Prédikun 29. okt 2017
Orð frambjóðenda
Á föstudagskvöldið horfði ég á síðustu leiðtogaumræðurnar í sjónvarpinu fyrir kosningar og þar heyrði ég orð. Ég heyrði mikið af orðum. Mörg voru harkaleg og ókurteis. Flest voru hávær því það virtist eina leiðin til að ná í gegn. Mörg fjölluðu um framtíðarsýn flokkana en mörg fjölluðu líka um mistök og vonda sýn hinna flokkana. Mörg voru loforð eða viljayfirlýsingar flokka um það sem þau vilja gera að loknum kosningum.
Orð hafa dunið á okkur undanfarin mánuð af miklum krafti. Tökum við mark á þeim?
Hvernig er með verkin? Verða þau í samræmi við loforðin?
Orðin þín
Hvernig notar þú orðin þín? Eru þau stirð og fá eða eru þau mörg úti um allt? Áttu til mikið af fallegum orðum eða notarðu oft ljót orð? Áttu auðvelt með að koma orðunum þínum frá þér eða sitja þau föst.
Við eigum vissulega misjafnlega auðvelt með að tjá okkur með orðum en orðum getur fylgt vald og orðum fylgir alltaf ábyrgð. Því liggur sú ábyrgð á okkur öllum að við notum orðin okkar vel, að við gætum þess sem við segjum og tölum af eins mikilli virðingu eins og við mögulega getum.
En orðin okkar verða aldrei trúverðug nema að verkin okkar séu í samræmi við þau. Þetta á við um okkur öll en verður þó sérstaklega áberandi þegar um er að ræða fólk í áhrifastöðum. Fólk sem hlustað er á og fylgst er með s.s. fólk sem kosið er á Alþingi Íslendinga, í borgar- og sveitastjórnir og svo öll hin sem með einhverju móti geta haft áhrif á fólk. Verkin þeirra verða að vera í samræmi við orðin svo við tökum mark á þeim.
Og þar sem við gengum til kosninga í gær og höfum heyrt orðaflaum fólks í framboði undanfarin mánuð þá vil ég sérstaklega heimfæra þetta upp á þau sem nú hafa verið kosin á Alþingi. Hvernig verða verkin þeirra? Verða þau í samræmi við orðin, loforðin?
Orð í nafni hvers?
Dæmisagan sem Jesús sagði og ég las áðan er eins og sniðin fyrir kosningar. Tveir bræður eru beðnir um að gera sama hlutinn. Annar segi nei en sér að sér og gerir samt það sem hann var beðinn um. Hinn segir já en gerir ekki það sem hann var beðinn um.
Í frammhaldinu liggur beint við að spyrja; hvort er betra að lofa einhverju og gera það ekki að lofa engu en gera það samt? Orð eða verk, hvort er mikilvægara?
Þegar þessi saga er skoðuð er gott að þekkja aðdragandann og umhverfið. Þarna er Jesús nýbúinn að hreinsa sölubúðir út úr musterinu og skamma fólk fyrir að nýta hús Guðs til verslunar. Hann hefur yfirtekið musterið og heldur því fram að það sé aðeins hugsað til þess að tilbiðja Guð en ekki til gróðastarfsemi. Þá koma til hans fulltrúar valdhafa, æðstuprestarnir og farisearnir, og spyrja hann í umboði hvers hann sé að tala. Þeir vilja vita hvaðan vald hans kemur og hvernig standi á því að hann dirfist að gera þessa hluti og tjá sig með þessum hætti. Og segja má að hann stingi upp í þá með þessari sögu því þarna líkir hann þeim við soninn sem lofar öllu fögru en stendur ekki við neitt.
Það sem Jesús gerir hér er að hann stendur upp í hárinu á valdhöfunum, þeim sem öllu ráða, og segir hug sinn með nokkuð hógværum hætti þó. Þetta virðist ekki hafa verið eins árásagjörn og stjórnlaus umræða og sú sem fram fór í sjónvarpinu kvöldið fyrir kosnirnar, þrátt fyrir að mikið hafi verið í húfi þarna. Hann segir þeim þessa sögu og þeir átta sig strax á því hvað hann á við. Þeir hafa mikil völd og þeirra hlutverk er að boða Guð og fylgjast með því að fólk fari eftir reglum ritningarinnar en þeir vilja ekki trúa boðskapi Jesú og ekki hlustuðu þeir á Jóhannes skírara sem kom á undan Jesú til þess að boða komu hans sem frelsara. Þessir valdhafar eru bróðirin með fögru (lof)orðin en engin verk, þessi sem sagði já en gerði svo ekkert.
Þeir er svolítið eins og stjórnmálafólk sem komist hefur til valda og getur ekki lengur staðið við allt sem þau lofuðu fyrir kosningar. Því þegar búið er að kjósa tekur alvaran við og þá þarf fólk að fara að vinna saman yfir flokkslínur og eðlilega getur enginn flokkur fengið allt sitt. Því er kannski betra að hafa orðin aðeins færri í aðdragandanum en verkin fleiri.
Orð Lúthers
Þessa helgina höldum við upp á siðbótardaginn í Lútherskum kirkjum um allan heim, en siðbótardagurinn sjálfur er 31. október. Við fögnum því að orð og verk Lúthers hafi orðið til þess að hin Evangeliska Lútherska kirkja var stofnuð. Lúther átti nóg af orðum og þau voru ekki aðeins notuð til þess að mæra náungann. Hann tók Jesú sér til fyrirmyndar og gagnrýndi spillingu yfirvalda, sem einnig voru kirkjuleg í hans tilviki eins og hjá Jesú. Eftir langan aðdraganda fékk hann endanlega nóg og skrifaði 95 mótmælagreinar sem hann negldi á kirkjudyrnar í Hallarkirkjunni í Wittenberg.
Hann negldi orðin á dyrnar. Orðin skiptu máli og urðu til þess að kirkjan klofnaði og ný kirkja var stofnuð út frá þessum orðum. Það er kirkjan okkar.
Lúther lagði einmitt áherslu á orðið, að orð Guðs skipti öllu máli og vildi að það væri prédikað hreint og ómengað í Lútherskum kirkjum. Hann þýddi Bibliuna úr latínu og yfir á þýsku og hvatti fólk til að þýða Bibliuna þannig að öll þau sem væru læs gætu lesið sjálf og þyrftu ekki eingöngu að treysta á prestana og latínukunnáttu þeirra.
Orðin og tungumálið skiptu Lúther miklu máli því hann taldi það leggja grunninn að þekkingu og frelsi fólks til þess að túlka Guðs orð. Hann vissi að fólk gæti ekki tekið upplýstar ákvarðanir og haft raunveruleg áhrif á sitt eigið líf nema það skildi orðin í Biblíunni sjálft.
Orð og verk
Orðin okkar eru allskonar og þau eiga að vera þannig. Þau eiga að trufla og þau eiga að sefa. Þau eiga að vekja tilfinningar og þau eiga að róa. Þau eiga að hræða og þau eiga að gleðja. En við eigum að gæta þeirra.
Orðunum okkar fylgir ábyrgð og þau geta haft áhrif. Við lifum á tímum þar sem svo auðvelt er að koma orðunum okkar á framfæri. Við getum, hvert og eitt komið því sem við viljum út í alheiminn en við verðum líka að gæta okkar á því að það er erfitt að taka aftur það sem við höfum sent frá okkur á veraldarvefinn. Þar geta orðin okkar eignast eigið líf. Þegar orðin okkar eru orðin opinber getur hver sem er túlkað þau með sínum hætti og út frá sínum forsendum. Því öfgafyllri sem orðin okkar eru því meiri athygli fá þau því þar sem framboðið af orðum á netinu er mikið þá ná þau háværustu oft mestu athyglinni. En það er alls ekki víst að þau orð séu þau sönnustu. Því verðum við að gæta orðanna okkar vel.
Á okkur öllum hvílir líka sú ábyrgð að nota orðin okkar til góðs og þá geta komið þau tilvik þar sem við verðum að vera beitt og segja hluti sem geta sært og meitt. Við getum nefnilega ekki komist í gegnum lífið með því að þóknast öllum. Það er t.a.m. skilyrðislaus skylda hverrar kristinnar manneskju að standa með sínum minnstu systkinum og verja þau með öllum hætti. Ef við verðum vör við að fólk er beitt óréttlæti þá er í raun skylda okkar allra að mótmæla því.
Jesús mótmæli óréttlæti og hann mótmælti valdhöfunum en hann gerði það með rökum og með samtali.
Lúther mótmæli óréttlæti og hann mótmælti valdhöfum. Hann gerði það með rökum en þó með nokkuð áberandi og afgerandi hætti.
Hvernig mótmælum við óréttlæti? Höfum við kjark til þess að mótmæla valdhöfum þegar okkur ofbýður spiling og þykir þau ósanngjörn í garð okkar minnstu systkina?
Það sem Jesús og Lúther áttu sameiginlegt var að orðin þeirra voru í samræmi við verkin. Þeir sögðu hvorugir eitt en gerðu annað (í það minnsta ekki í stóru málunum). Þeir voru því eins og þriðji bróðirinn, eða systir bræðranna úr dæmisögunni, þessi sem sagði já og gerði það sem hún var beðin um.
Orð Guðs
Ég er ekki viss um að orðin sem alltaf bíða okkur, og Þórdís söng um hér fyrir okkur áðan, séu samin um orð Guðs en mig langar að heimfæra þau upp á Guð. Þessi orð, þessi ástarjátning sem bíður okkar alltaf, hvar sem við erum og hvenær sem við erum tilbúin að taka við henni, og jafnvel þó við verðum aldrei tilbúin til þess, þá bíða þau þarna eftir okkur. Ástarjátning Guðs, sem er kærleikurinn, bíður okkar þarna úti hvenær sem við erum tilbúin til þess að láta hann umvefja okkur. Kannski er þessi ástarjátning Guðs sá kraftur sem við þörfnumst til þess að geta nýtt orðin okkar vel og verið samkvæm okkur sjálfum í orðum og gjörðum. Að við verðum sem systir bræðanna tveggja.
Amen.