Að reisa upp fólk – Prédikun um kraftaverk og bókstafstrú

Kraftaverkasögur
Það kemur fyrir að fólk segir mér sögur af kraftaverkum. Ég heyrði eina um daginn af manni sem bjargaðist á óútskýranlegan hátt þegar hann var við það að sofna undir stýri. Ég hef heyrt sögur af fólki sem hefur bjargast úr sjávarháska á ótrúlegan hátt. Ég hef líka séð kraftaverk gerast. Ég hef orðið vitni að því að fólk hefur bjargast, eða komist út úr erfiðum aðstæðum í lífi sínu. Ég hef orðið vitni að svo stórkostlegum hugarfars- og viðhorfsbreytingum, hjá fólki sem var búið að missa lífsviljann og lifði lífi sem skaðaði bæði það sjálft og fólkið í umhverfinu, að það er vel hægt að tala um kraftaverk.

Sumar kraftaverkasögur Biblíunnar eru erfiðari en aðrar. Sögur af því þegar Jesús reisir fólk frá dauðum eru erfiðastar af þeim öllum. Ástæðan er sú að þær vekja von um að ef þetta er satt allt saman þá ætti það alveg eins að geta gerst í dag. Þær kalla síðan fram vonbrigði yfir því að það er engin(n) að reisa við fólk í dag. Eða hvað?

Ég held að, hvort sem það er raunhæft eða ekki, þá komi sú stund eða þær stundir í lífi okkar allra að við vonumst eftir kraftaverki. Ég hef vonast eftir kraftaverki. Ég hef óskað og beðið Guð um að láta fréttirnar sem fékk, ekki vera sannar. Snúa tímanum til baka og breyta öllu. Gera allt gott á ný.

En það gerðist ekki.

Ekki bókstafstrú
Ég er ekki bókstafstrúar. Það er að segja, ég trúi ekki á allt sem stendur í Biblíunni á bókstaflegan hátt. En ég upplifi oft í samfélaginu í dag að sum þeirra sem ekki trúa, vilji gera mig og allt kristið fólk að bókstafstrúarfólki. Að prestum Þjóðkirkjunnar er gerð upp einhver barnaleg trú sem fæst okkar kannast nokkuð við. Þannig trúi ég ekki á sköpunarsögurnar í Gamla testamentinu sem sagnfræðilega réttar. Ég lít ekki á orð Páls postula sem lög sem mér beri að fara eftir því hann var manneskja síns tíma og undir áhrifum samfélagsins, sem hann var hluti af, með öllum þess takmörkunum og kostum. Ég sé Jesú fyrir mér sem birtingarmynd Guðs á jörðu. Þ.e. að Jesús hafi komið til að sýna okkur hvernig Guð er. Og bara svo það sé á hreinu þá er Guð ekki manneskja í mínum huga og ekki einu sinni eins og manneskja. Guð er sannarleg ekki hvítur miðaldra karl né heldur afrísk ung kona. Guð er allt í kringum okkur. Guð er kærleikurinn og ástin í okkur og allt í kringum okkur. Guð er það sem fær okkur til að vilja gera vel. Það sem kallar fram meðlíðan með öðrum og aðrar fallegar og góðar tilfinningar. Um leið er Guð eitthvað persónulegt sem ég get leitað til, eitthvað sem gengur á undan mér og á eftir mér og vill mér aðeins vel.

Kraftaverkasögur
Aftur að erfiðum kraftaverkum. Ef ég trúi ekki á Biblíuna bókstaflega en trúi því að Jesús sýni okkur hvernig Guð er hvernig er þá hægt að skilja söguna af því þegar Jesús gaf dánum syni ekkjunnar frá Nain, líf?

Í frásögunni segir að Jesús hafi kennt í brjóst um ekkjuna, að aðstæður hennar hafi náð inn í hjarta hans og snert það. Hann fann til samúðar með manneskju í ömurlegum og sorglegum aðstæðum. Þessi kona var búin að missa sitt eina barn og manninn sinn. Og auk þess hafði hún misst alla möguleika á framfærslu það sem eftir var ævinnar. Konur höfðu, á þessum stað og tíma, enga möguleika á að framfleyta sér sjálfar og segja má að börnin hafi verið nokkurskonar ellilífeyrir foreldra sinna. Þ.e. þeim bar skylda til að sjá fyrir foreldrum sínum í ellinni. Nú var enginn eftir til þess að sjá fyrir henni.

Sorg hennar var því margföld.
Sorg hennar fyllti hjarta Jesú og hann tók til sinna ráða.

Það getur vel verið að þessi saga hafi einmitt gerst svona. Kannski er hún stórlega ýkt og sögð til þess að gegna því hluverki að sýna fram á að Jesú hafi ekki bara verið venjuleg manneskja.
Heldur eitthvað meira.
Kannski Guð.

Það sem ég tel að skipti máli í þessari sögu er ekki hvort hún sé sagnfræðilega rétt og hvort hún hafi gerst nákvæmlega svona, heldur hvað hún segir okkur um Guð.
Hvernig er Guð út frá þessari sögu?

Þessi saga lofar okkur ekki kraftaverkum en hún sýnir okkur að Guð finnur til með okkur þegar við líðum.
Alltaf.

Hún sýnir okkur að þegar við erum í ömurlegum og sorglegum aðstæðum þá finnur Guð til með okkur því Guð vill okkur vel.
Alltaf.

Þessi saga lofar okkur ekki kraftaverki en kannski fær hún okkur til þess að vilja gera kraftaverk. Kannski gefur hún okkur viljann til þess að sjá kraftaverkin í kringum okkur. Kraftaverk er nefnilega ekki aðeins eitthvað yfirnáttúrulegt sem við getum ekki útskýrt. Kraftaverk getur líka verið það þegar við komum hvert öðru á óvart með elskusemi og kærleika sem við eigum ekki von á. Þegar við komum hvert öðru til hjálpar og þegar aðstæður náungans koma við hjarta okkar og fá okkur til þess að vilja vinna kraftaverk. Eins og Jesús gerði.

Þessi saga segir okkur að Guð vilji okkur vel og að vilji Guðs sé að í lífi okkar verði kraftaverk að einhverjum toga. Og ég er sannfærð um að kraftaverk séu að eiga sér stað allt í kringum okkur.

Að sum kraftaverk framkvæmum við sjálf með vilja okkar, styrk og dugnaði.

Að sum kraftaverk verði vegna elskusemi náungans.

Að sum kraftaverk verði vegna þess að kraftur Guðs er svo magnaður að þegar við finnum hann og viljum nýta okkur hann til góðs þá á sér stað kraftaverk.

Það er nefnilega hægt að reisa fólk upp og breyta aðstæðum fólks á margan máta.
Amen