrir, okkur kristnu fólki, að ávallt sé von um nýtt tækifæri, nýtt upphaf hvað sem hefur gengið á. Jólaguðspjallið er ekki saga sem okkur ber að taka á allan hátt bókstaflega heldur er hún sett fram til þess að leggja áherslu á að eitthvað stórkostlegt átti sér stað þegar Jesú frá Nasaret fæddist í Betlehem.

Nýtt upphafi þýðir það að við getum alltaf byrjað upp á nýtt, að við brennum aldrei allar brýr að baki okkar. Fæðing barnsins táknar nýjar vonir, þrár og drauma sem geta ræst. Kannski þurfum við því mest á Jesúbarninu að halda þar sem heilagleikinn er minnstur, þar sem mistökin hafa átt sér stað, þar sem vonir hafa brostið, draumar dáið.

Kannski er því nýtt upphafi einn sannasti boðskapur jólanna. Almættið sjálft sýnir okkur svo fullkomið traust með því að birtast okkur sem ósjálfbjarga barn sem þarf á umhyggju okkar að halda. Hvað er heilagra en það?

Þegar upp er staðið byggir heilagleiki jólanna ekki einungis á hefðum þó þær geti sannarlega ýtt undir tilfinninguna um hið heilaga og haldið henni við. Ég held að heilagleikinn byggi fyrst og fremst á því hvernig við hugsum um jólahátíðina og undirbúum hana. Hvað er t.a.m. heilagara en alúð og umhyggja sem lögð er í undirbúning jóla? Þessi alúð snýst ekki um að eiga nóg eða að borða það sama og í fyrra. Alúðin snýst um að gera allt sem við getum til þess að fólkið í kringum okkur, börnin okkar eða önnur þau sem okkur eru kær og jafnvel þau sem við þekkjum ekki neitt fái að upplifa heilög jól. Það getum við gert með því að gefa fólki nýtt tækifæri og trúa því að það standi okkur einnig til boða. Það getum við gert með því að bera virðingu fyrir jólahátíðinni og ólíkum hefðum og siðum.

Þannig hleypum við Guðdómnum inn sem litlu barni í líf okkar og hjörtu. Þannig verða heilög jól til.
Amen