Í augnhæð

Barnið í augnhæð
Eitt af því skemmtilegasta og besta sem ég geri er að skíra börn. Ég er svo þakklát fyrir að fá að vera með foreldrum og börnum við þessa stóru stund í lífinu þegar barnið er falið Guði og fjölskylda og vinir koma saman til þess að fagna tilvist þessarar nýju manneskju. Já og ekki er verra að fá að vera með þegar nafnið er nefnt í fyrsta sinn eins og enn er ríkjandi siður á Íslandi.

Um daginn var ég að skíra barn í heimahúsi og skírnarskálin var á afar lágu borði þannig að faðirinn, sem hélt á barninu undir skírn, byrjaði að beygja sig aðeins og svo aðeins meira, en fór að lokum alveg niður á hækjur sér og hélt þannig á barninu við skírnarskálina. Ég byrjaði líka á að beygja mig virðulega niður en fann fljótt að það var ekki að ganga og það endaði með því að ég var komin næstum því niður á hné og skírði barnið í þeirri stellingu. Þarna vorum við, faðir barnsins og ég á hækjum okkar á gólfinu, hann með barnið í fanginu og ég að ausa það vatni.

Þetta var eina aleiðin til þess að ná augnsambandi við barnið.

Það er nefnilega ekki hægt að ná augnsambandi við ungabarn nema að standa nálægt því og í sömu augnhæð og barnið.

Jesús í augnhæð
Hósíanna söng kórinn áðan af krafti en þetta voru einmitt fagnaðarorðin sem fólkið hrópaði þegar Jesús reið inn í Jerúsalem. En hann var þangað kominn til þess að halda upp á páskahátíðina.

Fólkið var svo ánægt með að hann væri að koma að það greip pálmagreinar og veifaði þeim í kringum sig af gleði, breiddi út fötin sín á jörðina fyrir framan hann og fagnaði þannig komu hans sem þau töldu vera bjargvætt sinn.

Þau voru glöð og eftirvæntingarfull. En eftir því sem leið á vikuna urðu hrópin lágværari og stemmingin dempaðri. Pólitíkin var á fullu. Það var verið að vinna í fólki. Fá það til að skipta um skoðun og sjá að Jesús væri ekki sá sem hann þættist vera. Baksviðið var plott og pólitík, skæruhernaður og ömurlegheit en Jesús var ekki til í að vera með. Hann var að boða frið á meðan þau hin skipulögðu hernað. Hósíannahórpin breytast smám saman í hróp um að krossfesta hann.

Við leggjum oft áherslu á það í kristinni trú, að Jesús hafi komið inn í borgina á asna en ekki stríðsfáki. Asnar voru ekki reiðskjótar hermanna eða konunga heldur almúgafólks. Asnar eru reiðskjótar sem við þekkjum ekki svo vel til hér á Íslandi. Við heyrum helst af þeim í biblíusögum og sjáum þá á biblíumyndum og því eru þetta kannski svolítið biblíuleg dýr í okkar huga. En asnar eru ekkert biblíulegir eða heilagir heldur eru þeir fyrst og fremst burðardýr og vinnudýr og alls ekki fínir reiðskjótar.

Þegar fullorðin manneskja ríður asna ná fæturnir næstum því niður á jörðina og hún er í augnhæð við þau sem ganga við hlið hennar. Þannig kom Jesús inn í Jerúsalem. Hann sat ekki á tignarlegum hesti eins og konungur eða hermaður. Hann horfði ekki niður á fólkið heldur mætti augnaráðum þeirra.

Hann mætti þeim þar sem þau voru.

Við í augnhæð
Hvernig mætum við fólki í augnhæð?
Hvenær horfum við niður?

Hvenær horfum við í aðra átt?
Hvenær horfum við upp?

Til þess að mæta fólki í augnhæð þurfum við að vera ekta. Við þurfum að vera grímulaus. Við þurfum að vera við sjálf. Það er erfitt að mæta augnaráði þess sem við vitum að er að segja okkur ósatt, þess sem við finnum að er að gera sér eitthvað upp. Það er líka erfitt að horfa í augun á fólki þegar við segjum ósatt, þegar við erum að gera okkur eitthvað upp.

Það að mæta fólki í augnhæð krefst ákveðinnar einlægni. Þú treystir fólki betur sem horfir í augun á þér og mætir þér þar sem þú ert heldur en þeim sem horfir niður á þig eða lítur undan.

Jesús mætti öllum í augnhæð. Hann setti sig ekki yfir fólk. Hann bjó sér ekki til hásæti og lét ekki steypa af sér styttur. Hann krafðist ekki aðdáunar og dýrkunnar.

Við vitum öll að til er fullt af fólki sem gerir einmitt þetta. Við sjáum það bara allt í kringum okkur, líka á Íslandi. Fólk sem þarf aðdáun annarra og býr sér til hásæti.

Þau sem eiga hásætin skilið myndu aldrei skapa sér þau sjálf. Þau sem eiga skilið orður myndu aldrei stinga upp þeim. Þau sem eiga skilið að fá af sér styttur myndu aldrei láta sér detta í hug að það væri góð hugmynd.

Og sá sem fékk hæsta sætið, allar stytturnar, bækurnar um sig, byggingarnar og hina sönnu aðdáun fólksins, kom á asna. Hann mætti fólkinu í augnhæð.

Það koma þær aðstæður í lífi okkar allra að við getum ekki annað en horfst í augu og mæst þar sem við erum. Sumar aðtæður eru þess eðlis. Það er ekki hægt að þykjast vera önnur en við erum þegar við stöndum frammi fyrir dauðanum. Og það er ekki heldur hægt þegar við mætum nýju lífi. Nýfædda barnið krefst þess að við mætum því þar sem það er. Það treystir þér.

Það er þá sem við þurfum að fara niður á hné og vera við sjálf, taka af okkur allar grímur og vera einlæg. Þannig ættum við alltaf, þegar það er mögulegt, að reyna að mæta hvert öðru, af einlægni og með því að vera við sjálf. Þannig mætir Jesús þér og mér.
Í augnhæð.
Amen.