Þá
Sjáum þetta fyrir okkur:
Maður fer inn í erfiðar aðstæður þar sem veikt fólk liggur um allt og vonleysi ríkir. Þarna er fólk sem hefur verið veikt í fjölda ára og ekki fengið neina hjálp. Sum eru búin að vera veik svo lengi að þau gera sér ekki nokkrar vonir um að ná heilsu á ný. Maðurinn sem kemur inn í aðstæðurnar byrjar ekki á að koma öllum til hjálpar og redda málunum. Nei, hann gengur til veikasta mannsins, sem liggur þarna og hefur verið veikur í 38 ár, og spyr hann hvort hann vilji verða heill. Okkur kann að virðast þetta vera óþörf spurning. Hver vill ekki hjálp eftir 38 ára veikindi?
Maðurinn svarar kannski svolítið út í hött en hann fær lækningu. Hann fær kraftinn til að standa upp og koma sér út úr aðstæðunum sem höfðu lamað þrek hans í næstum 40 ár. Kannski var það spurningin: “Viltu verða heill” sem gaf honum kraftinn. Kannski kom loksins einhver fram við hann eins og hann hefði val. Mögulega fólst í þessari spurningu val um það hvers konar hjálp hann þurfti. Kannski var þetta í fyrsta sinn sem einhver spurði hann hvað hann sjálfur vildi.
Sá sem spurði hvort hann vildi verða heill og hjálpaði honum að koma sér út úr þessum veiku aðstæðum vat Jesús frá Nasaret. Hann hefði svo vel getað komið þarna inn með hroka og veitt þá hjálp sem honum sjálfum fannst þurfa án þess að spyrja hvað hann vildi og hvers hann þarfnaðist. Ja, eða bara gert ekki neitt.
Þegar fólkið í kring sér að hann er orðinn frískur og er búinn að taka líf sitt og aðstæður í eigin hendur, getur það ekki á sér setið og fer að saka hann um að vera að bera dýnuna sína á hvíldardegi. Eitt leiðir að öðru og að lokum er það Jesús sem er ásakaður fyrir að vinna á hvíldardegi því hann hjálpaði manninum að ná bata. Hann er ásakaður fyrir að brjóta lög.
Og það er alveg rétt. Jesús braut lögin um hvíldardaginn.
Þessi saga er gott dæmi um neyð sem verður að pólitík.
Pólitíkusarnir eða farisearnir, sem voru heittrúarmenn þess tíma, hefðu getað glaðst yfir því að manneskja fengi lækningu og tæki líf sitt og framtíð föstum tökum. En í stað þess ákváðu þeir að fara í pólítískan leik og nýta sér ítrustu lög til þess að klekkja á þeim sem fór út fyrir rammann og vann góðverkið, Jesú frá Nasaret. Þeir vildu að allar stéttir færu að móselögum og fylgjdu boðorðunum 10. en eitt boðorðana segir að halda skuli hvíldardaginn heilagann.
Pólitíkusarnir nýta sér þessi lög til þess að klekkja á Jesú því hann er farinn að ógna þeim. Það sem þeir átta sig ekki á, eða vilja bara ekki hafa í huga er að öll lög og allar reglur eru til fyrir fólkið og seru ettar til þess að gera samfélagið réttlátt og gott. Lögin um hvíldardaginn voru góð því öll þurfum við að taka okkur frí reglulega og hvíla okkur en það segir sig sjálft að við megum ekki neita manneskju í neyð um hjálp vegna þess að við erum í lögbundinni hvíld.
Hroki og skeytingaleysi má ekki verða náungakærleikanum yfirsterkara. Þetta snerist nefnilega ekkert um þessa karla heldur um að manneskja fékk lækningu og varð frísk. Eitthvað batnaði svolítð í heiminum, sem varð mennskari í smá stund.
Nú
Þessi saga um neyð manneskju sem verður að pólitík, er bæði gömul og ný. Við höfum til að mynda séð nokkur dæmi um hana hér á landi að undanföru. Um síðustu helgi voru haldin mótmæli á Austurvelli vegna tveggja stúlkna og fjölskyldna þeirra sem átti að vísa úr landi þrátt fyrir að aðstæður þeirra væru ömurlegar og að hér væri bæði nóg pláss og hjartarými. Þessum stúlkum, Mary frá Nigeríu sem er átta ára og foreldrum hennar og Hanye Maleki sem er ríkisfangslaus og föður hennar, átti að vísa úr landi með vísan í dyflinnarreglugerðina sem segir að senda megi flóttafólk aftur til baka til þess lands er það flúði til fyrst.
Hér er um börn að ræða. Litlar stelpur sem þekkja ekki öryggi og hafa verið á flótta allt sitt líf, svolítið eins og maðurinn í súlnagöngunum sem hafði aldrei fengið neina hjálp. En vegna þessarar ýktu notkunnar dyflinnarreglugerðarinnar þá gripu Íslendingar inn í, bæði alþingisfólk og almenningur, fólk sem veit að stundum þarf að breyta lögum og reglum sem eru ómannúðlegar og koma náunganum til hjálpar. Það er ekki útséð um það hvernig fer fyrir Mary og Hanye, sérstaklega nú þegar ríkisstjórnin er fallin en fyrir alþingi liggur nýtt frumvarp frá 23 þingmönnum þess efnis að stúlkurnar og fjölskyldur þeirra fái íslenskan ríkisborgararétt. Við verðum öll að leggjast á eitt og sjá til þess að þessar stúlkur og annað fólk í sambærilegri stöðu fái hæli í okkar friðsæla og stóra landi.
Við höfum fylgst með öðru dæmi um neyð sem verður að pólitík undanfarna mánuði þegar í ljós kom að tveir dæmdir barnaníðingar hefðu fengið uppreist æru án mikillar fyrirhafnar, að því er virðist. Þar fór allt fram samkvæmt lögum. Dómsmálaráðherra skrifaði undir og forsetinn skrifaði undir. Nokkrir karlar veittu þeim meðmæli án mikillar umhugsunar, að því er virðist. Dómsmálaráðherra neitaði að gefa upplýsingar um málið því hún taldi lögin banna það og ljóst var að nokkuð af alþingisfólki var henni sammála. Allt þetta fólk taldi sig vera að fara að lögum. Á sama tíma voru þarna þolendur þessarra manna og fjölskyldur þeirra sem skildu ekki hvaðan á sig stóð veðrið og mótmæltu. Almenningur mótmæli. Hluti þingfólks mótmælti. Forsetinn bað þolendur fyrirgefningar og hitti í það minnsta einn þolandann og fór yfir málið með henni. Málið hvarf ekki því það var mikilvægt í hugum margra. Málið hvarf ekki því óréttlætið var hrópandi. Málið varð að lokum svo stórt að ríkisstjórnin féll.
Hroki þeirra sem neituðu að sjá mennskuna í málinu og báru fyrir sig lög og reglur varð ríkisstjórninni að falli. Reyndar kom í ljós síðar að þau bæði máttu og áttu að opna þetta mál samkvæmt lögum.
Dramb er falli næst
Þegar hrokinn verður svo mikill að mannlegar aðstæður skipta ráðafólk engu þá kemur yfirleitt að því að það verður þeim að falli. Í það minnsta er það reynslan í nútímanum.
Lög eru mikilvæg og til þess að fara eftir en þau eru sett af fólki og verða ekki til í tómarúmi. Ef lög styðja mannvonsku og bitna t.d. á börnum þá þarf að breyta þeim.
Jesús skeytti engu um lögin því hann sá þarna manneskju í neyð og það er okkar fyrirmynd. Ég vil líka koma því á framfæri hvað ég er stolt af íbúum þessa lands sem þora að standa upp gegn óréttlæti og gera það ítrekað. Vonandi verður það að lokum til þess að óréttlátum lögum verður breytt og að fólk sem kosið er til þess að stjórna átti sig á því að dramb leiðir að lokum til falls. Mannúð hlýtur alltaf að vera ítrustu lagatúlkunum fremri því lögin eru til fyrir okkur en ekki við fyrir þau.
Þetta vissi Jesús og þetta vitum við flest. Það er bara svo auðvelt að blindast af eigin hagsmunum og það er að mörgu leyti mannlegt og skiljanlegt. En það er ekki rétt.
Jesús sýnir okkur með þessari sögu hvernig manneskjur við eigum að vera.
Jesús sýnir okkur með þessari sögu hvernig ást Guðs á okkur er öllu öðru yfirsterkari, að ækningin er okkar ef við viljum þiggja hana. En aðeins ef við viljum þiggja hana.
Amen.