Róttækur boðskapur
Hvort er áhrifameira að segja:
“Þú ert læknaður stattu upp og gakk” eða “vertu hughraustur. Þér er fyrirgefið”?
Ég held að fyrir okkur sé miklu minna mál að segja “þér er fyrirgefið”. Við vitum að það er gott að fyrirgefa, að það er bæði sjálfsagt og fallegt að reyna. Fyrir okkur er mun undarlegra og ótrúlegra að einhver segi: “Þú ert læknaður stattu upp og gakk”. Þar er svo augljóslega verið að tala um eitthvað yfirnáttúrulegt og skrítið. Kraftaverk. En að segja bara þér er fyrirgefið….Hvað er svona merkilegt við það?
Í því samhengi sem sagan gerist í var þó miklu eldfimara að segja að manninum væri fyrirgefið en að framkvæma einhver undur og stórmerki. Það gerðust hvort eð er oft svo undarlegir hlutir sem erfitt var að útskýra og fólk var opið fyrir því. Prédikarar voru á rölti um allt að lækna fólk og boða sína trú og Jesús var bara einn þeirra. En þegar hann segir að manninum sé fyrirgefið, og læknar hann þar með, þá fór hann yfir strikið! Með því var Jesús að fara inn á hættulegt svæði og gera sig guðlegan því aðeins Guð gat fyrirgefið og það var ekkert gert svona í einum grænum.
Þannig var nefnilega algeng trú hjá Gyðingum á þessum tíma (og er að einhverju leyti enn í dag) að orsök veikinda væri refsing Guðs fyrir brot og syndir.
Undir það getum við ekki tekið…eða hvað?
Var Jesús kannski að segja okkur eitthvað miklu merkilegra en að Guð fyrirgefi syndir með þessum gjörningi sínum? Var Jesús, sem er birtingarmynd Guðs hér á jörðu, kannski að segja okkur eitthvað enn mikilvægara sem skiptir sköpum fyrir okkur í dag?
Ég tel að fæst okkar, ef nokkur trúi því að veikindi séu vegna refsingar Guðs og því sé lækningin ekki fólgin í fyrirgefningu Guðs. En aftur á móti get ég vel séð fyrir mér hvernig sektarkenndin og samviskubit okkar getur búið svo um sig í brjóstum okkar að við hreinlega veikjumst, lömumst. Kannski getur fyrirgefningin því einmitt læknað okkur að einhverju leyti.
Kannski var þetta með að veikindi væru refsing fyrir brot og syndir því ekki alveg út í hött því ef sektarkennd getur hreinlega gert okkur veik má þá kannski segja að við séum að sjálf að refsa okkur? Ekki Guð heldur við sjálf, meðvitað eða ómeðvitað?
Það er í það minnsta alveg ljóst að andleg líðan okkar getur haft áhrif á heilsuna. Rannsóknir hafa sýnt fram á að ýmsar aðstæður í lífi okkar geti gert okkur veik. Þannig hefur t.d. komið fram í rannsóknum að konur sem búa við langvarandi heimilisofbeldi séu líklegri til þess að fá brjóstakrabbamein en þær sem ekki búa við ofbeldi. Þá hefur einnig verið sýnt fram á að karlmenn með kvíðaröskun séu tvisvar sinnum líklegri til að deyja úr krabbameini en þeir sem ekki eru haldnir þeirri röskun. Það er því alltaf að koma betur og betur í ljós hversu tengsl andlegrar og líkamlegrar líðanar eru náin.
Það er því kannski ekki fjarri lagi að sektarkennd og samviskubit geti hreinlega gert okkur veik því sektarkenndinni fylgir erfið andleg líðan.
Það virðist kannski ekki svo merkilegt að Jesús segi einhverjum manni að honum sé fyrirgefið og honum fari að líða betur. Þó held ég að í þeim orðum sé einmitt fólginn mjög róttækur og mikilvægur boðskapur til okkar í dag.
Ég tel nefnilega að eitt af því sem hrjáir okkur mannfólkið mjög í dag sé sektarkennd. Sektarkenndin er mikilvæg og eiginlega nauðsynleg því hún er nátengd siðferðiskenndinni og fær okkur til þess að vilja leiðrétta mistök okkar og gera betur. Öll gerum við mistök. Öll gerum við einhvern tíma eitthvað ljótt. Við særum og meiðum annað fólk hvort sem við viljum það eða ekki.
En sektarkenndin getur líka verið ofvaxin og brengluð og fer þá úr öllum tengslum við raunveruleikann. Reynsla okkar getur verið þannig að við förum að fá sjálfvirka sektarkennd yfir öllu mögulegu sem ekki er okkur að kenna og hefur jafnvel ekkert með okkur að gera.
Ég tel því að sektarkenndin geti annars vegar veikt okkur þegar hún er ekki í tengslum við raunveruleikann og við tökum á okkur sekt sem er ekki okkar. Hins vegar er ég nokkuð viss um að sektarkennd sem er í fullum tengslum við raunveruleikann geti líka veikt okkur ef við rífum okkur stöðugt niður fyrir mistök okkar og fáum ekki fyrirgefningu.
Léttir
Hugsaðu þér ef þú gætir losað þig við allt sem liggur á samvisku þinni í einni svipan. Ef þú gætir losað þig við það sem íþyngir þér í alvörunni. Til dæmis allt sem þú hefur gert á hlut annarra, mistökin þín, skiptin þegar þú reiddist og sagðir eitthvað sem þú hefðir betur látið ósagt. Til dæmis loforðin sem þú hefur brotið og traustið sem þú ekki stóðst undir. Já, og svo hin leyndarmálin eða leyndarmálið sem þú segir engum og munt aldrei segja neinum, því það er of sárt.
Hugsaðu þér að þú gætir losað þig við þetta allt og byrjað upp á nýtt með hreint borð! Að fyrirgefning sem væri svo mögnuð og sönn gæti tekið þetta frá þér.
En hver á að veita þessa fyrirgefningu? Er það Guð? Er það fólkið sem við höfum sært? Eða eru það kannski við sjálf?
Auðvitað er sjálfsagt að leitast eftir fyrirgefningu þegar við höfum gert eitthvað á hlut annarrar manneskju. Og það hljótum við að gera. En það versta sem við gerum, þegar við upplifum sektarkennd, er að rífa okkur stöðugt niður fyrir gjörðir okkar því þannig getum við búið til varanlega vanlíðan sem síðan getur breyst í skömm. Því er bæði mikilvægt að leitast eftir fyrirgefningu annarra og leiðrétta mistök okkar. En lykilinn að sannri og raunverulegri fyrirgefningu, þessari varanlegu sem getur létt okkur og gert okkur frjáls, þessari sem fær okkur til að rísa upp úr lömun okkar, er fyrirgefning okkar sjálfra. Að fyrirgefa okkur sjálfum.
Það eru nefnilega við sjálf sem erum duglegust við að rífa okkur niður og refsa okkur fyrir bæði fyrir sannarleg mistök okkar og hluti sem við höfum gert en einnig fyrir hluti sem eru ekki á okkar valdi og því er mikilvægt að geta greint þarna á milli.
Það er svona merkilegt við það?
Það sem var svona merkilegt við þessi orð Jesú: „Vertu hughraustur. Þér er fyrirgefið“ var það sem Jesús raunverulega sagði:
„Hættu að rífa þig niður fyrir það sem ekki tókst nógu vel og hættu að rífa þig niður fyrir það sem var ekki þitt. Vertu óhrædd(ur) við að leitast eftir fyrirgefningu og leiðrétta mistök þín og taka þannig ábyrgð á gjörðum þínum. En vertu líka óhrædd við að fyrirgefa sjálfri/sjáfum þér. Lifðu í fyrirgefningunni. Vefðu henni um þig. Varpaðu af þér því sem búið er og gert. Það kemur alltaf nýr dagur. Byrjaðu upp á nýtt og nýttu reynsluna þína til góðs.
Altarisgangan á eftir er tilboð um fyrirgefningu. Áður en þú gengur til altaris færðu tækifæri til að biðja um fyrirgefningu og mig langar að hvetja þig til þess að biðja sjálfa(n) þig um fyrirgefningu líka. Þegar þú síðan neytir hins heilaga sakramentis, brauðs og víns, láttu þá fyrirgefninguna leika um þig. Sjáðu fyrir þér að nú munir þú hætta að refsa þér fyrir það sem sektarkenndin er að íþyngja þér með. Skilaðu því. Losaðu þig við það. Það er vilji Guðs. Þannig virkar fyrirgefning Guðs.
Lifðu í fyrirgefningunni. Leyfðu fyrirgefningunni að umvefja þig.
Amen.