Talenturnar á Kópavogshæli

Hælið
Árið sem ég varð tvítug bauðst mér sumarvinna á Kópavogshæli sem síðar varð að hlutavinnu með skóla. Ég er alin upp í Kópavogi og fjöldinn allur af Kópavogsbúum af minni kynslóð fékk vinnu á Kópavogshæli. Mér líkaði strax vel í vinnunni og þarna kynntist ég góðu fólki sem gaman var að vinna með. En þegar á fyrsta degi varð mér þó ljóst að ég var komin í ákaflega erfitt starf. Ég var á einni af erfiðustu deildunum þar sem heimilisfólk átti margt hvert við mikla hegðunarörðuleika að stríða. Ég varð strax vöruð við því að þessi einstaklingur gæti lamið mig og að annar gæti rifið í hárið á mér og að enn annar gæti bitið mig. Mér leist nú ekki meira en svo á þetta en þar sem ég læt nú ekki hræða mig auðveldlega og gefst helst ekki upp á þeim verkefnum sem ég tek að mér, þá hélt ég áfram.

Ég vandist þessu starfi þó nokkuð fljótt. Ég þurfi stundum að fara upp á slysó vegna áverka sem ég fékk eftir að heimilisfólk hafði ráðist á mig en að öðru leyti gekk vel. Mér líkaði vel við heimilisfólkið og fór smám saman að þykja undurvænt um mörg þeirra.

Ég starfaði í tæp þrjú á Kópavogshæli og var allan tímann á sömu deildinni þar sem eingöngu fullorðið fólk var vistað. Ég tók gjarnan aukavaktir því þær voru ágætlega borgaðar og svo vantaði alltaf fólk. Þessi ár, sem ég var þarna, hafði augljóslega margt batnað frá því sem áður var. Ég heyrði sögur af göllum sem voru reimaðir að aftan og saumað fyrir hendurnar. Ég heyrði sögur af spennitreyjum, fólki sem var læst inni í herbergi og bundið niður í rúmin. En ég sá líka að oft var ekki komið fram við heimilisfólkið af mikilli nærgætni eða reisn. Það var mikil mannekla þarna og nánast hver sem er gat fengið vinnu. Starfsfólk þurfti ekki að gefa leyfi fyrir því að farið væri yfir sakaskrá eða önnur öryggisatriði sem kröfur eru gerðar um í dag hjá flestum þeim er vinna með fólk og þá sérstaklega börn.

Tíðarandinn var annar og menningin. Það var hvorki fylgst með starfsfólki né heimilisfólki eftir því sem ég gat best séð. Þarna var ungu fólki, eins og mér, treyst fyrir velfarnaði þeirra sem þarna bjuggu. Heimilisfólkið hafði ekkert val og þau höfðu ekkert um líf sitt og örlög að segja. Einstaka heimilisfólk fékk heimsókn en það var sjálfsagt ekki auðvelt fyrir fjölskylduna að koma á þennan stað þar sem aðstæður voru með ýmsu móti, erfitt að fá að vera í friði og oft mikill hávaði á deildinni.

Þrátt fyrir að ég hafi aðeins verið þarna síðustu árin áður en Kópavogshæli var lokað þá náði ég að kynnast harðri og sérstakri menningu sem ég tel að ekki sé ríkjandi í sama mæli í dag. Innan þessarar menningar þótti ekki fínt að sýna heimilsfólki allt of mikla hlýju eða áhuga. Um þetta leyti voru þroskaþjálfar að byrja að koma þarna til starfa og ég upplifði andrúmslofið oft þannig að fólk áliti að þeir hefðu nú ekkert meira vit á þessum málum en annað starfsfólk. Þroskaþjálfarnir, sem ég kynntist, vildu líka koma með töluvert mýkri og mannlegri nálgun á starfið og það féll ekki alltaf í frjóan jarðveg.

Ég starfaði þarna í næstum þrjú ár og var ekkert betri en hver annar eða önnur sem þarna starfaði þá. Mín sök í þessu er helst sú að ég sagði ekki alltaf frá þegar ég sá óviðeigandi hluti eiga sér stað þó ég hefði í vissulega gert það þegar mér ofbauð.

Á árunum mínum á Kópavogshæli kynnist ég næstum því bara góðu starfsfólki sem gerði sitt besta og þar eignaðist ég góða vini. En við vorum öll hluti af ömurlegri menningu. Sú menning gekk út á að fólk með fötlun átti að vera á hæli og ekki vera of mikið innan um annað fólk. Þeim var komið fyrir í geymslu þar sem þau voru ekki fyrir.

Sagan
Ég las áðan upp sögu sem Jesús sagði um húsbónda, þrjá þjóna og talentur.

Ef við rifjum upp söguna þá var þarna maður sem ætlaði út á land og fól þjónum sínum eigur sínar. Einn fékk fimm talentur, annar tvær og sá þriðji eina. Þetta voru umtalsverðar upphæðir sem þeir fengu þarna til umráða, jafnvel sá sem aðeins fékk eina. Þegar eigandinn kom aftur bað hann þjóna sína að gera skil. Sá sem fékk fimm talentur hafði ávaxtað þær og fengiðð aðrar fimm. Sá sem fékk tvær hafði grætt tvær til viðbótar en sá þriðji skilaði sinni einu talentu sem hann hafði grafið í jörð og geymt. Ástæðan sem hann gefur fyrir því að hafa grafið talentuna er sú að hann er hræddur og hann er einnig augljóslega reiður vð húsbóndann sem hann segir vera harðan mann og græða á öðrum án þess að hafa fyrir því sjálfur. Húsbóndinn reiddist mjög og lét taka af honum talentuna og kasta honum út í ystu myrkur.

Að grafa fólk í jörðu
Í dag langar mig til að við hugsum um fólkið sem bjó á Kópavogshæli og öðrum slíkum hælum í gegnum tíðina, sem talentur. Við vitum að Kópavogshæli var ekki eini staðurinn þar sem ekki var komið fram við heimilisfólk af reisn og þar sem ofbeldi og ill meðferð á börnum var látin viðgangast. Á Kópavogshæli og öðrum slíkum hælum voru það jafnt börn sem fullorðið fólk sem farið var illa með. Einhver bjuggu jafnvel við þessar ömurlegu aðstæður nánast alla sína ævi.

Ég hætti að starfa þarna þegar ég var 22 ára. Þá átti ég von á mínu fyrsta barni og var orðin of hrædd til þess að geta unnið við þessar aðstæður. Nokkrum árum síðar var hælinu lokað og fólkinu sem bjó á minni deild var búið nýtt heimili á sambýlum. Og þaðan bárust fréttir um að þeim liði vel og að mörg þeirra væru allt önnur. Þau tóku þátt í vinnu og virkni og áttu ekki við sömu hegðunarvandamál að stríða og áður. Það var því alveg ljóst að þarna voru þau komin á betri stað þar sem var starfsfólk sem kunni til verka og hafði allt aðra sýn á málefni fólks með fötlun.

Börnin á Kópavogshæli voru talenturnar sem samfélagið gróf í jörðu. Fullorðna fólkið á Kópavogshæli og öllum sambærilegum stofnunum voru talenturnar sem samfélagið gróf í jörðu. Þar var það óttinn, sinnuleysið og vanþekkingin sem varð til þess að þau voru falin og lokuð af.

Við vitum nú að fólk með fötlun gefur alls ekki minna til samfélagsins en ófatlað fólk og oft á tíðum meira ef einhver munur er á. Það hefur ekkert með fötlun eða fötlunarleysi að gera hvort við verðum “góðir” samfélagsþegnar og hversu mikið við gefum til samfélagsins og okkar nánasta umhverfis.

Í dag er menningin önnur en hún var á tímum Kópavogshælisins og við vitum að allt fólk getur tekið þátt í samfélaginu og gert það ríkara, fallegra og ástúðlegra, hvort sem það er með fötlun eða ekki. Og sem betur fer sjáum við fólk með fötlun í hinum og þessum störfum alveg eins og ófatlað fólk.

Auðvitað er fötlun alltaf byggð á mælikvörðum sem við setjum okkur og hvers er að segja hvað sé fötlun og hvað ekki? En hér er ég að tala um fólk sem býr við þess konar fötlun sem hefði mögulega verið grafið í jörðu og vistað á Kópavogshæli fyrir nokkrum árum.

Viðbrögð samfélagsins í dag við skýrslu vistheimilanefndar um Kópavogshæli sýnir að menningin og almenningsálitið er annað en það var þegar Kópavogshælið var starfandi. Ég er nokkuð viss um að við megum gera miklu betur en viðhorfið hefur þó batnað mjög frá því sem áður var.

Mér þótti sorglegt að lesa yfir þessa skýrslu en hún kom mér ekki á óvart. Þrátt fyrir að margt hefði lagast áður en ég kom þangað til starfa þá heyrði ég sögurnar, ég upplifði menninguna og ég var hluti af henni.

Það er gott að forsætisráðherran hefur beðist afsökunar fyrir hönd stjórnvalda. Það sýnir að við sem samfélag viljum taka ábyrgð og sýna að við skömmumst okkar.

Ég vil taka ábyrgð með því að biðjast fyrirgefningar á því að hafa verið þátttakandi í menningu sem var vond.

Það fór ekki vel fyrir þeim sem gróf talenturnar í jörðu af ótta við að gera mistök og af reiði yfir því að hlutirnir voru ekki eftir hans höfði.

Það fer heldur ekki vel fyrir samfélagi sem grefur sínar talentur sem oft er fólkið sem getur gefið okkur mest og gerir lífið svo miklu ríkara og fallegra með tilveru sinni og framlagi.

Dýrð sé Guði sem vill að allar manneskjur fái að blómstra